Verzló mælir með Rómantík, viðtal við Huginn Sæ

Topp 5

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Huginn Sær hefur verið í ræðuliði Verzlunarskóla Íslands síðustu þrjú ár, og keppt tvisvar til úrslita. Verzló keppir annað kvöld á móti MR um “Rómantík”, og mun Verzló mæla með.

Verzló mætti MR að sjálfsögðu í æfingakeppni í Verzló-MR vikunni, og fór Verzló með sigur í þeirri keppni. “Það er alltaf ógeðslega gaman að vinna VÍ-MR keppnina. Þú ert að sigra fyrir stolt skólans eða þannig.”

Það er líka verðlaunabikar í boði fyrir sigurlið í þeirri keppni, en ekki í venjulegum MORFÍs keppnum. Nema úrslitakeppninni að sjálfsögðu.  

Huginn segir að tvær skemmtilegustu MORFÍs keppnir sem hann hefur séð eru upptaka af gamalli keppnó Verzló og Kvennó, og var umræðuefnið “lífið hefur tilgang”, en hin keppnin hafi verið úrslit MORFÍs 2015 þar sem MS og Verzló mættust og ræddu um “lögleiðingu fíkniefna.”

Huginn segir að það sé öllu erfiðara að velja leiðinlegustu keppni sem hann hefur séð, vegna þess að þær hafa verið svo margar. “Ég held að leiðinlegasta keppni sem ég hef séð hafi veri æfingakeppni Kvennó og MH. Ég man ekkert hvert umræðuefnið var, en Tryggvi Björnsson sem var þá stuðningsmaður MH var alltaf að  biðja Kvennóliðið um að henda ristavél í baðkarið sitt og drepa sig. Það var ekki alveg það skemmtilegasta í heiminum.”

Huginn segir að skemmtilegasta keppni sem hann hefur sjálfur tekið þátt í var við MR í æfingakeppni á fyrsta árinu sínu í liðinu, og mælti þá á móti umræðuefninu “tíminn”. “Við töpuðum reyndar þeirri keppni sem var mikið svekk, en fyrsta keppnin er alltaf sérstök. Það var mjög grillað að pæla í heila viku í því að vera á móti tímanum. Svo voru það 8 liða úrslit í fyrra á móti MR, þá töluðum við á móti Sameinuðu Þjóðunum. Að vinna loksins MR eftir að hafa tapað á móti þeim í úrslitunum árið áður, það var mjög fullnægjandi.”

Huginn Sær Grímsson

Huginn Sær Grímsson

Óskaumræðuefni Hugins er Ævintýraheimur Walt Disneys. “En það var tekið í fyrra, þannig að það umræðuefni er komið á hóld í einhvern tíma. Það er óskrifuð regla í MORFÍs að keppa ekki í umræðuefni sem var tekið fyrir stuttu. Rómantík hef ég lengi viljað takast á um líka, en það hefur aldrei verið aðal draumaumræðuefnið.”

Að mati Hugins eru Sigríður María Egilsdóttir og Stefán Óli Jónsson bestu MORFÍs ræðumennirnir, en þau kepptu bæði fyrir hönd Verzunarskólans á sínum tíma.

Ég spurði Huginn hvað væri besta mönsið í undirbúningi fyrir keppni, og hann sagðist vera samningsbundinn við Foodco. “Verzló er samningsbundinn við Foodco, við megum bara borða Foodco mat í MORFÍsvikum. Ég held að eldsmiðjan komi sterk inn þar.”

Hann segir líka að best sé að drekka Nocco.

Annars er Huginn bara vongóður fyrir keppninni á móti MR. “Ég fer aldrei inn til að tapa.” Aðspurður hvort að það væri skrýtið að mæta MR beint eftir að hafa mætt þeim í æfingakeppni segir hann að það sé vissulega steikt. “Þetta gerðist líka í fyrra. Ég læt það ekki stoppa mig, ég er ekki að fara að tapa núna.”

Sólrún Sen