Formaður SUS kærir Tekjur.is

Fyrir stuttu opnaði síðan tekjur.is, en þar á að vera hægt að finna upplýsingar um tekjur allra fullorðinna Íslendinga. Til að fá aðgang að þessum upplýsingum á síðunni þarftu að borga tæplega 3000 krónur fyrsta mánuðinn og eftir það er mánaðargjald 790 krónur.

Ingvar Smári Birgisson

Ingvar Smári Birgisson

Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna  og lögfræðingur, lagði fram lögbannsbeiðni í dag hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu gagnvart Viskubrunni ehf., sem starfrækir vefinn tekjur.is.

Í yfirlýsingu hans vegna málsins segir meðal annars að það megi færa sterk rök fyrir því að sala á aðgangi að gagnagrunni sem inniheldur upplýsingar um skattgreiðslur allra landsmanna sé lögbrot.

,,Ég tel að birting fjárhagsupplýsinga allra skattgreiðenda á vefnum tekjur.is feli í sér ómaklega aðför að stjórnarskrárvörðum rétti almennings til friðhelgis einkalífs. Með starfrækslu vefsins er að mínu mati farið út fyrir heimildir þeirra ákvæða sem hafa legið að baki opinberri umfjöllun um laun og skattgreiðslur Íslendinga í gegnum árin,” segir einnig í yfirlýsingunni.

Síðan er búin að vera mjög umdeild frá opnun og fólk hefur haft ýmislegt að segja um síðunna á Tístinu.

Hér má lesa yfirlýsingu Ingvars Smára Birgissonar í heild sinni: 

„Ég tel að birting fjárhagsupplýsinga allra skattgreiðenda á vefnum tekjur.is feli í sér ómaklega aðför að stjórnarskrárvörðum rétti almennings til friðhelgis einkalífs. Með starfrækslu vefsins er að mínu mati farið út fyrir heimildir þeirra ákvæða sem hafa legið að baki opinberri umfjöllun um laun og skattgreiðslur Íslendinga í gegnum árin. Í ljósi þess tel ég rétt að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggi lögbann við vinnslu Viskubrunns ehf. á fjárhagsupplýsingum Íslendinga og að félaginu verði gert að afmá upplýsingarnar af vefsíðu sinni, tekjur.is. Í kjölfarið sé svo hægt að takast á við um lögmæti lögbannsins fyrir dómstólum.

Sterk rök má færa fyrir því að sala á aðgangi að gagnagrunni sem inniheldur upplýsingar um skattgreiðslur allra landsmanna sé lögbrot. Persónuvernd hefur áður fallist á að birting upplýsinga úr skattskrá Ríkisskattstjóra, mjög svipuð þeirri sem á sér stað á tekjur.is, sé ólögmæt. Þá verður að hafa í huga að ákvæði það sem Viskubrunnur ehf. ber fyrir sig, 2. mgr. 98. gr. tekjuskattslaga, var lögfest fyrir tíma internetsins. Um er að ræða ákvæði sem felur í sér takmörkun á borgaralegum réttindum og því sé rétt að skýra það þröngt, þannig að gildissvið ákvæðisins sé takmarkað sem mest. Enn fremur hefur réttarvernd almennings gagnvart notkun á persónuupplýsingum þeirra verið styrkt til muna með tilkomu nýrra laga um Persónuvernd.

Verði ekki fallist á lögbann verður tekið til skoðunar að leita álits dómstóla á því hvort vegi hærra, réttur almennings til friðhelgis einkalífs eða réttur almennings til þess að starfrækja gagnagrunn á internetinu sem inniheldur upplýsingar um laun og skattgreiðslur skattgreiðenda.“

Vinsælast

Sólrún Sen