Davíð sendir frá sér leiðréttingu á yfirlýsingu framkvæmdarstjórnar SÍF, Einar Hrafn segir ,,fáránlegt að halda þessu fram"

Davíð Snær Jónsson sendi á fjölmiðla snemma í dag yfirlýsingu vegna ákvörðunar framkvæmdarstjórnar SÍF að víkja honum úr formannsembætti stjórnarinnar. Í yfirlýsingunni segir hann að reglur um greinarskrif stjórnarmanna í fjölmiðlum hafi í raun ekki verið samþykktar, en til þess þarf tvo stjórnarfundi þar sem kosið er um nýjar reglugerðir á fyrri fundinum og kosningin staðfest á næsta fundi.

20180330_190911.jpg

Davíð ásakar SÍF einnig um að hafa ekki virt lög SÍF með því að taka ákvörðunina um brottrekstur hans á spjallsíðum og í tölvupóstasamskiptum. Hann segir einnig að það hafi verið boðað til fundar en aldrei hafi komið til hans þar sem búið var að ákveða að víkja honum úr starfi.

Hann vísar einnig í yfirlýsingu stjórnar SÍF sem telur hann hafa gerst brotlegan við lög Landssambands ungmennafélaga (LUF) sem kveða á um að aðildarfélög LUF skuli starfa með lýðræðislegum hætti.

Hann segir að hann hafi ekki brotið þau lög, heldur verið að nýta rétt sinn til að tjá gagnrýni á opinberum vettvangi.

Davíð bendir jafnframt á að hann hafi aldrei sagt að hann væri á móti því að gera kynjafræði að skyldufagi í gagnrýni sinni á stefnu SÍF á Vísi. 

,,Í greininni tala ég aldrei á móti samþykktri stefnu SÍF, þó sumir geta smíðað sér ályktanir út frá greininni. Hinsvegar vek ég upp ýmsar spurningar um t.d. gildi kynjafræðinnar og hvort kynjafræðin sé ekki byggð á pólitískri hugmyndafræði.
Ef ekki má spyrja spurninga sem þessar, má álykta að allar skoðanir og spurningar um stefnumál SÍF séu ólögmætar og teljist brot á lögum sambandsins, og þeir sem gerast brotlegir, skulu víkja úr störfum.”

20180421_175420.jpg

Einar Hrafn Árnason, fyrrum varaformaður stjórnar SÍF og núverandi formaður, hafði þetta að segja um yfirlýsingu Davíðs:

,,Það var fáránlegt að halda því fram að ákvarðanir stjórnar taki einungis gildi ef fundargerðir eru samþykktar, því að ákvarðarnir rata ekki alltaf þangað inn. Það einfaldlega er ekki rétt. Svo virðist vera að það hafi gleymst að bera þetta upp á stjórnarfundinum, og það er á ábyrgð fundarstjóra, sem í þetta skipti var Davíð.

Það er samþykkt þarna regla um greinaskrif hans sérstaklega, og sem hann vill greinilega ekki viðurkenna því hann hefur ekki fylgt þeim reglum síðan, og svo samþykkir hann ekki fundargerðina með því að bera hana upp á næsta fundi. Hann virðist svo ætla að nota það sem eitthvað tækniatriði til að stoppa það að við beitum þessari reglu.

Telur þú að hann hafi nýtt sér vald sitt sem fundarstjóra að samþykja ekki þessa reglugerð?

,,Ég ætla ekki að halda því fram. Ég held að það sé mjög hentugt fyrir hann að það hafi ekki verið gert. En annars er þetta bara einhver útúrsnúningur hjá honum.”

Davíð vísar svo í lög SÍF sem fjalla um hve oft skal halda stjórnarfundi og að það þurfi einfaldan meirihluta stjórnar til að vísa stjórnarmanni úr embætti, hafi hann gerst brotlegur við lög og reglur SÍF. Hann gagnrýnir að málið hafi ekki verið rætt á stjórnarfundi með öllum stjórnarmönnum áður en ákvörðunin var tekin um að vísa honum úr embætti.

,,Ég ætla að benda á það að þessi ákvörðun var skjalfest á stjórnarfundi sem var haldin fimmtudaginn 19. júlí. En það er ekki tæknilega séð þörf á því hvort eð er. Við reyndum að halda stjórnarfund á föstudaginn strax, neyðarfund vegna þessarar greinar. Það var vesen að hittast öll þar sem flestir voru einhversstaðar á flakki, þannig það var haldinn símafundur.

Það var mjög slæmt hljóð í öllum, og það var kvartað yfir því að einungis hann gæti boðað stjórnarfund og það væri ekki hægt að taka ákvarðanir án stjórnarfundar.

Þetta endaði með því að á sunnudeginum 22. júlí sendum við honum beiðni um afsögn.

Við ráðfærðum okkur við sérfræðinga sem hefur mikla reynslu af SÍF eða félagssamtökum almennt og hefur jafnvel verið í SÍF áður.

Við ráðfærðum okkur við lögfræðing líka, og komumst að því að þetta hafi verið lögleg leið til að krefja hann um afsögn. Það sé einfaldlega ekki satt að það þurfi að gera þetta á formlegum stjórnarfundi eins og Davíð heldur fram.

,,Lögin sem Davíð vitnar í virðast kveða á um stjórnarfundi og hvenær má halda þá. Þau eru ekki ein skýr og við myndum vilja að þau væru, einhverjir stjórnarmenn hafi haldið því fram að hver sem er getur boðað stjórnarfund, og að það skuli funda eins oft og þurfa þykir.

Mér finnst þetta ekki vera nógu skýrt. En við munum fara yfir þetta. Það ætti allavega ekki að þurfa stjórnarfund þar sem 32. grein laga SÍF kveður ekki sérstaklega á um að ákvörðun um afsögun stjórnarmanns þurfi að eiga sér stað á stjórnarfundi. Einungis að meirihluti stjórnarmanna þurfi að samþykja hana.

Það má þá kannski skilja að hann hafi túlkað lögin á annan hátt en þið gerið.

,,Já það er einhver misskilningur þarna í gangi og við gerum ráð fyrir að hann sé mjög saklaus.

Hann gagnrýnir líka að í yfirlýsingu ykkar sem fjallar um afsögn Davíðs og birtist meðal annars á Vísi að þið hafið vísað í lög Landssambands Ungmennafélaga (LUF) sem kveða á um að aðildarfélög LUF skuli starfa með lýðræðislegum hætti.

Davíð segir að hann hafi einfaldlega verið að nýta tjáningarfrelsið sitt.

,,Davíð nýtur óskerts tjáningarfrelsis. Hann má segja það sem hann vill. Það sem við gerðum athugasemdir við var að hann skrifaði fyrir hönd SÍF, gegn stefnum SÍF. Hann fær þessi forréttindi frá sambandsstjórn að tala ekki bara fyrir sína eigin hönd heldur fyrir hönd allra íslenskra framhaldsskólanema. Því fylgir eðlilega skýrar reglur um hvenær hann má tjá sig fyrir hönd SÍF.

Hann hefur klárlega brotið þau skilyrði og reglur, eftir viðvörun frá stjórninni þess efnis, og eftir að við vorum búin að neita honum um leyfi til að birta þessa grein.”

Hann var semsagt búinn að bera þessa grein undir ykkur áður en hún var birt?

,,Já. Við sögðum bara nei og minntum hann á þessar reglur, að hann mætti ekki birta þessa grein undir merkjum SÍF og undirrita hana sem formaður stjórnar SÍF.

Ef hann hefði ekki birt greinina sem formaður SÍF heldur sem Davíð Snær Jónsson, hefðu þið vikið honum úr embætti?

,,Við getum ekki sagt til um það en það væri allavega mun vægara brot ef það væri brot yfir höfuð.”

Svo segir Davíð að í greininni sem fjallar um gagnrýni hans á að kynjafræði verði gerð að skyldufagi, að hann hafi aldrei sagt berum orðum að hann sé á móti því að kynjafræði verði gerð að skyldufagi.

,,Hann er bara að reyna að smækka þetta mál í einhver tækniatriði og vísar í nákvæma orðanotkun hans í greininni, þegar það er augljóst að hann er að tala gegn kynjafræði og gegn stefnum SÍF.”

Davíð varpar svo fram þeirri spurningu hvort að allar skoðanir á stefnum SÍF séu ólöglegar?

,,Í fyrsta lagi þá er annað að gagnrýna innan SÍF á stjórnarfundum, heldur en að birta grein með formerkjum SÍF sem inniheldur gagnrýni á stefnur SÍF. Svo er það náttúrulega ekki hlutverk framkvæmdarstjórnar að hafa áhrif á stefnumótun SÍF, það er hlutverk sambandsstjórnar að gera það. Við einfaldlega fáum þessi forréttindi frá sambandsstjórn að geta barist fyrir hönd íslenskra framhaldsskólanema fyrir stefnum sem sambandsstjórn ákvarðar.

Einar segir svo að framkvæmdarstjórn SÍF geri athugasemd við að Davíð titli sig sem formann framkvæmdarstjórnar SÍF í stöðufærslum eða greinum, eftir að hafa verið vikið úr embætti.

Sólrún Freyja Sen skrifaði

 

Hér er hægt að lesa yfirlýsingu Davíðs vegna brottrekstrarins í heild sinni:

Þann 24. júlí síðastliðinn var send út fréttatilkynning á fjölmiðla frá meirihluta framkvæmdastjórnar Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) að formanni sambandsins, Davíð Snær Jónsson yrði vikið úr framkvæmdarstjórn félagsins fyrir brot á lögum SÍF, vinnureglum SÍF, samþykktar 9. stjórnarfundar SÍF og siðareglum Landssambands ungmennafélaga (LUF).

Sem formaður sambandsins og málsaðili, er það mitt hlutverk og á minni ábyrgð að upplýsa um rangfærslur yfirlýsingar meirihlutans, sem eru eftirfarandi:

 1. Vísað er til fundargerðar 9. stjórnarfundar framkvæmdastjórnar sem átti sér stað þann 17. janúar 2018, á þeim fundi var rætt um greinaskrif stjórnarmanna og birtingarmynd þeirra í fjölmiðlum.
  Fundargerð 9. stjórnarfundar var ekki samþykkt af framkvæmdarstjórn á 10. stjórnarfundi sambandsins þann 24. janúar 2018.
  Samþykktir fundargerða hafa verið hafðar með þeim hætti að í upphafi hvers stjórnarfundar er borin upp ályktun um hvort seinasta fundargerð stjórnar sé samþykkt eða ekki. Fundargerðin sem vísað er til hefur ekki verið samþykkt og tilheyrir því ekki vinnureglum SÍF eins og gefið var í skyn af hálfu meirihlutans.

   

 2. Stjórnarmenn fara með vald sitt á stjórnarfundum, en ekki á spjallsíðum og í hópsímtölum.
  29. gr. sambandsins hljóðar svo, „framkvæmdastjórn skal funda svo oft sem þurfa þykir en þó ekki sjaldnar en hálfsmánaðarlega. Fundur framkvæmdastjórnar er lögmætur þegar einfaldur meirihluti framkvæmdastjórnar mætir á fundinum.“
  Í yfirlýsingu meirihlutans er vísað til 32. gr laga SÍF, „að telji stjórnin fulltrúann hafa brotið vinnureglur viðkomandi stjórnar, að þá þurfi einfaldan meirihluti framkvæmdastjórnar að samþykkja brottvísunina.“ Ályktun þess efnis hefur ekki verið samþykkt á stjórnarfundi framkvæmdarstjórnar. Til fundarins var boðað, en með brottvísuninni gaf meirihluti framkvæmdarstjórnar hvorki formanni né öðrum stjórnarmönnum tækifæri til þess að setjast niður, ræða málin og taka ákvörðun á stjórnarfundi.

 3. Í yfirlýsingunni er vísað til laga Landssamband ungmennafélaga (LUF). Lög LUF kveða á að aðildarfélög LUF skuli starfa á lýðræðislegan hátt.
  Ég hef ekki gerst brotlegur í lýðræðislegum starfsháttum innan míns aðildarfélags, þar sem greinaskrif mín kröfðust ekki samþykkis framkvæmdastjórnar og þá vísa ég aftur til samþykktar fundargerðar 10. stjórnarfundar, þar sem fundargerð 9. stjórnarfundar var ekki samþykkt.
  Vekja má heldur upp þá spurningu hvort meirihluti framkvæmdastjórnar hafi gerst brotlegur í sínu starfi og gagnvart lögum LUF, þegar ályktun um brottvísun mína var send út á fjölmiðla. Brottvísunin var aldrei samþykkt á stjórnarfundi, heldur af meirihluta framkvæmdarstjórnar á spjallsíðum og í tölvupóstsamskiptum. Vinnubrögð sem þessi teljast ekki lýðræðisleg og setja þau svartan blett á sambandið og ákvörðunarhætti innan þess og framkvæmdastjórnar.

 4. Í greininni greini ég aldrei frá þeirri skoðun að ég sé á móti því að gera kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum, sem er samþykkt stefna SÍF. Hinsvegar sagði ég að „kynjafræði væri ekki töfralausnin til þess að ná árangri á sviði jafnréttismála“ og að sem dæmi væri „hægt að láta nemendafélög og skólayfirvöld vinna saman að ýmsum verkefnum tengdum jafnrétti, í stað þess að skylda alla að nema pólitíska hugmyndafræði.“
  Í greininni tala ég aldrei á móti samþykkri stefnu SÍF, þó sumir geta smíðað sér ályktanir út frá greininni. Hinsvegar vek ég upp ýmsar spurningar um t.d. gildi kynjafræðinnar og hvort kynjafræðin sé ekki byggð á pólitískri hugmyndafræði.
  Ef ekki má spurja spurninga sem þessar, má álykta að allar skoðanir og spurningar um stefnumál SÍF séu ólögmætar og teljist brot á lögum sambandsins, og þeir sem gerast brotlegir, skulu víkja úr störfum.

Að framkvæmdarstjórn SÍF, hagsmunaafl allra framhaldsskólanema á Íslandi geti tekið slíka illa rökstudda ákvörðun sem fer á bága við lög og samþykktir sambandsins, án afleiðinga. Veldur eðlilega áhyggjum út á við, þegar lög eru ekki virt að vettugi, í tilfelli þar sem formaður er ásakaður um vanhæfi.

Lítur undirritaður svo á að ef meirihluti framkvæmdarstjórnar beri ekki virðingu fyrir lögum og reglum félagsins sem ábyrgðaraðilar innan SÍF, sé meirihlutinn með öllu vanhæfur til að starfa fyrir félagið.

Ég set þá ábyrgð á hendur fjölmiðla að opinbera umrædd gögn og óska eftir að fundargerðir 9. og 10. stjórnarfundar SÍF verði opinberaðar, til sönnunar um að umræddar bókanir standist við mína frásögn málsins.

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen