Rölt í rigningunni í Reykjavík

Elísabet Rún er búin að vera semja sögur og teikna myndir í rúman mánuð um þessar mundir, sem hluti af verkefni sem heitir Reykjavíkurröltið og er unnið með listhópum Hins hússins.

Rolt-teaser-Babl.jpg

Elísabet segir að verkefnið hafi gengið vel og verið áhugavert að vinna. ,,Það er búið að vera mjög skrýtið að vinna svona hratt og gera eina sögu á viku. Ég bjóst alveg við að það yrði erfitt, en það var eiginlega erfiðara en ég hélt. Mér finnst svo gott að hugsa sögurnar lengi, og ég er náttúrulega mjög lengi að teikna. Ég þurfti að vinna einhvern veginn allt öðruvísi.

 

Það var líka fínt að prufa það.” Ein sagan, Reykjavík í rigningu, var samin á einum degi með teikningum,  en sagan er tileinkuð veðurfari í Reykjavík síðastliðna mánuði.

Á föstudagsfiðrildunum svokölluðu, sem hafa verið nokkur talsins það sem af er sumri, voru listhóparnir með viðburð af einhverju tagi.  Á föstudagsfiðrildunum hefur mátt finna Elísabetu í bænum um hádegisbil að teikna og klára sögur á staðnum í stað þess að vinna þær heima og á lengri tíma. ,,Það gekk bara ágætlega. Það var náttúrulega mjög kalt, en það var mjög gaman. Það var gaman að sjá hvernig einhverjir voru forvitnir en líka fyndið að vera bara úti í horni að teikna og enginn tók eftir því. Þannig ég gat verið að teikna alla í kringum mig án þess að þeir tækju eftir því. Það var mjög skemmtilegt að prófa það.”

Af fólki sem sækir bæinn um hádegisbil, á þeim tíma sem Elísabet er á röltinu að finna innblástur og teikna, þá eru flestir ferðamenn eða fólk að drífa sig í hádegispásu. ,,Þannig það eru ekki margir sem hafa stoppað við hjá mér, en alveg einhverjir.”

Elísabet myndi mæla með að sækja um að taka þátt í listhópum Hins Hússins ef manni langar að vinna sjálfstætt og er með hugmynd sem maður vill framkvæma. ,,Þá er þetta mjög skemmtileg leið.”

Elísabet segir að hún hefði þó verið til í meiri samskipti við hina listhópanna. ,,Það er náttúrulega mjög misjafnt hvernig hóparnir passa saman. Það hafa nokkrir verið að vinna saman og það hefur tekist mjög vel en það er ekki eins augljóst hvernig myndasöguhöfundur getur unnið með innsetningarhópi eða tónlistarfólki. En það hefði örugglega verið gaman ef það hefði verið meiri tími til.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Vinsælast

Aðrar fréttir 

Sólrún Sen