Gangar Menntaskólans við Hamrahlíð skreyttir regnbogafánum

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Í vikunni fer fram Hinsegin vika Menntaskólans við Hamrahlíð. Í tilefni þess er búið að skreyta skólann með alls konar hinsegin fánum og litlum blöðum með skemmtilegum staðreyndum um sögu hinsegin fólks.

Mest lesið

Hrafnkell Karlsson, formaður Burs, félags hinsegin fólks í MH segir mér að Hinsegin vikan snúist aðallega um að hafa gaman. Það var kosið að velja nafnið Bur á félagið á síðasta skólaári þegar félagið var stofnað þar sem orðið Bur er ókynbundið og fellur að hvorugkynsbeygingum. “Það eru aðallega fánarnir og stemningin sem gera vikuna; spila tónlist í hádeginu og svo framvegis. Við vorum að spila Pál Óskar og YMCA í hádeginu í dag, allir voru dansandi og syngjandi með. En við reynum alltaf líka að hafa einn fræðara með stuttan fyrirlestur í hádegismatnum og hafa “möns” kvöld þar sem við horfum á þætti eða mynd. Þetta ár ætlum við að horfa á “Imagine Me And You”. Ég er ekki búinn að sjá myndina en hún snýst um nýgifta konu sem fer að efast um kynhneigð sína. Ég hef heyrt að allir fari að gráta yfir þessari mynd.”

Hrafnkell segir að þau ætli að draga athyglina að trans unglingum og kynsegin unglinum. Að vera kynsegin þýðir að skilgreina kyn sitt ekki sem annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. “Þessa vikuna á föstudaginn kemur Guðmunda frá Samtökum ‘78 að ræða þessi málefni með okkur og verðum með svona open mic, þá má hver sem er koma með spurningar eða athugasemdir, bara aðeins ræða hlutina.“

 

 

 Hrafnkell, formaður Burs

Hrafnkell, formaður Burs

Varaformaður Burs er einmitt kynsegin og notar fornafnið hán. Það vill svo heppilega til að Rúrí, varaformaður okkar er líka fræðari fyrir hönd samtakanna þannig ég held að þetta verði mjög áhugavert hádegi hjá okkur á föstudaginn. Við í Bur erum 5 talsins. Við erum tveir strákar, einn sískynja (að upplifa sig tilheyra því kyni sem að manni var úthlutað við fæðingu) og einn trans, og svo eru blanda af kynsegin fólki og stelpum.”

Hrafnkell segir mér að fyrir stuttu hafi skólayfirvöld merkt klósettin í skólanum stelpum og strákum. “Sem gefur til kynna að það séu bara tvö kyn.Við í Bur vorum ekki nógu ánægð með það, því að þetta var ekki einu sinni rætt við okkur. Það er vitað að það eru fleiri en tvö kyn, og það er til fólk sem upplifir sig á allskonar hátt. Við í Bur leggjum áherslu á að hafa skólann sem þægilegastann fyrir alla nemendur, þannig að það er eitthvað sem við ætlum meðal annars að koma að á föstudaginn; hvað þessar kynjamerkingar á klósetum þýða fyrir nemendur sem eru kynsegin eða trans og staða þeirra í samfélaginu.


 

Hér eru nokkrar myndir af staðreyndum um sögu hinsegins fólks sem hafa verið hengdar upp á veggi MH:

Sólrún Sen