Heimildir herma

Fyrir nokkrum dögum birtist stöðufærsla á Facebook síðu Þengils Björnssonar, en hún fjallaði um frétt sem birtist í Fréttablaðinu. Fréttin ber titilinn ,,Páll rúinn trausti í kjördæminu” og snýst um grunsemdir samflokksmanna hans um að Páll hafi hjálpað klofningsframboði Sjálfstæðisflokksins í eyjum, en það framboð kom fram undir nafninu Fyrir Heimaey.

Þengill staðhæfir að ýmislegt hafi verið rangt í þessari frétt, meðal annars það að hann sjálfur hafi beitt sér óformlega fyrir framboðinu Fyrir Heimaey, að samkvæmt heimildum höfunds fréttagreinarinnar á Þengill að þrífist á innanflokksátökum, að hann hafi verið sjóðillur þegar Páll Magnússon fékk ekki ráðherrastól og einnig að Þengill skuli einungis vera í pólitík vegna þess að hann vill verða sér úti um vel launað aðstoðarmannastarf.

BeFunky-collage.jpg

Við stöðufærsluna skrifar Páll Magnússon eftirfarandi athugasemd: ,,Ég hef víða farið og margt séð í blaða- og fréttamennsku en þessi ''frétt'' í Fréttablaðinu er líklega sú heimskulegasta sem ég hef augum barið síðustu árin. Þessi setning er best: ''...atkvæði Páls sjálfs og hans nánustu hafi í raun gert útslagið og meirihluti flokksins fallið á atkvæðum þeirra''. Blaðamaðurinn veit sem sagt ekki bara hvernig ég kaus heldur líka Hildur konan mín og Palli sonur minn. Þau eru mín nánustu sem hafa kosningarétt í Vestmannaeyjum.”

Þessi frétt virðist byggjast á slúðri og sögusögnum Eyjamanna og flokksmanna Sjálfstæðisflokksins, en sjaldnast eru heimildarmenn nefndir á nafn eða vitnað í heimildir og ekki var haft fyrir því að hafa samband við Pál Magnússon, Þengil eða Janus Arn Guðmundsson, en um þá snerist fréttin að mestu.

Ég spurði Aðalheiði Ámundadóttur sem skrifaði greinina nokkrar spurningar varðandi þetta.

,,Ég hef mína heimildamenn og það sem ég segi í fréttinni hef ég eftir þeim. Sumt fullyrði ég ekki að séu staðreyndir heldur hef eftir viðmælendum blaðsins, sem eru þungaviktarmenn í flokknum. Í fréttinni er ég að endurspegla fýlinginn í flokknum og það sem þungaviktarmenn í flokknum eru að ræða sín á milli.

Þengill gagnrýndi að þú hafðir ekki haft samband við hann, Janus eða Pál við gerð fréttarinnar. Afhverju gerðirðu það ekki?

,,Eins og ég var að segja, í fréttinni er ég að fjalla um stemningu í flokknum gagnvart þessu fólki og það er matsatriði hverju sinni við hverja maður talar til þess að fanga stemningu í flokknum. Ég er ekki að leyta að staðfestingu á einu eða neinu, heldur er ég að fjalla um hvað flokksmenn ræða sín á milli og viðhorf manna til annara manna.”

Hefði ekki verið eðlilegt að hafa samband við þá til þess að þeir fengju tækifæri til að svara fyrir sig?

,,Jú það hefði alveg verið hægt að snúa því þannig og fá staðfestingu á því hvort þeir væru í raun og veru að gera það sem þessir trúnaðarmenn í flokknum telja að þeir hafi gert, það hefði verið ein leið, ég bara fór ekki þá leið.”

Það er stór misskilningur að nafnleynd heimildarmanna í þágu persónuverndar þýði að blaðamenn fái ótakmarkað skotleyfi á fólk eða málefni og að staðreyndir séu hvað sem ímyndunaraflinu dettur í hug.

Að sjálfsögðu getur nafnleynd verið nauðsynleg ef að heimildamaður gæti borið skaða af því að gefa upp viðkvæmar upplýsingar. En þrátt fyrir það þurfa þeir blaðamenn sem nota nafnlausar heimildir að ganga úr skugga um áreiðanleika upplýsinganna, þó svo að lesendur geti ekki tékkað á áreiðanleika þeirra sjálfir. Þetta er eitthvað sem kallast fagmennska í blaðamennsku og við ættum öll að hafa lært sem skólaskyldug börn.

Hver er tilgangurinn þá með að vitna í nafnlausar heimildir sem lesendur geta ekki skoðað sjálfir? Er þessu bara hent inn í málsgrein hér og þar til skrauts?

Nafnleynd heimildarmanna á ekki að nota sem skálkaskjól fyrir því að setja fram lygar eða ýkjur. Þetta er mikilvægt bæði fyrir heimildarmennina sjálfa en sérstaklega fyrir blaðamenn, einfaldlega vegna þess að þeir geta haft áhrif á ímynd fólks eða málefnisins sem þeir fjalla um.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að blaðamenn birti gagnrýnar fréttir á fólk og málefni, svo lengi sem það kemur almenningi við. En það er munur á fréttum og skoðunum, það er munur á staðreyndum og grunsemdum. Það er ekki ásættanlegt að blaðamenn notfæri stöðu sína til að koma grunsemdum sínum á framfæri í dulbúningi frétta með ósýnilegum heimildarmönnum.

Þegar að fréttagreinar snúast um alvarlegar ásakanir á hendur einstaklingum getur ekki þótt siðlegt að vera ekki með áreiðanlegar og vel tilgreindar heimildir á bakvið þær ásakanir, og það getur ekki þótt siðlegt að leyfa ekki viðkomandi einstakling/um að svara fyrir þær ásakanir áður en fréttin er birt.

Áreiðanleiki íslenskra fréttamiðla minnkar með þessari hegðun blaðamanna, ef það þarf sífellt að vera að leiðrétta ,,fréttir” um fólk. Þetta þjónar ekki því hlutverki fréttamiðla að veita stjórnmálamönnum landsins aðhald. Þvert á móti gerir þessi hegðun lítið úr heiðarlegum og faglegum vinnubrögðum, og gagnkvæmri virðingu blaðamanna og stjórnmálamanna.

Það er ekki til þess fallið að auka traust á milli almennings og stjórnmálamanna ef ekki er gerður greinarmunur á skoðunum, grunsemdum og fréttum. Það verður seint blaðamönnum sem sýna af sér þessa hegðun að þakka ef við náum einhvern tímann að byggja traust samband milli almennings og stjórnmálamanna.

Sólrún Freyja Sen skrifaði

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen