Reynt er að bæta ímynd SUS

Sólrún Freyja Sen skrifar:

20374496_10212433959835472_8627082939026067146_n.jpg

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur oft verið kallað „samviska Sjálfstæðisflokksins” samkvæmt Ingvari Smára Birgissyni, formanni SUS. Sambandið hefur oft verið í sviðsljósinu vegna ályktana, innri starfsemi og kosninga. Samkvæmt Ingvari er ungliðahreyfingin kölluð „samviska Sjálfstæðisflokksins“ vegna þess að meðlimir SUS hafa í gegnum tíðina þrýst á að fulltrúar flokksins vinni eftir stefnu og grunngildum Sjálfstæðisflokksins.

Mest lesið

Það hefur ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með stjórnmálum að oft hafa komið upp hörð átök í kringum kosningar til forystu SUS eða aðildarfélaganna.

Núna um helgina, 16-18 mars, var haldinn landsfundur Sjálfstæðisflokksins þar sem farið var yfir ályktanir málefnanefnda flokksins, og teknar ákvarðanir um stefnu hans til næstu tveggja ára.

SUS hélt viðburð 6. mars síðastliðinn, þar sem ungt fólk gat komið og farið yfir þær ályktanir sem voru ræddar á landsfundinum, og tekið afstöðu til þeirra og komið með tillögur um hvaða ályktunum SUS myndi þá vilja breyta og betrumbæta. Ingvar segir að í málefnastarfinu leggi ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu frekar áherslu á lausnir í húsnæðismálum, en á landsbyggðinni sé frekar hugsað um atvinnuuppbyggingu.

EFAST EKKI UM ÁHRIF SUS

Ingvar segir að hann efist ekki um áhrif ungra sjálfstæðismanna á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann situr þingflokksfundi sem haldnir eru tvisvar í viku, og þar getur hann komið að sjónarmiðum SUS. Þar að auki er SUS með sæti í miðstjórn flokksins sem hefur yfirumsjón með öllu innra starfi.

Áhrif ungra sjálfstæðismanna innan flokksins á pólitíkina stafar samt fyrst og fremst af fjölda og áhuga ungra sjálfstæðismanna, enda er Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka þar sem koma reglulega upp hörð átök um stjórnarstöður í SUS eða aðildarfélögum sambandsins.

„Það að við séum að ná landsfundarmálefnum okkar í gegn er ein birtingamynd áhrifa okkar. Önnur er sú að við rekum mörg af virtustu og stærstu félögum flokksins. Við erum reglulega með viðburði, erum sýnileg og komum oft fyrir í fjölmiðlum,” segir Ingvar.

NEIKVÆÐ FJÖLMIÐLAUMFJÖLLUN

Fjölmiðlaumfjöllun um SUS hefur upp á síðkastið verið í neikvæðari kantinum og þá kemur helst upp í hugann kosningar í stjórn SUS sem haldnar voru á þingi SUS á Eskifirði síðasta haust.

Í þeim kosningum voru stuðningsmenn Ingvars ósáttir við það að Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavik, sem er stærsta aðildarfélag SUS og tilnefnir þar af leiðandi meirihluta fulltrúa á þing SUS, hafi handvalið stuðningsmenn mótframboðs Ingvars í fulltrúa á þingið.

eskifjordur-snaevi-thakinn.jpg

Framboð Ísaks Rúnarssonar, sem var mótframbjóðandi Ingvars, gagnrýndi að stuðningsmenn sínir hafi verið yfirheyrðir á þinginu um lögheimili sitt, eða ekki fengið að kjósa á þinginu þrátt fyrir að vera aðalmenn þar.

Bæði framboðin gagnrýndu lögheimilisflutninga fulltrúa mótframboðsins.

„Við erum núna að vinna að því að breyta lögunum um hvernig sambandsþing SUS eru haldin, með það að markmiði að slagir af þessu tagi endurtaki sig ekki með þessum hætti. Menn eiga að takast á, það er eðlilegt, og merki þess að það sé heilbrigt starf í ungliðahreyfingunni, en ljóst er að breytinga er þörf á kosningafyrirkomulaginu.“

Dæmi um lög sem þyrftu að endurskoða, samkvæmt Ingvari, varðandi formannskosningar SUS er hvernig fulltrúar eru valdir á þingið. Það að tiltekin félög hafi of marga fulltrúa á þingið, sum of fáa, og hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar við val á fulltrúum. Þar að auki þyrfti að auka fyrirsjáanleika í því hvernig þingið fer fram.

„Þetta eru því miður ekki fyrstu SUS kosningarnar þar sem tekist er á all hressilega, og eins og ég nefndi áðan þá er núna ráðgert að endurskoða lög SUS með það að markmiði að svona slagir fari betur fram.”

BETRA AÐ EINHVER ÁTÖK EIGI SÉR STAÐ HELDUR EN ENGIN ÁTÖK

Ingvar segist þó fagna því að tekist sé á. „Við sjáum það hjá mörgum öðrum ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka, að þar er aldrei tekist á um að vera í stjórnum þessara félaga. Langflest eru í þeirri stöðu að eiga erfitt með að manna stjórnarstöður. Við hjá SUS erum blessunarlega í þeirri stöðu að það er offramboð af fólki sem vill sitja í stjórnum aðildarfélaga og leiða samtökin, sem er ef til vill lýsandi fyrir áhrif þeirra, hvort sem það er í fjölmiðlum eða innan flokksins.”

Ingvar segir að markmið næstu ára sé að bæta ímynd SUS og Sjálfstæðisflokksins út á við.

„Við erum alltaf að reyna að bæta okkur og við erum alltaf að reyna að gera betur. Sú vinna hefur verið í gangi síðustu árin og verður alltaf í gangi. Ég legg ekki upp úr að öllum líki vel við okkur. Við stöndum fyrir ákveðnum skoðunum. Markmiðið er að reyna að sannfæra sem flesta um þær og setja þær í form sem fólk getur sætt sig við og skilið. En þegar öllu er á botninn hvolft þá munu alltaf einhverjir vera ósammála og einhverjir sammála.“

„Það er oft talað um að stefna Sjálfstæðisflokksins nái ekki til ungs fólks. Ég er ekki alveg sammála þessum fullyrðingum. Við sjáum það til dæmis ítrekað í skuggakosningum framhaldsskólanna að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mikils fylgis hjá ungu fólki miðað við aðra flokka. Það breytir því ekki að við eigum að gera betur.“

„Það eru vissulega ákveðnir aldurshópar, í ákveðnum sveitafélögum, þar sem við komum ekki nægilega vel út. Þetta er rosalega sveiflukennt, og getur frá ári til árs breyst mjög hratt. Ég hef ekki hrópandi áhyggjur af fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólks,” segir Ingvar og bætir við, “sérstaklega þegar að þetta er sett í samanburð við þá flokka sem við berum okkur saman við. Píratar hafa verið vinsælastir meðal ungs fólks á síðustu árum, en það fylgi hefur hrunið svo sannarlega af þeim. Það er ljóst að sóknarfærin eru mikil og nú er á okkur að stökkva af stað og nýta þau.”


 

Sólrún Sen