Sjálfsagt mál að stofna karlaathvarf en karlar þurfa að gera það, viðtal við Ernu Línu

Sólrún Freyja Sen skrifar:

20180308_185612.jpg

Þann 8. mars var alþjóðlegur baráttudagur kvenna gegn kúgun, og í tilefni þess komu konur fram í Tjarnabíói og ræddu málefni kvenna. Ein þeirra var Erna Lína, sem hefur verið virk í umræðunni og pólitíkinni síðustu misseri.

Mest lesið

Erna er yngsta manneskjan í Íslandssögu til að vera oddviti lista í ríkisstjórnarkosningum, en hún leiddi lista Alþýðufylkingarinnar í kraganum, fyrir kosningar 2017. Það var þá í annað skipti sem hún bauð sig fram, en hún bauð sig líka fram árið 2016.

Erna segir að hún skilgreini sig þó ekki sem róttækling, en Alþýðufylkingin þykir róttæk í stefnumálum sínum. “Að vera róttæklingur hefur bæði mjög víðtæka merkingu og það er ákveðinn stimpill sem fylgir því. Mér finnst stimplar óþægilegir, ég er bara ég.”

Erna segir að hún bjóði sig að öllum líkindum ekki fram til sveitarstjórnakosninga, enda þurfi hún að einbeita sér að náminu, en hún er á fyrsta ári í sálfræðinámi.

Í Tjarnabíói hélt hún ræðu sem fjallaði um hversdagslega kúgun kvenna, afhverju það umræðuefni?

Ég fór að hugsa um alla þessa hversdagslegu kúgun sem á sér stað á hverjum einasta degi. Í dag er verið að taka fyrir nauðganir og nauðgunarmenningu. En mér finnst að þeir sem eru að kynferðislega áreita eða beita kynferðislegu ofbeldi þurfi að opna augun fyrir því sem þeir eru að gera. Þeir átta sig aldrei á því. Þú heyrir aldrei neinn sem hefur gerst sekur um kynferðislegt áreiti segja “já ég er manneskja sem kynferðislega áreitir”. Þeir fatta það aldrei.”

Erna segir að það þurfi að fræða fólk um afhverju þetta sé ekki í lagi, að áreitni sé ekki ásættanleg viðreynsla við stelpur.

Á meðan að allir eru jafnir samkvæmt lögum, að þá vanti upp á jafnrétti og gagnkvæma virðingu milli kynjanna frá degi til dags. Í daglegum samskiptum komi misrétti milli kynjanna skýrt fram. “Það sem vantar aðallega er vitundarvakning meðal almennings, það er ennþá ákveðið stigma í kringum kynferðislega áreitni.”

Erna segir að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna í hversdagslegum samskiptum þeirra sé mikilvægari en sumum gæti fundist. “Þetta virðist ekki vera neitt mál en skiptir í alvörunni ótrúlega miklu máli. Svona áreiti hefur djúp áhrif á fólk. Það er kannski ekkert mál að lenda í því í einhver örfá skipti, en þegar þú ert að lenda í því á hverjum einasta degi, í hvert skipti sem maður vogar sér að fara út úr húsi, þá hefur það mikil áhrif á þig. Það hjálpar ekki að þeir sem verða vitni að áreitinu horfa bara eitthvert í burtu og þora ekki að skipta sér af. Það er aðal vandamálið. Þetta brýtur mann niður hægt. Dropinn holar steininn.

Það er mikilvægt að strákar líti ekki á þetta sem bara vandamál kvenna, að mati Ernu. Þetta kemur þeim ekki bara óbeint við í gegnum konur sem þeir þekkja og þykja vænt um, heldur hefur áreiti sem að konur lenda í af hálfu hins kynsins skemmandi áhrif á samskipti kynjanna. Þegar að konur hreita fúkyrðum í velviljandi menn á djamminu að þá er ástæða fyrir því. “Það er afþví að konur hafa langflestar lent í þessum hálvitum sem áreita þær eða beita þær ofbeldi.”

Það þýðir ekki að allir karlmenn séu nauðgarar eða einhverjir pervertar.

“Ef ég er að tala um nauðgun, nauðgunarmenningu, eða nauðgara við karlmenn, þá taka þeir því oft þannig að ég sé að segja að allir karlmenn séu að nauðga. Eða að karlmönnum sé ekki nauðgað. Það er enginn að segja að allir karlmenn séu nauðgarar, og það vita allir að körlum verður líka nauðgað. Karlar verða líka fyrir kynferðislegu áreiti, og kynferðisofbeldi.”

Hinsvegar snúist #metoo byltingin og alþjóðlegur baráttudagur kvenna um konur, og það misrétti sem þær verða fyrir. En þyrfti ekki svipaða hreyfingu og baráttu fyrir karla?

“Ég bjó í kvennaathvarfinu í þrjá mánuði þar sem ég var að flýja heimilisofbeldi. Þegar ég talaði um að ég væri í kvennaathvarfinu þá fékk ég spurninguna um afhverju það sé ekki til karlaathvarf. Ég í rauninni vissi ekki hverju ég ætti að svara, og þessvegna spurði ég konurnar sem sáu um kvennaathvarfið.

Þeim fannst sjálfsagt að hafa karlaathvarf, en þá þurfa karlar að stofna það. Það er ekki hægt að búast við því að konur sjái um konur og líka karla. Auðvitað geta konur hjálpað körlum, en þeir þurfa að byrja. Þeir þurfa að stíga fyrsta skrefið.”

“Ég sem manneskja sem hef lent í kynferðisofbeldi og hef verið í kvennaathvarfinu þar sem ég var að flýja heimilisofbeldi,  ég hefði ekki viljað að karlmenn tækju á móti mér og hjálpi mér. Ég get alveg ímyndað mér að karlar sem að lenda í ofbeldi af hálfu kvenna vilja ekki að það sé hópur af konum sem koma að taka á móti þeim.” 

Sólrún Sen