Í minningu Einars Darra, ofurstjarna í mótun.

35343378_10216652789740176_1282726140825305088_n.jpg

Í tíma og ótíma fáum við að heyra um hættu fíkniefna, oftar en ekki þá finnst okkur þetta vera fjarstætt okkur og hugsum ekki til þess að einn daginn gætum við þurft að finna fyrir sársaukanum sjálf.

Einar Darri Óskarsson var ekki nema 18 ára þegar hann lést á heimili sínu í Hvalfjarðarsveit 25. maí síðastliðinn. Ímynd okkar af þeim sem leiðast út í fíkniefnaneyslu er oft bjöguð og óraunhæf, Einar var vel gefinn strákur sem stóð sig vel í skóla og vinnu, var vinamargur og hamingjusamur.

Einar stundaði líkamsrækt á hverjum degi, passaði upp á heilsuna, var náinn fjölskyldu sinni og varði tíma með þeim við hvert tækifæri. Á yfirborðinu var hann með allt á hreinu. Fólk eins og Einar er gott dæmi um það að fíkniefni fara ekki í manngreiningaálit, hver sem er getur lent í klóm þeirra.

Eins og flestir kannast við sem þekkja einhvern sem hefur þurft að kljást við fíknivanda þá þarf oft margar tilraunir fyrir fíkil að ná sér á strik.

Þetta er miserfitt fyrir fólk og flestir þurfa að gera mistök og læra af þeim. Einar var búinn að reyna að hætta af sjálfsdáðum en það hafði ekki alveg gengið upp fyrir hann. Hann þurfti kannski bara aðeins meiri tíma til þess að átta sig á skaðanum sem neyslan var að valda. Áður en að bæði allir í kringum hann og hann sjálfur höfðu gert sér grein fyrir því hversu alvarlegur vandinn var orðinn þá var það orðið of seint.
 

Undarfarin ár hefur mikið verið talað um aukinn kvíða barna og unglinga, Einar var eitt þessara barna. Ólíkt mörgum þá var Einar mjög opinn með sinn kvíðavanda og leitaði sér hjálpar samstundis. Þrátt fyrir hjálp hjá sálfræðingum og að hafa tekið það sem virtust allt vera hárréttar ákvarðanir þá sat kvíðinn ennþá eftir í honum. Við höfum talað um lyfið Xanax áður, þetta er kvíðalyf sem hefur verið að gera mikið vart við sig á síðustu þremur árum hér á landi. Það var ekki fyrr en að Einar kynntist þessu lyfi í gegnum tónlistina sem hann hlustaði á, að hlutirnir byrjuðu að fara úr böndunum hjá honum. Rétt eins og margir aðrir þá hafði hann loksins fundið lausnina við kvíðanum sem hafði verið að hrjá hann.  

pasted image 0.png

Fyrstu upplýsingar sem flestir unglingar fá í dag um lyf eins og til dæmis Xanax og Oxycontin eru ekki frá forvörnum eins og þær ættu að vera heldur fá þeir að heyra um lyfin í gegnum tónlist sem er vinsæl í dag. Það er ekkert nýtt að tónlistarmenn tali um fíkniefni, margar af vinsælustu hljómsveitum allra tíma hafa talað opinskátt í hugbreytandi efni bæði í viðtölum og í textum.

Samkvæmt bandarískum rannsóknum þá er áfengis og vímuefnaneysla líklegri hjá þeim sem hlusta á tónlist tengda viðfangsefninu. Við erum í miðri öldu  „trap“ tónlistarinnar sem upphefur og snýst í kjarna sínum um eiturlyfjaneyslu og sölu. Hugtakið ,,trap” í þessu samhengi er skilgreint sem staður þar sem sala á eiturlyfjum á sér stað. Það er mikið talað um lyfseðilsskyld lyf í svona tónlist og sérstaklega í því samhengi að lyfin geti lagað sársaukann sem að fylgir bæði kvíða og þunglyndi.
 

Neyslumynstur ungmenna virðast vera að breytast, félagslyndir og gáfaðir krakkar eins og Einar sem passa ekki í staðalímyndina okkar af hinum dæmigerða fíkniefnaneytanda, freistast til þess að prófa lyf sem eru töluvert hættulegri og meira ávanabindandi en efnin sem voru í ,,tísku“ hjá fyrri kynslóðum. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum frá lyfjafræðingi hjá landlækni þá hafa þegar orðið u.þ.b. 25 dauðsföll, það sem af er ári vegna eiturlyfjaneyslu, til að setja það í samhengi voru 20 dauðsföll árið 2015 og árið aðeins hálfnað núna.

Það þurfa að vera róttækar breytingar í samfélaginu, fræðsla fyrir ungmenni um hættu lyfseðilsskyldra lyfja og hversu ávanabindandi þau geta verið er ekki næg.

Það hefur verið stofnaður minningarsjóður í nafni Einars sem rennur til styrktar málefna sem ætluð eru til að hjálpa ungu fólki í fíkniefnavanda. Fjölskylda og vinir Einars Darra eru nú þegar byrjuð að vinna að forvarnarverkefni sem einblínir á forvarnir gegn misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja meðal ungmenna á Íslandi. Forvarnarverkefnið mun verða kynnt á næstunni, þar á meðal hér á Babl.

Þeir sem vilja styrkja málefnið geta lagt inn sitt framlag á eftirfarandi reikning:

Reiknisnúmer: 0354-13-200240

Kennitala: 160370-5999

Kristján Ernir Hölluson skrifar

 

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen