Kvikmyndahátíð Framhaldsskólanna

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Kvikmyndahátíð Framhaldsskólanna verður haldin í fjórða sinn dagana 24. og 25. febrúar í Bíó Paradís. Nemendur í FÁ standa að baki hátíðarinnar, en hún varð til í áfanga um viðburðarstjórnun sem kenndur er þar.

María Carmela Torrini

María Carmela Torrini

Hægt er að finna allar helstu upplýsingar um hátíðina á www.filmfestival.is

María Carmela Torrini er ein þeirra sem sendir inn mynd á hátíðina, en myndin hennar heitir “Reglur leiksins” og fjallar um Lúnu, stelpu á einhverfu rófi sem týnir bestu vinkonu sinni, henni er rænt. Besta vinkona hennar er könguló.

“Ég er að leika Lúnu, og ég skrifaði myndina. Núna erum við að teikna kóngulóna og færa inní tölvuna.”

Hátíðarstjóri Kvikmyndahátíðarinnar í ár, Þórdís Helgadóttir, segir mér að það verða vegleg verðlaun í boði fyrir sigurvegara. Í boði hafa áður verið myndavélar og leikbúnaður frá Kukl til dæmis.

Hún segir mér að nám sem snýr að kvikmyndagerð sé krefjandi, og fínt að geta lært grunnin í framhaldsskóla. “Það eru mjög margir sem fara í kvikmyndaskóla sem kosta alveg fáránlega mikið og efitr að hafa borgað allt þá fatta þeir að þetta er ekki það sem þeir vildu fara í.”

Thelma Líf Evudóttir, ein skipuleggjanda hátíðarinnar, segir að Kvikmyndahátíðin sé krefjandi verkefni en að það sé bara í fínu lagi. “Þetta er eitthvað sem okkur finnst gaman að gera. okkur líkar vel við hvort annað og okkur finnst gaman að vera í kringum hvort annað. Ég held að flestir sem fara á kvikmyndalínuna séu að fara þangað því að þeim langar að gera þetta, í skólanum og fyrir utan skóla.”

Hún bætir við að þeir sem hafa áhuga á leiklists, eins og hún sjálf, ættu að vita hve mikil vinna felst í öllu hinu sem snýr að kvikmyndagerð. “Ég hef alveg heyrt um leikara sem að skilja ekki alveg hvað þarf að gera, koma frekar illa fram við fólkið sem er til dæmis að klippa eða vinna hljóðið. Mér finnst það sorglegt. Þannig að ég persónulega vildi fara í það að læra líka það sem allir aðrir í kvikmyndagerð eru að gera

Hugmyndin að hátíðinni átti nemandi nokkur fyrir fjórum árum, en fyrir það hafði áfanginn viðburðarstjórnun aðallega snúist um bóklestur. Thelma segir að þetta sé góð leið fyrir ungt fólk til að koma sér á framfæri. “Ungt fólk sem veit ekki hvernig það á að koma sér á framfæri, hefur þessa hátíð til að sýna hvað það getur. Getur sótt um til þess að sýna myndirnar sínar án þess að þurfa að borga heilan helling fyrir það og svo mætir enginn til að sjá það, af því það er alveg hellingur af fólki sem mætir á Kvikmyndahátíðina.”

Topp 5

Sólrún Sen