Topp 5 kokteilar í bænum

cocktails.jpeg

Silja Snædal Drífudóttir, Kristján Ernir Björgvinsson og Sólrún Freyja Sen blaðamenn á Babl kÍktu á alla helstu kokteilsstaðina í bænum til að komast að því hvar er að finna bestu kokteilana. Þess má geta að Kristján drekkur ekki vín og fékk heiðurinn af því að velja besta óáfenga kokteilinn í bænum. 

 

5.StrawberrySalad Margarita á Pablo Discobar

Góður jarðarberjakokteill, alls ekki of sætur eins og jarðaberjakokteilar eiga það til að vera. Tekílabragðið var ögn of sterkt að mati Sólrúnar sem fékk að smakka þennan kokteil, en það var ekkert alvarlegt.

Hráefni: Don Julio Blanco Tequila, heimagert jarðaberjasýróp, límóna, balsamedik, niðurskorin jarðarber, minta og gullduft.

4.Dillagin á Apótek

Veitingastaðurinn Apótek er þekktur fyrir matar- og kokteilagerð á hærra plani. Við fengum að smakka Dillagin hjá þeim sem er fullkomin blanda af sætu og súru.

Það er frekar mjúkt bragð af dilli og þessvegna finnst okkur Böblurum vera allt í lagi að setja nóg af því. Dill og límóna er alltaf góð blanda en það er mikilvægt að deyfa sýruna í límónunni og mangólíkjör virðist vera fullkomið í það hlutverk.

Fyrir þá sem þrá súrleikann í kokteilinn sinn er Dillagin hættulega ávanabindandi, nánast eins og nammi á bragðið. Súrt, sætt og dill!

Apótek stendur fyrir sínu! Við mælum með að smakka þennan.

Hráefni: Dill-tónað Tanqueray gin, mangólíkjör, límónusafi, sykur og bitterar.

3.Rabarbararúna á Sæta Svíninu

Þessi var svona skemmtilega öðruvísi. Hver hefði haldið að okkar eigin íslenski rabbarbari út í garði gæti nýst í fágaðan kokteil með fínu fötunum? Fyrir ykkur sem eruð þreytt á sítrónu- eða  límónusírópinu sem mótvægi við áfengisbragðið, þá mælum við með þessum. Rabbabarinn nýtist greinilega ekki bara í sultur.

Rabarbararúnan rífur hressilega í og fullnægir sykurþörfinni allt á sama tíma. Fullkominn ferskur sumarkokteill.

Hráefni: Límónusafi, sykursíróp, rabbarbaralíkjör, gin og rabbarbarabita

2.Dr. Steampunk

Fyrir öll jólabörnin þá er þessi málið. Dr. Steampunk á Sushi Social er alveg eins og jólin á bragðið en það er graskerssírópið sem gerir það að verkum. Það eina sem vantaði var piparkökur og snjókoma.

Drykkurinn uppfylltir allar skyldur sínar sem kokteill. Hann er áfengur, sætur og einkennist af algjörlega einstöku og ljúffengu bragði sem þú getur með engu móti fundið út hvað er en veist að þú vilt meira. Svo er hann svakalega fallegur i þokkabót!

Hráefni: Reyka vodki, Monin Pumpkin Spice síróp, appelsínusafi, límónusafi, Maraschino líkjör, Butterscotch líkjör, eggjahvíta, tvær anis stjörnur og tvö hindber.

1.Óáfengur appelsínukokteill á Bar Ananas

Fyrir ykkur sem eruð ekki í víninu eins og hann Krissi okkar þá mælum við með að rölta á Bar Ananas, en þar fékk Krissi einn suðrænan og seiðandi, sem var skemmtilega öðruvísi með ananas- og kaniltvisti. Áfengið er ekki mikilvægasti parturinn í kokteilum! Til að fá að smakka þennan þurfið þið bara að tjekka á Fitore á barnum sem á heiðurinn af þessum.

Hráefni: Ananassafi, appelsínusafi, yuzusíróp og brenndur kanill.

 

Aðrar fréttir

Sólrún Sen