Ljósmæður mikilvægar fyrir andlega heilsu mæðra og öryggistilfinningu á meðan á meðgöngu stendur

Eins og flestir vita þá eru ljósmæður í verkfalli og enn hefur ekki náðst að semja við þær um betri kjör. Babl hafði samband við tvær ungar konur, en önnur þeirra eignaðist sitt fyrsta barn í fyrra og hin á von á barni í haust.

Heiðdís Anna Jóhannsdóttir er 19 ára gömul móðir sem eignaðist sitt fyrsta barn fyrir um ári síðan. Hún segir að ljósmæður hafi sinnt henni alla meðgönguna og verið henni mjög nauðsynlegar.

36769237_1829636094011362_5474655118399897600_n.jpg

 

,,Ég var frekar veik andlega í byrjun meðgöngunnar af því ég átti erfitt með að sætta mig við að ég væri ólétt, af því ég var svo ung. Þá fékk ég alla aðstoð frá ljósmóður minni þar sem hún reddaði því að ég fengi sálfræðing svo ég gæti náð andlegri heilsu. Svo hjálpa þær náttúrulega í fæðingunni. Það var sjúklega gott að hafa stuðninginn frá sérfræðingi sem vissi allt um þetta meðan á því stóð. Fæðingin er náttúrulega stór viðburður í lífi manns og maður getur verið svolítið hræddur, sérstaklega þegar maður er svona ungur.

Eftir fæðinguna þá fylgjast þær með fyrstu dagana hvernig gengur með barnið, hvernig barnið þroskast og hvernig móðir og barn ná að tengjast.”

Heiðdís segir að hún hafi líka nýtt sér þjónustu ljósmæðra á einkastofum, en hún gat hringt bæði í þær og upp á spítala hvenær sem var.

Á skalanum 0-10, hversu mikilvægt fannst þér starf ljósmæðra vera fyrir þig?

,,Alveg bara 10. Ég hefði ekki getað gert þetta án þess að hafa mína ljósmóður.”

Hversu lengi var ljósmóðir viðstödd á meðan þú varst að fæða þitt barn?

,,Ég var upp á spítala í 10 tíma. Hún (ljósmóðirin) var stanslaust hjá mér í 9 tíma en hún var búin á vakt klukkutíma áður en dóttir mín fæddist og þá kom önnur í hennar stað . Þær voru báðar ótrúlega fínar og góðar.

Það var eiginlega bara svona einu sinni og einu sinni sem hún fór fram að sækja eitthvað fyrir mig, en þá var hún náttúrulega til staðar fyrir mig ennþá. Ef hún þurfti að skreppa eitthvert þá fór hún bara á meðan allt væri í góðu og þá gat ég samt náð í hana.”

Segjum að þú værir ólétt núna, hvaða áhrif heldurðu að verkfallið myndi hafa á þig?

,,Þetta myndi hafa rosalega stressandi áhrif á mig. Ég væri örugglega ógeðslega stressuð fyrir fæðingunni og heilsu barnsins. Þannig að ég myndi örugglega ekki vera svo sátt með það. Ef þetta heldur áfram að vera svona, þá mun ég ekki eignast annað barn. Það er bara þannig.”

36721149_10214509358720757_5343446775199956992_n.jpg

Anna María Ingadóttir er tvítug og á von á barni í haust. Aðspurð um hvernig ástandið lætur henni líða þá hafði hún þetta að segja. ,,Þetta stressar mig og gerir mig óörugga. Ég er hrædd um að eitthvað fari úrskeiðis af því þetta er í fyrsta skipti sem ég geri þetta og ég vil hafa þann stuðning og þá hjálp sem ég á skilið að fá, til að stofna mér og barninu mínu ekki í hættu. Þó það séu læknar á spítalanum þá vill maður samt hafa ljósmóður sem er reynd í þessu og veit hvað hún er að gera, ég vil ekki finna fyrir neinu óöryggi þegar kemur að þessu.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði
 

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen