Mikilvægt að fræða um fjölbreytilega geðsjúkdóma, viðtal við Elísabetu Brynjarsdóttur

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Nýlega opnaði geðfræðslufélagið Hugrún síðuna http://gedfraedsla.is/. Á síðunni er hægt að sjá fræðslu um hina ýmsu geðsjúkdóma, og viðtöl við einstaklinga sem kljást við þá. Á síðunni má einnig finna upplýsingar um úrræði ef þú verður andlega lasin.

Mest lesið

“Svo fréttum við af því að heilbrigðisstarfsfólk var að vísa skjólstæðingum sínum á heimasíðuna okkar. Þannig þetta var orðið einhversskonar meðferðarúrræði og fræðslutæki. Þá vildum við gera almennilega heimasíðu.”

Á nýju síðunni má sjá viðtöl við sjö einstaklinga sem kljást við ýmis geðræn vandamál. Viðtölin virka bæði sem fræðsla um viðkomandi vandamál, og sýnir ákveðna manneskju lýsa reynslu sinni á því vandamáli. “Mig langaði að setja mannlega mynd á þetta. Við erum með skriflega fræðslu, en svo geturðu líka horft á viðtal við einstakling með geðsjúkdóminn, og gengið inn í líf hans.”

Allir viðmælendurnir á síðunni eiga við mismunandi vandamál að stríða, og koma úr ólíkum áttum. “Við lögðum markvisst upp úr því að velja viðmælendur sem endurspegla fjölbreytilega geðsjúkdóma. Einn viðmælenda okkar, Humi, er með geðhvarfasýki, svo er Hrefna Huld með geðklofa. Það er mjög lítið fjallað um þessa sjúkdóma annars staðar.”

Eins og flestir hafa kannski tekið eftir þá hefur átt sér stað vitundarvakning um geðheilbrigði í samfélaginu síðustu ár. Þá hefur fólk stigið fram og sagt sínar sögur af geðrænum vandamálum, en það má fullyrða að flestar sögurnar lýsa annaðhvort kvíða eða þunglyndi. Aðrir geðsjúkdómar eru enn í myrkrinu og fáir sem hafa stigið fram og talað um þá. Það er eins og það sé ákveðin stéttaskipting geðsjúkdóma.” Það er eins og skást sé að vera með kvíða og þunglyndi, ef svo má komast að orði.

20180309_165914.jpg

“Þannig að okkur fannst mjög mikilvægt að hafa hóp viðmælendanna fjölbreyttan. Þau eru öll ótrúlega flott.”

Einn viðmælendanna, Sonja Björg, talar um á síðunni hvernig það er að vera náinn aðstandandi þunglyndrar manneskju. “Það er eitthvað sem er lítið rætt um. Aðstandendur geta upplifað að þeir hafi ekki rétt á ákveðnum tilfinningum því að hinn einstaklingurinn hefur það verra. Maður á bara að vera til staðar. Sonja kom mjög vel inn á þetta í viðtalinu, að maður hefur rétt á eigin tilfinningum sem aðstandandi og á líka að hugsa vel um sjálfan sig.”

Félagið Hugrún stendur ekki bara að þessari síðu, heldur hafa meðlimir þess verið virkir í að fræða framhaldsskóla og grunnskólanemendur um geðheilbrigði á eigin vegum. “Í læknisfræðinni eru sumir nemar með fræðslur eins og Bjargráð sem er með skyndihjálp og Ástráð sem er með kynfræðslu. Fræðararnir taka þá krasskúrs í fræðsluefninu og fara svo í framhaldsskólana og fræða nemendurna.”

Þannig hafi hugmyndin kviknað að því að stofna Hugrúnu og byrja að fræða framhaldskólanema um geðheilbrigði, en allir háskólanemar geta sótt um að verða fræðarar. “Þá höldum við námskeið á haustönn þar sem fagaðilar koma og tala um geðsjúkdóma. Svo koma einstaklingar sem eru með geðsjúkdóma og segja frá sinni reynslu. Síðan er farið í ferð út á land þar sem farið er ítarlega yfir allt aftur.”

Elísabet segir að þau hafi aðallega verið að fara í framhaldsskóla, en hafi verið að færa sig yfir í grunnskólana líka. Eins og er þá eru þau að aðlaga fræðsluefnið til að það henti betur fyrir grunnskólafræðslu.

“Markmiðið þetta starfsár er að fara í alla framhaldsskóla landsins, og það virðist vera að takast. Viðtökurnar eru búnir að vera ótrúlega skemmtilegar. Framhaldsskólanemar eru mjög meðvitaðir um geðheilbrigði og geðsjúkdóma, þeir vita alveg hvað þunglyndi og kvíði er. Ég vissi ekki hvað þunglyndi og kvíði var þegar ég var í framhaldsskóla, og kem samt úr mikilli læknafjölskyldu. Mér finnst framhaldsskólanemar vera orðnir meðvitaðari og það eru herferðum eins og #égerekkitabú að þakka.”

huguð.png

Hinsvegar upplifir Elísabet helst að nemendur fari að rökræða við fræðara Hugrúnar þegar þau fara að tala um skaðsemi kannabis og áfengis. “En það er bara skemmtilegt. Okkar fræðsla  byggir á jafningjagrundvelli, við erum ekki komin til að segja þeim hvað er rétt og rangt, heldur erum við að reyna að virkja einstaklingana og fá þá til að hugsa.”

Geðhjúkrunarfræðingar eru starfsstétt sem Elísabet telur að geti veitt framhaldsskólanemum mikla aðstoð. Hana langar sjálf að fara í geðhjúkrunarnám. “Geðhjúkrunarfræðingar eru nefnilega falin gullkista. Þeir veita ýmiss konar samtalsmeðferðir, vinna mjög mikið með einstaklingum og hjálpa þeim að setja sér markmið. Þeir kanna bæði líkamlegar þarfir einstaklingsins og umhverfi hans, hvernig hann fúnkerar heima hjá sér, sálrænar og félagslegar þarfir hans. Geðhjúkrunarfræðingar taka allan pakkan. Þessvegna held ég að það sé mikið sóknarfæri að styrkja geðhjúkrun og fá geðhjúkrunarfræðingana öflugri inn.

Það eru skólahjúkrunarfræðingar á flestum stöðum, þeir eru bara ekki í nógu háum starfshlutföllum. Það væri tilvalið að fá geðhjúkrunarfræðinga í framhaldsskóla. Ég hef verið aðeins í stúdentapólitíkinni í Háskólanum, og þar höfum við verið að berjast fyrir því að fá hjúkrunarfræðing í Háskólann.”


 

Hugrún var líka að stofna Snapchat reikning sem hægt er að finna undir nafninu “gedfraedsla”. Þar verður félagið með opinskáa umfjöllun um geðheilbrigði og geðsjúkdóma, og fá gestasnappara til þess að koma og ræða málin.

Elísabet Brynjarsdóttir hjúkrunarfræðingur og einn stofnanda Hugrúnar, segir mér að þau hafi byrjað á því að opna fræðslusíðu fyrir um tveimur árum. Það var þegar Hugrún var stofnuð. Sú síða hafi verið frekar amatör, þó hún hafi verið flott. Hugmyndin hafi verið að vera með aðgengilegt fræðsluefni á mannamáli um geðsjúkdóma, lyndisraskanir, og annað sem tengist geðheilbrigði. Fólk hafi hrósað stofnendum síðunnar fyrir að vera með skiljanlegt fræðsluefni, ekki bara á læknamáli.

Sólrún Sen