,,Leiddist út í verkalýðsbaráttuna og þaðan var ekki aftur snúið"

30179906_10155057370091534_408009494_n.jpg

Elva Hrönn Hjartardóttir, stjórnmálafræðinemi, flugfreyja, móðir og frambjóðandi í 14. sæti fyrir Vinstri græn í Reykjavík:

Ég ætlaði aldrei út í pólitík. Hef alltaf haft sterka skoðun á nánast öllu og mjög ríka réttlætiskennd en sá aldrei fyrir mér að geta nýtt það sérstaklega til góðra verka. Ég vissi hreinlega ekki hvernig átti að beina þessu í ákveðinn farveg, hafði ekki þekkinguna eða vitneskjuna um hvernig ég ætti að bera mig að. Ég vissi þó alltaf hve mikilvægt var að nýta kosningaréttinn og kosningar hafa alltaf verið ákveðin hátíð í mínum huga. En stjórnmálaþátttaka mín var í raun ekki mikið meiri en það.

 

Fyrir nokkrum árum síðan leiddist ég út í verkalýðsbaráttuna eiginlega alveg óvart og þá varð ekki aftur snúið.

Ég varð trúnaðarmaður á vinnustaðnum mínum, sat í trúnaðarráði VR og drakk í mig alla þá visku sem ég hlaut í því starfi sem og öllum þeim námskeiðum því tengdu. Á þessum vettvangi fékk ég tæki og tól í hendurnar til að beina hugsjónum mínum, sannfæringu og þekkingu í ákveðinn farveg. Þessi reynsla varð til þess að ég hóf nám við Stjórnmálafræðideild í Háskóla Íslands, sem ég stefni á að klára næsta vor. Stjórnmálafræðin gefur mér innsýn í ótal margt sem við kemur samfélaginu, stjórnsýslu og samskiptum fólks. Í gegnum námið hef ég því fengið enn fleiri „verkfæri“ í farteskið til að láta gott af mér leiða.

Það var svo fyrir rúmu ári síðan að ég tók ákvörðun um að skrá mig í stjórnmálahreyfingu. Þó ég hafi svo sem aldrei farið leynt með stjórnmálaskoðanir mínar fannst mér þetta ansi stórt skref.

Ég skráði mig í Vinstri græn, hreyfingu þar sem fólk deilir sömu hugsjónum og gildum og ég og hefur það að markmiði að bæta heiminn. Vissulega koma upp aðstæður þar sem fólk er ekki sammála um hvern einasta hlut, en það skapar ákveðna dýnamík, áskoranir og á endanum lausnir sem voru kannski ekki innan seilingar til að byrja með.

Það, ásamt svo mörgu öðru, gerir stjórnmálastarfið eins skemmtilegt og lærdómsríkt og raun ber vitni. Innan VG fann ég farveg fyrir hugsjónir mínar, sannfæringu og þekkingu. Mín rödd hefur jafnmikið að segja og allar hinar og mér finnst magnað að ég skuli geta haft áhrif á samfélagið mitt. Ég sé nefninlega fyrir mér ákveðið samfélag sem ég vil búa í og deili þeirri hugsjón með Vinstri grænum.

Ég sé fyrir mér samfélag þar sem allir fá jöfn tækifæri og geta lifað með reisn óháð aldri, uppruna, kyni, kynhneigð, stöðu, stétt og svo framvegis. Öll eigum við rétt á tækifæri til að lifa áhyggjulausu og mannsæmandi lífi.

Ég sé fyrir mér fallegt, fjölbreytt, „grænt“ og vel skipulagt samfélag sem virkar fyrir alla, hlúir vel að íbúum sínum og tekur vel á móti nýjum.

Ég sé fyrir mér fjölskylduvænt samfélag þar sem fólk getur fundið jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs, meðal annars með styttingu vinnuvikunnar. Samfélag sem stuðlar að heildstæðu skólakerfi, tryggir leikskólapláss fyrir öll börn að fæðingarorlofi loknu, viðunandi starfsumhverfi og kjör fyrir leik- og grunnskólakennara.

Samfélag þar sem öll börn fá að vera börn, fá að sækja listir, menningu, íþróttir og aðrar tómstundir. Samfélag þar sem ekkert barn þarf að alast upp í fátækt. Samfélag sem hvetur til náms og (ný)sköpunar og heldur vel utan um unga fólkið, framtíðina. Samfélag þar sem fólk lifir í sátt og samlyndi við náttúruna. Samfélag sem tryggir öruggan húsnæðismarkað. Allt eru þetta ástæðurnar fyrir því að ég býð mig fram fyrir Vinstri græn í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Málefni sem við í Vinstri grænum leggjum áherslu á og meira til. Málefni sem brenna á mér og hafa leitt mig hingað, út í pólitík. Og hér er ég, að reyna að bæta heiminn.

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen