Nýkjörinn jafnréttisfulltrúi SÍF leggur áherslu á kynjafræðslu og réttindi fatlaðs fólks

20180404_161619.jpg

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Enar Kornelius Leferink er nýkjörinn forvarnar- og jafnréttisfulltrúi Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Enar er að ljúka störfum sem forseti Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð. Hann segist vera mikill baráttumaður jafnréttis og þar að auki þekkir hann fólk í stjórn SÍF sem hann telur sig geta unnið vel með.

Málefni sem Enar ætlar að beita sér fyrir í nýja starfinu fjalla meðal annars um aukna áherslu á réttindi fatlaðs fólks, flóttamanna og innflytjenda.

,,Það var verið að stofna vinnuhóp fatlaðra nemenda. Hópurinn er um þessar mundir að ræða hvaða stefnu hann ætlar að taka, þá hvort stefnt verði að því að leggja aðal áherslu á sýnileika fatlaðs fólks og aukinn skilning á

aðstæðum þeirra, eða þrýsta á skólastjórnendur að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk.

Svo erum við að sækja um styrk til að halda vinnuhelgi þar sem farið yrði yfir málefni flóttamanna,” segir Enar.

SÍF hefur verið virkt í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og segir Enar að ekki verði slakað á henni.

Á sambandsstjórnarfundi SÍF sem var haldinn á Akureyri í mars síðastliðinn  var samþykkt ályktun um að það þurfi að auka kennslu kynjafræði í framhaldsskólum.

,,Það á eftir að ákveða hvort kynjafræði verði skyldufag, hvort það eigi að bjóða upp á kynjafræði sem valáfanga í öllum framhaldsskólum eða hvort það ætti að vera kennd kynjafræði í lífsleiknitímum á fyrsta ári. En það er klárlega stefnt að aukinni kynjafræðikennslu í skólum.”

Vinni þið mikið með stjórnvöldum?

,,Við reynum eins og við getum að komast að hjá stjórnvöldum. Það er oft verið að tala um hvað það er hlustað lítið á ungt fólk og það er virkilega erfitt að ná sambandi við stjórnvöld. Við fórum í dag á fund með Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, en það er eitthvað sem við gerum einu sinni á ári.

SÍF er eiginlega eina tæki framhaldsskólanema til að ná til stjórnvalda. Ég vona að SÍF fái aukinn þátt í ákvarðanatöku stjórnvalda. Það er mjög skrýtið að stjórnvöld ákveði eitthvað um einhvern hóp án þess að leyfa viðkomandi hóp að vera með í ákvörðuninni, “ segir Enar að lokum.

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen