Kaffiást tjáð í myndum

Rétt fyrir utan Hafnarfjörðinn nálægt forsetabústaðnum má finna Álftanes Kaffi, en þar inni eru til sýnis myndskreytt textabrot eftir Nönnu Katrínu Hannesdóttur. Textabrotin eru öll um kaffi, tekin úr hinum ýmsu lögum og ljóðum, og svo teiknaði Nanna myndir við.

,,Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði þegar ég var að hlusta á lagið Tíu Dropar með Moses Hightower. Tíu Dropar er ástarsöngur um kaffi. Þeir eru að syngja um kaffið sem er alltaf til staðar fyrir mann og það rann upp fyrir mér að kaffi er ein af stærstu ástunum í lífi manns.”

En hvenær breytist kaffiást yfir í kaffiþráhyggju?

,,Góð spurning. Ætli það sé ekki bara þegar maður er orðinn kaffifíkill. En það fylgir kannski alltaf einhver þráhyggja með ástinni? Það er allavega mín reynsla. Maður hugsar oft um það eða þá sem maður elskar og vill eyða tíma með ástinni sem oftast.

Það er samt ekki gott ef þráhyggjan verður of mikil. Eða ef það er bara þráhyggja og engin ást. Það getur kannski gerst að maður missir tenginguna við ástina,  þá situr bara þráhyggjan eftir.”

Nanna Katrín Hannesdóttir

Nanna Katrín Hannesdóttir

Kaffimyndirnar telja 24, og Nanna byrjaði að teikna þær í sumar og þá í samstarfi við Skapandi Sumarstörf í Garðabæ. Þann 28. júlí birti Babl grein sem fjallar um Skapandi Sumarstörfin í ár.

,,Þegar ég fékk þessa hugmynd í fyrrasumar gerði ég  ekkert meira við hana í nokkurn tíma. Maður fær einhvernveginn endalaust af allskonar hugmyndum.

Svo datt mér í hug að sækja um Skapandi Sumarstörf, en það er ágætis vettvangur til að vinna sín eigin skapandi verkefni. Mér datt í hug að það gæti verið góð leið til að hrinda mér af stað og gera eitthvað úr þessari hugmynd.”

Niðurstaðan var þessar myndir sem héngu allar uppi á uppskerusýningu listamannana sem tóku þátt í Skapandi Sumarstörfum.

IMG_0481.jpg

Nanna segir að næsta skref verkefnisins sé að búa til litla bók úr myndunum. ,,Ég ætla allavega að byrja á að kanna hvort það væri framkvæmanlegt.”

En textabrot um kaffi eru bara hluti af textasafni Nönnu. ,,Ég hef lengi safnað textabrotum sem mér finnst sérstaklega falleg. Ég les mikið af bókum og skrifa oftast niður það sem mér finnst merkilegt.”

Nanna segir þó að framtíðarvinna hennar með texta verði þó líklegast með texta sem hún hefur samið sjálf. ,,Ég hef ort ljóð frá því eg byrjaði í menntaskóla. Ég er ennþá frekar feimin með að sýna þau.” Nanna birti samt tvö ljóð eftir sig í Byltingi, tímariti heimspekinema, þegar hún var í heimspekináminu. Blaðamaður fékk leyfi til að birta þau hér.

Eitthvað er ekki eins og það á að vera

finnst ég vera að betla

ástarorð frá þér-

svo kannski er það núna

sem ég týnist í tímans haf

perla verður betlikerling

án þess að neinn viti af

Samt, eins og það á að vera

einsog útréttur faðmur

á svölum sunnudagsmorgni

tekur á móti mér.

vesturbæjarlaugin.

Aðspurð hvort heimspekinámið hafi veitt henni innblástur fyrir listsköpunina segir Nanna að það gæti vel verið. ,,Heimspekin er mjög tengd sköpun. Það veit enginn hvernig heimurinn er nákvæmlega og þessvegna held ég að það sé alltaf ákveðin sköpun fólgin í því að velta fyrir sér hugmyndum um hvernig hann er.

Í heimspekináminu er maður að setja sig inn í mörg ólík sjónarmið og ólíkar kenningar um raunveruleikann. Það er rótað svolítið í manni og alltaf verið að velta nýjum og nýjum flötum upp.”

Myndir þú segja að þú hafir alltaf verið listakona?

,,Já og nei. Ég held að allir séu listamenn upp að vissu marki. Ég hef alltaf búið yfir mjög öflugu ímyndunarafli, en ímyndunaraflið gerir kannski útslagið um hversu listrænn maður er. Ég hef alltaf haft tilhneigingu til að búa til minn eiginn veruleika. Hvort sem það lýsir sér í að búa til sögur í hausnum eða þá að skrifa eitthvað á blað. Ég veit það ekki. Maður er alltaf einhvernveginn að reyna að snúa út úr hlutunum.”

Myndirnar á Álftanes Kaffi verða áfram uppi á næstu vikum fyrir þá sem vilja njóta kaffibollans með auka innblæstri.

Sólrún Freyja Sen skrifaði
 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen