Einar Freyr segir af sér störfum sem gjaldkeri SÍF

Í kjölfar þess að Davíði Snæ Jónssyni var vikið úr embætti formanns framkvæmdarstjórnar SÍF hefur Einar Freyr Bergsson sem sinnti starfi gjaldkera í framkvæmdarstjórninni, sagt upp störfum. 

30716463_1262183660582208_3502874871627513856_n.jpg

Hann líkir framkomu meirihluta framkvæmdarstjórnar SÍF sem tók ákvörðunina um að víkja Davíði úr embætti við ,,pólitíska valdabaráttu í sjónvarpsþættinum House of Cards, þar sem einstaklingar nýta lagaglufur til þess að koma sjálfum sér í valdastöður." 

Einar segir að hann hafi ekki verið með í ráðum þegar ákvörðunin um að víkja Davíði úr embætti var tekin, og honum þykir ,,óásættanlegt að að stjórnarmenn geti tekið slíkar ákvarðanir á spjallsíðum og á símafundum, en ályktun sem þessi ætti að fara fram á stjórnarfundi þar sem meirihluti stjórnar kemur saman og ræðir málið eins og fullorðnir einstaklingar."

Einar lýsir yfir vantrausti á meirihluta framkvæmdarstjórnar SÍF og krefst afsökunarbeiðni til sín og Davíðs fyrir framkomu þeirra ,,þar sem Davíð hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu SÍF frá því að hann tók við störfum".

Sólrún Freyja Sen skrifaði

 

Hér má lesa afsagnarbréf Einars í heild sinni

Ég Einar Freyr Bergsson segi hér með störfum sem gjaldkeri Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Mun afsögnin taka gildi frá og með 6. ágúst 2018.

Þessi ákvörðun um afsögn hefur legið á herðum mínum allt frá því að meirihluti framkvæmdarstjórnar SÍF tók ákvörðun um að vísa formanni félagsins Davíðs Snæ Jónssyni á brott vegna meintra brota í starfi sínu sem formaður. Skrípaleikur meirihlutans líkir við pólitískri valdabaráttu í sjónvarpsþættinum House Of Cards, þar sem einstaklingar nýta lagaglufur til þess að koma sjálfum sér í valdastöður.

Í gær 31. júlí sendi Davíð Snær Jónsson leiðréttingarbréf til framkvæmdarstjórnar þar sem hann upplýsti um rangfærslur meirihluta framkvæmdarstjórnar í brottvísunarbréfi sem sent var út þann 24. júlí síðastliðinn af hálfu meirihlutans. Þessar upplýsingar uppljóstruðu um ólögmæti brottvísunarinnar og tek ég mér þá afstöðu að standa með þessum leiðréttingum Davíðs og um brot meirihlutans í starfi.

Þessi ákvörðun meirihlutans um brottvísun formannsins kom mér í opna skjöldu, þar sem ég var ekki hafður með í ráðum um þessa drastísku ákvörðun meirihlutans, fyrr en í tölvupósti að morgni 21. júlí kl. 08:46. Mér þykir það óásættanlegt að stjórnarmenn geti tekið slíkar ákvarðanir á spjallsíðum og á símafundum, en ályktun sem þessi ætti að fara fram á stjórnarfundi þar sem meirihluti stjórnar kemur saman og ræðir málið eins og fullorðnir einstaklingar.

Í dag er ég staddur í Slóvakíu á vegum sambandsins, en sný aftur heim mánudaginn næsta. Eftir að ég hef skilað af mér skýrslu af ferðinni mun afsögn mín taka gildi.

Vil ég sjálfur lýsa yfir vantrausti á meirihluta framkvæmdastjórnar fyrir að virða ekki lög og reglur sambandsins. Mér finnst framkvæmdarstjórn SÍF skulda mér fyrirgefningu og Davíð Snæ afsökunarbeiðni fyrir ályktun sína, þar sem Davíð hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu SÍF frá því að hann tók við störfum.

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen