Konur og karlar í stjórnmálum

Hver er munurinn á körlum og konum í stjórnmálum? Af hverju ættu konur að taka þátt í stjórnmálum? Hvernig er staðan í dag? Eiga karlmenn að taka þátt í jafnréttismálum?

Við erum þrjár stelpur í Menntaskólanum að Laugarvatni sem vildu skoða þetta nánar og fengum því að setjast niður með núverandi og fyrrverandi þingmönnum til að heyra hvað þau höfðu um málið að segja. Það kom okkur afar skemmtilega á óvart hversu einfalt það var að hafa samband við fólk á þessum vettvangi og að sú vinna fór mestöll fram í gegnum facebook skilaboð. Já tæknin í dag býður upp á marga kosti. Við mættum jákvæðu viðmóti frá öllum þeim sem við náðum sambandi við, en því miður var stuttur tími til stefnu og ekki allir sem höfðu tækifæri til þess að hitta okkur. Þegar allt kom til alls voru þrjár konur og fimm karlar sem gátu veit okkur viðtal en það voru: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Eygló Harðardóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason og Þorsteinn Víglundsson.

image1 (1).jpg

Munurinn á því að vera karl eða kona í stjórnmáum

„Hann hefur farið minnkandi, fyrst reyndu konur kannski að verða eins og karlar í stjórnmálunum og það var kannski markmiðið að þannig ættu stjórnmál að vera. Með meira jafnrétti og fleiri konum þá fá stjórnmálamenn að vera þeir stjórnmálamenn sem þeir vilja. Ég held að almennt tali konur minna, ekki af því þær viti minna heldur vilja þær vita meira hvað þær ætla að segja og kynna sér málin betur áður en þær fara að tjá sig um þau. Ég finn það bæði á lokuðum og opnum fundum að karlarnir eru meira svona að fikra sig áfram og það er alveg líka kostur, en konurnar vilja kynna sér betur efnið áður en þær fara að rökræða um einhver ákveðin mál.“ Segir Áslaug Arna þegar við spurðum hana um muninn milli karla og kvenna í stjórnmálum.

Það mynduðust líflegar umræður þegar við lögðum þessa sömu spurningu fyrir karlana. Þeir voru allir sammála um það að konur þurfa oft að sanna sig á annan hátt en karlar gera og sæta gjarnan harðari og óvægari gagnrýni en karlar. Einnig var gaman að heyra að þeir tóku undir með Áslaugu, sögðu að konur væru oftar búnar að kynna sér málin betur en karlar, sem ættu það kannski frekar til að „winga þetta“eins og Þorsteinn Víglundsson orðaði það.

Á báðum fundum kom það greinilega fram að konum þykir leiðinlegt að sitja undir því  að þær séu einungis í ákveðinni stöðu vegna kyns, þar sem litið var svo á að það vantaði konu í stöðuna. Þá er vissulega litið framhjá þeirra hæfileikum sem grefur undan því trausti sem þarf að vera til staðar. Það að konur virðast endast skemur í pólitík komst líka til tals og auðvelt er að áætla að það sé vegna þess að umhverfið er ennþá karllægt sem og að konur komast upp með minna en karlar. Einnig má það vera að karlar eiga það kannski frekar til, að halda í „stólinn“ eins lengi og þeir mögulega geta. „Þegar ég fór inn í stjórnmál var ég með það að leiðarljósi að þetta væri ekki ævistarf, heldur sinnir maður svona starfi eins vel og maður getur á sínu tímabili og finnur sér svo eitthvað annað skemmtilegt að gera“ segir Eygló Harðardóttir.

Einnig var rætt um það, að konur eru oft settar undir sama hattinn og eiga þar af leiðandi að vera að ræða fyrst og fremst um t.d mennta og velferðarmál því þau eru kannski oft álitin kvenlegri ef svo má að orði komast. Aftur á móti var ánægjulegt að heyra að í velferðarnefnd væri þetta orðið öfugt, í henni eru nú sex karlar og þrjár konur. Í fjárlaganefnd hinsvegar er einungis ein kona í níu manna nefnd enda fjármál talin vera hlutverk karla. „Stundum erum við svo ofboðslega kynskiptur vinnustaður hvað þetta varðar að það er hræðilegt“ segir Andrés Ingi Jónsson.

Einnig kom það fram hjá okkar viðmælendum að það gerist of oft að ekki sé tekið mark á því sem konur segja fyrr en karlinn við hliðina á þeim segir sama hlutinn.

Hvernig er staðan í dag og af hverju ættu konur að taka þátt í stjórnmálum?

Þær segja það vera afar leiðinlegt að eftir síðustu kosningar fækkaði konum á Alþingi verulega en telja  jafnframt að eins og stemingin er núna þá gætu konur jafnvel náð meirihluta ef kosið væri í dag. Einnig minnast þær á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir því hvernig raðast á framboðslista, það sést að eftir einar kosningar hrakar hlutfalli kvenna verulega. Tveir nýjir flokkar koma fram með eina konu hvor og konur sem voru aftarlega á listum detta út.

„Það skiptir máli hverjir stjórna. Skiptir máli að sjónarmið allra eða sem breiðustum hóps komist að og þannig búum við til besta samfélagið“ sagði Unnur Brá þegar við vildum vita þeirra skoðun á, af hverju konur ættu að taka þátt í stjórnmálum. Áslaug Arna tók undir þetta og lagði mikla áherslu á hversu mikil áhrif það hefur að taka þátt í stjórnmálum, hvort sem það er í sveitarstjórn eða í landsmálunum. Það er hægt að sjá breytingarnar gerast og þú getur breytt samfélaginu til hins betra.

Við lögðum þessa sömu spurningu fyrir karlana og það var gaman að sjá muninn sem varpar vissulega enn betur ljósi á þá staðreynd hversu mikilvægt það er að ólíkir hópar samfélagsins hafi sinn sess í stjórnmálum hvort sem það er gert með því að nýta kosningarrétt sinn eða taka þátt með beinum hætti.

Það komu einnig fram margir áhugaverðir punktar eins og að konur hafa öðruvísi reynslu og þekkingu. Konur eru helmingur mannkyns og þær eiga því auðvitað að hafa jöfn tækifæri til þess að hafa áhrif á sitt samfélag og tryggja þar með fjölbreytileika í stjórnmálum.

„Af sömu ástæðum og karlar, ef þær hafa áhuga á að bæta samfélagið og leggja sitt af mörkum, þá ættu þær að gera það. Af því kemur sú jákvæða hliðarafurð að það verða fjölbreytilegri stjórnmál en hver og einn einstaklingur á að gefa kost á sér til þáttöku í stjórnmálum ef viðkomandi brennur fyrir hugsjónum að breyta til hins betra“ sagði Kolbeinn Óttarsson.

Af hverju þurfa karlmenn að taka þátt í jafnréttismálum?

Á fyrri fundinum barst talið að því hversu mikilvægt það er að karlar taki virka afstöðu með konum í stjórnmálum. Hvað varðar jafnréttismál almennt þá verður að teljast afar mikilvægt að það séu ekki bara konur að tala um jafnréttismál. „Við verðum að taka mennina og strákana inn í umræðuna um jafnréttismál en ekki af því að þeir eiga að sjá um hana heldur til að byggja ofan á það sem konur hafa gert í tugi ára, til þess að við náum þeim stað sem við viljum vera á,“ segir Áslaug Arna. Hún segir einnig að útlendingar sem hún hittir á sínum starfsvettvangi horfi gjarnan á Ísland sem jafnréttisparadís því við erum ofarlega í mælistikum um jafnrétti.

„Þá segi ég samt við þá að við séum samt ekki fullkomin, við erum ekki búin að ná þangað sem við ætlum að ná, þó að við séum góð fyrimynd fyrir ykkar land þá ætlum við samt lengra.“ Unnur Brá tekur í sama streng og segir það vera skyldu Íslands að draga vagninn lengra, Ísland getur verið leiðandi í jafnréttismálum en ekki bara vera hér og búa við þessa stöðu heldur að ætla okkur lengra og strákarnir þurfa að vera með í því. „Þegar þeir fatta að þetta varðar systur þeirra, dætur þeirra og mömmu þeirra, þá kveikja þeir og hugsa kannski með sér að það sé frekar ósanngjarnt að dóttir þeirra sitji ekki við sama borð og sonur hennar, ég þarf kannski að vera með í þessari baráttu?“  Þær segja að mikill munur sé á þeim karlmönnum sem hafa áttað sig á þessu og sjá mikilvægi þess í því að hafa fjölbreyttan hóp þegar raðað er á lista. Þeir sem hafa kveikt á perunni sjá til þess að kynjahlutföllin séu í lagi en á meðan sitja aðrir auðum höndum.

Það komst einnig til tals á seinni fundinum að kerfið og umhverfið í stjórnmálum væri enn ofboðslega karllægt. „Leikreglurnar eru skrifaðar af körlum á sínum tíma og nú erum við með breytt landslag og það er alveg kominn tími á að endurskrifa leikreglurnar, taka mið af nýjum tímum og nýjum sjónarmiðum samanber þetta litla varðandi vinnutímann en það er auðvitað fullt af öðrum hlutum sem þarf að breyta líka,“ sagði Þorsteinn Víglundsson.

Áður fyrr voru konur oft heima að sjá um  börnin og heimilið en karlarnir fóru út að vinna og gátu því unnið nánast á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Í dag eru bæði konur og karlar á vinnumarkaðnum og þarf því að sníða kerfið að því og gera það fjölskylduvænna. Það gengur ekki að stjórnmálafólk þurfi að vera suma daga ennþá í vinnunni kl. 20 eða að mæta á kvöldfund svona seint. Er þá gert ráð fyrir að hitt foreldrið sé í þannig vinnu að þau geta alltaf breytt vinnutímanum sínum til að börnin verði ekki ein? Þetta þarf að laga.

Þegar við spurðum karlana beint út, af hverju karlar þurfa að taka þátt í jafnréttismálum var fyrsta svarið, „vegna þess að það er rétt“. Þar sem karlar eru í forréttindastöðu og hafa greiðari aðgang að þeirra menningarheimi eiga þeir að nýta það tækifæri. Það á líka ekki að mynda átakalínur á milli karla og kvenna, heldur að vinna saman að réttlátu þjóðfélagi sem fylgir þeim þjóðfélögum þar sem jafnrétti er til staðar.

Einnig var bent á það, að ef þingmenn ætluðu einungis að berjast fyrir þeim málum sem gagnast þeim sjálfum þá væri lítið að gera hjá þeim. Það kom þá fram í kjölfarið að auðvitað gagnast körlum það líka að jafnrétti ríkir í þjóðfélaginu.

„Það er í gegnum jafnréttisbaráttuna að við sjáum að körlum er hættara við áhættuhegðun, lenda frekar í fangelsi, mennta sig síður, þunglyndari, hættara við sjálfsvígum, þetta er allt saman hluti af sama kerfinu. Það að berjast fyrir jafnrétti er líka að berjast fyrir bættri stöðu drengjanna og karlanna sem fara illa út úr kerfi misréttis,“ Sagði Andrés Ingi.

„Eins og Andrés er að benda á þá gagnast þetta körlunum og sérstaklega ungum drengjum margfalt meira en nokkur gerir sér grein fyrir. Öll þessi sjálfsvíg hjá þeim eru að einhverju leyti vegna þess að  þeim er kennt frá unga aldri að þeir mega ekki grenja, þeir eiga að vera „hero“ eða eitthvað, þannig við þurfum að brjóta þessar staðalímyndir. Þannig að þegar þeir koma svo í framhaldsskólana og lenda í mótstöðunni þá þora þeir að grenja í öxlina á einhverjum. Þetta er frelsismál fyrir unga karlmenn.“ Bætti Vilhjálmur Áranason við.  

Eydís Birta Þrastardóttir, Glódís Pálmadóttir og Sigurborg Eiríksdóttir skrifuðu

 

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen