Sólborg í Áttunni! ,,Það skilar sér að troða sér"

Sólborg Guðbrandsdóttir er nýr meðlimur Áttunnar, en hún hefur sungið frá því hún man eftir sér og verið dugleg að koma sér á framfæri, sem virðist vera að skila sér.

,,Ég hef alltaf verið að dugleg í að troða mér í allskonar dæmi. Ég tróð mér í The Voice- keppnina, eða ég var beðin um að taka þátt í hittiðfyrra”, en fyrir utan það hefur Sólborg meðal annars keppt í undankeppni Eurovision á Íslandi og tók þátt í Samfés fyrir nokkrum árum.

,,Það skilar sér að troða sér.”

 Tekin af facebook síðu Áttunnar

Tekin af facebook síðu Áttunnar

Það virðist heldur betur gera það. Sólborg segir að hún ætli að reyna að nýta sönghæfileika sína eins mikið og hún getur í Áttunni: ,,Við erum nýbúin að gefa út eitt lag sem heitir Einn Séns, þar fékk ég svolítið að syngja, en við stefnum að því að gefa út annað lag vonandi í sumar. En ég mun alveg troða mér eins mikið og þau leyfa mér.”

 

Hvenær datt þér í hug að sækja um að vera í Áttunni?

,,Ég var búin að sjá auglýsingar um starfið út um allt og nýhætt að vinna sem blaðamaður, þannig mig vantaði vinnu. Þetta heillaði mig bara mjög mikið. Ég ákvað að sækja um á rúntinum með vinkonu minni, sendi þeim skilaboð, svo var ég boðuð í prufu og hér er ég. Algjör skyndiákvörðun, sko.”

Eins og kemur fram á heimasíðu Áttunar, er fyrirtækið hugsað sem leið fyrir ungt fólk til að koma sér á framfæri. Sólborg segir að nú þegar mánuður af veru hennar í Áttunni sé liðinn hafi hún fengið ógrynni af verkefnum og tækifærum.

,,Ég er búin að vera að semja tónlist í nokkur ár. Það er vissulega erfitt að byrja einn frá grunni, það eru ekkert margir sem ná á eigin spýtur að koma sér á framfæri í þessum bransa, en að fá aðila til að vinna með sér er rosalega mikilvægt.

Til dæmis hefði ég ekki verið að gefa út lag núna í sumar ef að ég væri ekki í Áttunni. Það er fullt af tækifærum sem ég væri ekki að fá ef þeir í Áttunni stæðu ekki við bakið á mér. Ég er bara búin að vera í mánuð hjá þeim og er strax búin að fá fullt af verkefnum út af því.

Það er strax að sýna sig hvað það er magnað að vinna með þessum krökkum. Þau eru alveg með þetta á hreinu.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen