20.000 manns mæta í Druslugönguna, gangan er fyrir alla

Nú er stutt í hina árlegu Druslugöngu sem verður haldin 28. júlí, laugardaginn næstkomandi. Tveir af skipuleggjendum göngunnar, Helga Lind Mar og Eva Sigurðardóttir, segja að áhersla Druslugöngunnar í ár sé að gangan sé fyrir alla.

IMG_0464.JPG

,,Ofbeldi fyrirfinnst í öllum samfélagshópum. Ofbeldi er líka marglaga. Mismunandi hópar upplifa mismunandi ofbeldi. Ofbeldi sem konur úr minnihlutahópum upplifa er kannski öðruvísi en ofbeldi sem hvítar millistéttarkonur verða fyrir.

Þemað í ár er að það er ekkert þema. Druslugangan er regnhlífin okkar, svo eru háðar mismunandi baráttur undir henni. Gangan er ekkert nema fólkið sem mætir í hana.

Ofbeldið er allstaðar. Við þurfum að taka jafn mikið á öllum tegundum ofbeldis. Engin tegund af ofbeldi skiptir minna máli. Allir eiga að geta fundið sinn tilgang og sinn stað í göngunni.”

MÁLEFNIÐ MIKILVÆGARA EN RIGNINGIN

Aðspurðar um veðurspána fyrir laugardaginn segja Eva og Helga að þær hafi tekið meðvitaða ákvörðum um að kíkja ekki á hana. ,,Veðrið skiptir líka ekki öllu máli, fólki finnst mikilvægt að mæta í gönguna sama hvað.” Þær benda á að Druslugangan hefur stækkað hratt frá því hún var fyrst haldin árið 2011.

Búist er við um 20.000 manns  í gönguna á laugardaginn. ,,Markmiðið er samt ekkert endilega að stækka og stækka Druslugönguna, markmiðið er að hún sé það stór að fólk sjái að þetta er sterkur hópur. Það er ekkert hægt að þagga niður í okkur. Það að fá ógeðslega mikið af fólki bara til að hafa ógeðslega mikið af fólki; maður veit ekkert endilega hverju það skilar. Það snýst ekki allt um fjöldan, þetta snýst miklu frekar um samstöðuna. Þeir sem mæta, mæta og eru saman. Það er líka svo mögnuð stemning sem myndast í göngunni burtséð frá fjölda mættra.”

DRUSLUGANGAN ER EKKI TÍSKUSÝNING

Mismunandi Metoo hópar hafa sagst ætla að mæta sem eining. ,,Íþróttakonur eru einmitt að hugsa um að mæta í íþróttabúningunum. Það er mjög sterkt að þær geta komið saman og sýnt að kynferðisofbeldið sé ekki í lagi. Bara það að þær mæti í íþróttagöllunum sínum og labbi saman, það er ótrúlega sterk yfirlýsing.”

Druslugangan snýst einmitt um að geta sagt eitthvað án orða, tjáningin felst í klæðnaðinum. Hún er ekki tískusýning.

Í ár er til dæmis hægt að fá boli sem stendur á ,,ég er ekki lygari.” Helga Lind segir að stærsta augnablikið í hennar bataferli hafi einmitt verið þegar hún klæddist þeim bol í Druslugöngunni fyrir nokkrum árum. ,,Ég hágrenjaði alla Druslugönguna í þessum bol. Þarna var ég komin með tól til að segja fokkjú við alla sem höfðu ekki trúað mér.

Gangan er fyrst og fremst þetta. Valdeflingartól.

Hafi þið séð breytingar á kynjahlutföllum þeirra sem ganga í Druslugöngunni frá því hún var fyrst haldin á Íslandi?

,,Já mjög miklar. Það er líka orðið eðlilegt að fara í gönguna. Fólki finnst þú ekki að vera með eitthvert  óþægilegt statement. Því finnst það vera kommon sens að mæta. Þú mætir í gönguna því við þurfum að sýna stuðning og samstöðu.

Fólk af öllum kynjum og úr öllum samfélagshópum mætir. Þetta er ekki bara fyrir hvítar konur.”

Á meðan í ár er lögð áhersla á að Druslugangan sé fyrir alla, þá voru áhersluatriðin í fyrra stafrænt kynferðisofbeldi og uppreist æru kynferðisafbrotamanna. ,,Okkar krafa var að verkferlar í kringum uppreist æru yrðu endurskoðaðir og  breytingar verði á hegningarlögum varðandi stafrænt kynferðisofbeldi.”

Það sem gerðist í kjölfarið var að það myndaðist lagalegt tóm, þar sem lögin um uppreist æru voru einfaldlega tekin út en engin ný lög komu í staðin, en nú er verið að vinna að frumvarpi til að bæta úr því eins og kemur fram í fréttaklausu á Vísi.

,,Það þarf bara að fylgjast með því að ný lög tryggi að lögmenn sem brjóta á börnum geti ekki farið að vinna aftur sem lögmenn.”

RADDIR DRUSLUGÖNGUNNAR HEYRAST

Í fyrra logaði samfélagið vegna þess að tveir dæmdir barnaníðingar fengu uppreista æru, sem þýðir að mannorð þeirra eru úrskurðuð óflekkuð og þeir geta sinnt ýmsum störfum og embættum sem þeir hefðu annars ekki löglega geta unnið við. Robert Downey var kærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum og fékk fangelsisdóm vegna þess, þar að auki missti hann lögmannsréttindi sín. Eftir að hafa fengið uppreista æru í fyrra, gat hann sótt um lögmannsréttindin aftur. Ítarlega er fjallað um málið í frétta á Stundinni. 

,,Þolendur Robert Downeys héldu ræðu í Druslugöngunni í fyrra.” Þó að samfélagið í heild sinni hafi ollið því að lögum í kringum uppreist æru verði breytt eins og Eva og Helga benda á, þá er Druslugangan klárlega vettvangur fyrir þær raddir samfélagsins sem vilja láta í sér heyra í krafti fjöldans.

20.000 manns labba með þér í liði

,,Það er líka spurning hvort fólk hefði orðið svona reitt ef þetta mál hefði komið upp fyrir nokkrum árum. Hefði fólk talað jafn mikið um þetta?” En eins og flestir hafa tekið eftir þá hefur heldur betur orðið vitundarvakning þegar kemur að kynferðisbrotamálum, bæði varðandi fjölda og algengi þeirra, en líka hvar skömmin sem fylgir þeim á raunverulega heima (ekki hjá þolendum)

Helga segir frá því að besta vinkona hennar hafi farið í viðtal árið 2013 um kynferðisofbeldið sem hún lenti í. ,,Viðmótið sem hún fékk þá gaf henni þau skilaboð að hún væri búin að eyðileggja feril sinn. Það gæti aldrei orðið neitt úr henni. Þetta eru ekki nema fimm ár síðan. Ef þú varst þolandi kynferðisofbeldis þá varstu búin að merkja þig sem skemmda vöru.”

Eva bendir á að það sé mikilvægt að fólk viti af stuðningnum frá samfélaginu. ,,Fólki finnst það auðveldara í dag að koma fram og segja frá. Druslugangan hefur verið stuðningsnet fyrir fullt af fólki sem hefur lent í kynferðisofbeldi.

Við eigum það til að upplifa okkur ein. Samfélagið þaggar niður í okkur, en í Druslugöngunni eru 20.000 manns að labba með þér í liði.”

Mynd tekin af Facebook síðu Druslugöngunnar

Mynd tekin af Facebook síðu Druslugöngunnar

LÍKA MIKILVÆGT AÐ TRÚA SJÁLFUM SÉR

Sem betur fer hefur ótrúlega margt breyst hvað varðar viðhorf fólks til þolenda kynferðisofbeldis og kynferðisofbeldis yfir höfuð. Bara það að orðið drusla hefur allt aðra merkingu en það gerði fyrir örfáum árum. ,,Á fyrstu árum Druslugöngunnar fór orka skipuleggjendanna í að verja nafnið á göngunni. Það er ennþá fólk sem kemur með skot, en vegna markaðsherferðarinnar árið 2015 er fólk ekki eins líklegt til að misskilja. Þá voru auglýsingar út um allt  með myndum af allskonar fólki, og undir þeim stóð ,,ég er drusla.”

Á örfáum árum erum við orðin miklu betri í að takast á við ofbeldi. En við erum ekki enn komin á þann stað þar sem ofbeldinu er ekki beitt yfir höfuð. Við erum góð í að skila skömminni en við þurfum að komast þangað þar sem er engin skömm til að skila og ekkert brot sem er framið.”

Fólk er líka orðið duglegra að trúa þolendum kynferðisofbeldis, en það má ekki gleyma að trúa sjálfum sér, minna þær Eva og Helga á. ,,Á sama tíma og þú sýnir öðrum stuðning þá ertu líka að styðja sjálfan þig.

Þessvegna vorum við með bolina í fyrra sem stóð á ,,ég stend með mér”, en áður höfðum við verið með boli sem stóð á ,,ég mun standa með þér” og fleira í þeim dúr.” En áhersla var lögð á í fyrra að fólk er tilbúið að standa með vinum sínum og trúa þeirra sögum af ofbeldi, en setur ofbeldið sem það sjálft lendir í, í einhvern allt annan flokk.

KYNLÍF ER FLÓKNARA EN JÁ OG NEI

Í því samhengi benda Eva og Helga á hve mikið vantar upp á kynfræðslu barna. ,,Kynlíf er samskipti. Þeir sem hafa upplifað flókið kynlífssamband vita að þetta er allt öðruvísi en svo að hægt sé að smækka þetta niður í tvö eins atkvæða orð, já og nei.

Við erum líka að tala um það að strákar eru að byrja að horfa á klám 11 ára gamlir. Það er mikilvægt að þeir geti horft á það með gagnrýnu hugarfari, og þeir viti að þetta er ekki eins og í raunveruleikanum. Ef eina birtingarmyndin af kynlífi sem þeir sjá er klám og bíómyndir þá finnst þeim ekkert óeðlilegt að annar aðilinn í kynlífi sé óvirkur, þar sem annar aðilinn upplifir kynlíf og hinn ofbeldi. Núna erum við öll ógeðslega tilbúin til að vera á móti gerendum, en við þurfum að átta okkur á því að við getum öll verið gerendur.

Við þurfum að gefa fólki tólin til að kunna á þessi samskipti áður en við byrjum að eiga þau í fyrsta sinn. Okkur getur öllum orðið á. Við getum öll farið yfir mörk annarra. En við þurfum að geta áttað okkur á því.

Teljið þið að það ætti að kenna kynfræðslu fyrr en nú er gert?

,,Já og það þarf að breyta kynfræðslunni. Það eru sumir foreldrar sem vilja ekki tala um kynlíf snemma við börnin sín og sumir segja að það sé ekki hlutverk skólans að fræða börn um kynlíf.”

Helga segir að þegar átti að fara að veita hennar bekk kynfræðslu hafi kennarinn einfaldlega sagt ,,við ætlum að sleppa kafla sjö.” Hann var eldri maður sem fannst svo óþægilegt að tala um kynlíf við okkur að hann sleppti bara kaflanum um það.

Það þarf líka að kenna kynjafræði, samskipti kynjanna og hvað kynjafræði yfir höfuð er.”

Í vikunni verða haldin þrjú fræðslukvöld eða drusluspjöll í Hinu Húsinu, þar sem rætt verður hvernig samfélagið getur spornað við kynferðisofbeldi og nauðgunarmenningu. Fyrsta drusluspjallið er í kvöld og næstu tvö verða haldin á fimmtudeginum og föstudeginum. Síðan verða tónleikarnir Yung sluts í Hinu Húsinu á miðvikudeginum en við ræddum við strákanna í hljómsveitinni Bagdad Brothers sem munu koma fram á Yung Sluts.

Á miðvikudeginum er svo líka hið árlega Druslu peppkvöld á Húrra. Nánar um þessa viðburði má finna á facebook síðu Druslugöngunnar.


Sólrún Freyja Sen skrifaði

 

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen