Xanax á Íslandi, viðtal, "þurfti að fara þrisvar sinnum á Landsspítalann í spennitreyju"

Topp 5

Guðmundur Hauksson skrifar:

Xanax er lyf sem innihefur virka efnið alprazólam. Það er lyf í flokki benzódíazepína sem virka á miðtaugakerfið.

Eflaust kannast einhverjir lesendur við efnið úr nýlegum íslenskum hiphop lögum en tónlistarmenn senunnar hér heima hafa upp á síðkastið gerst afkastameiri í tilvísunum á efninu líkt og kollegar þeirra vestanhafs.

Áhrif lyfja úr þessum flokki eru kvíðastillandi, þau róa hugann og eru vöðvaslakandi.

Xanax er mjög ávanabindandi og myndar mannslíkaminn fljótt þol við því, fyrir þær sakir er það  yfirleitt ekki uppáskrifað nema til skamms tíma fyrir sjúklinga. Það getur valdið minnisskerðingu þar sem róandi áhrif þess gera neytandanum verulega erfitt fyrir að halda einbeitingu og fylgjast með.

Það var fyrir um það bil þremur árum sem notkun benzó lyfja fór að gera meira vart við sig hér á landi.Erfitt er þó að greina hversu mikil þessi aukning er þar sem notkun þessara lyfja er ekki skrásett sérstaklega í neinn gagnagrunn ásamt því að þeir einstaklingar sem leita sér meðferðar vegna notkunar eru yfirleitt einnig í neyslu annara lyfja.

Lyfið er eins rétt eins og önnur fíkniefni aðgengilegt á svörtum markaði, og stendur götuverðið fyrir 2 milligramma töflu í tvö þúsund krónum.

Ólíkt sumum fíkniefnum er Xanax ekki bara andlega ávanabindandi heldur einnig líkamleg., Langtímanotkun lyfsins getur því kallað fram fráhvarfseinkenni þegar henni er hætt. Dæmi um slík einkenni eru vöðvaspenna, náladofi í útlimum, meltingartruflanir, þunglyndi, kvíði, skjálfti og jafnvel flog.  

Heimildir:    drugabuse.com og Þórarinn Tyrflingsson stofnandi og frv. yfirlæknir á Vogi

  Viðtal við Xanax notanda

Babl hafði uppá 19 ára stúlku sem var um tíma föst í vítahring lyfsins. Ásamt því að vera að taka lyfið í miklu magni hafði hún einnig upp úr því að selja það. Þegar viðtalið var tekið hafði hún verið edrú í tvo mánuði. Hún féllst á að veita nafnlaust viðtal til að deila reynslusögu sinni.
 

Hvenær prófaðir þú lyfið fyrst?

Það var í kringum október 2016 þegar félagi minn gaf mér að prófa, og ég fór eiginlega bara  strax að selja. Ég gerði það með vinkonu minni sem er tveimur árum eldri en ég og við gerðum það svoleiðis að við héldum oft partý hjá henni og gáfum öllum að prófa, hópurinn var svona sirka stór félagahópur og það urðu allir mjög háðir mjög fljótt.

Hversu mikið varstu að taka?

Til að byrja með hálfa töflu í einu og svo heila. Þegar mest lét var ég að taka daglega sem gat verið 2-3 í einu og á klukkutíma fresti ef ég átti nóg

Græddiru mikið á því að vera að selja efnið á þeim tíma?

Nei, ég kom mér strax í mikla skuld og var bara að selja til að halda neyslunni minni gangandi. En verðið hjá heildsala á íslandi á þeim tíma var 900kr. fyrir töfluna og við seldum hana á 1500kr en það kom fyrir að fólk borgaði alveg þrjú þúsund fyrir töfluna ef það var örvæntingarfullt og enginn annar var með.  Það bankaði meira að segja á gluggann hjá vinkonu minni og kallaði inn ef hún svaraði ekki símanum.

Þú sóttir eitt sinn töflur út fyrir landsteina til þess að flytja inn ekki satt?

Jú, í ágúst 2017 fór ég ásamt sömu vinkonu minni sem hafði farið áður. Við fórum í djammferð til London að sækja Xanax,  gerðum þetta á eigin vegum og keyptum 1500 töflur á 350.000kr(234kr/stk) af contact sem við höfðum fengið í gegnum félaga hér heima. Ég var að taka mjög mikið sjálf og hafði með mér 100 töflur í seðlaveskinu mínu hvora leið bara til að halda mér góðri.

Hvernig heppnaðist ferðin?

Við vorum teknar af tollverði þegar við löbbuðum út úr fríhöfninni í Leifstöð og dregnar inní herbergi. Það fyrsta sem þeir fundu var pokinn í seðlveskinu. Þegar þeir opnuðu farangurstöskurnar okkar blasti við þeim 1500 töflur í litlum pokum ásamt fötunum sem við höfðum tekið með, við höfðum ekki einu sinni fyrir því að reyna að fela þær. Ég var tekin í skýrslutöku sem gekk ekki neitt vegna þess að ég sofnaði ítrekað við að svara spurningunum þeirra. Héraðsdómur úrskurðaði okkur í viku gæsluvarðhald  vegna gruns um að við værum einnig að smygla kókaíni og ég þurfti að fara þrisvar sinnum á Landsspítalann í spennitreyju að losa hægðir til að sýna fram á að svo væri ekki.                  

Hvernig myndirðu lýsa tímabilinu hjá þér meðan þú varst að neyta lyfsins?

Það var bara þannig að ég gerði hvað sem er til að komast í meira. Ég var alveg að taka meira en bara Xanax en Xanaxið gerði það að verkum að ég man eiginlega ekki neitt úr þessu eins og hálfs árs tímabili. Það sem ég er búin að segja þér í þessu viðtali er flest eitthvað sem fólk rifjaði upp fyrir mér seinna. Ég var inn og út úr meðferð á þessum tíma og margir komu að mér þegar ég var á Vogi og byrjuðu að tala við mig og sögðust þekkja mig úr partýum án þess að ég hefði hugmynd um hver þau voru.  

Ég flosnaði uppúr skóla og foreldrar mínir ráku mig að heiman eftir að ég hótaði litlu systur minni með borðhníf við matarborðið þegar hún hafði pirraði mig.

Hvar eru vinir/félagar þínir sem þú varst að selja lyfið í dag?

Þeir hafa flestir farið í meðferð og allir án árangurs nema svona 2-3, ég man að góður vinur minn hafði aldrei prófað þetta en þegar hann var orðinn mjög háður keypti hann kannski 10 töflur hjá mér bara fyrir sjálfan sig og kom svo aftur klukkutíma síðar til að kaupa meira. Hann var aðeins nokkra mánuði  að rústa lífinu sínu og koma sér í átta milljón króna skuld.Síðan var félagi minn að deyja núna um miðjan janúar úr ofskömmtun á efninu.

 

Sólrún Sen