Skapandi sumarstörf í Garðabæ

Salóme Sól Norðkvist, Alexandra Rós Norðkvist og Nanna Katrín Hannesdóttir

Salóme Sól Norðkvist, Alexandra Rós Norðkvist og Nanna Katrín Hannesdóttir

Systurnar Salóme Sól Norðkvist og Alexandra Rós Norðkvist eru búnar að vera á fullu í sumar við að semja raftónlist og skapa gjörninga, en heitið á verkefninu er Bramla. ,,Fyrst vorum við bara að gera raftónlist en svo þróuðumst við út í að fara að fremja gjörninga sem við unnum í bland við tónlistina.”

Stelpurnar voru meðal annars með sýningu sem þær héldu upp á eigin spýtur í Grósku í Garðabæ þar sem þær voru með gjörning. Þær voru einnig með gjörning á lokasýningu Skapandi sumarstarfa í Garðabæ. Þeirra eigin sýning var líka unnin í samstarfi við Skapandi sumarstörfin.

Gjörningur sem systurnar settu upp á lokasýningunni við frumsamda raftónlist

 

,,Skapandi Sumarstörf í Garðabæ samanstanda af nokkrum sjálfstæðum verkefnum. Listamennirnir sem standa að þeim hittast svo allir einu sinni í viku og funda um verkefnin sín.

Þetta gengur bæði út á að hjálpa okkur að vinna verkefnin okkar, og líka að lífga upp á Garðabæ og auka listsköpun þar,” en bæjarfélagið borgar þátttakendum í Skapandi Sumarstörfum laun fyrir vinnuna.

Listamennirnir gera allskonar yfir sumarið, en meðal annars fá þeir að sýna eða vera með atriði á Jónsmessugleði Grósku, og að sjálfsögðu á sameiginlegri lokasýningu sem var haldin síðastliðinn fimmtudag, 26. júlí. Fyrir utan það verður hver og einn einstaklingur eða hver og einn hópur að halda eina sýningu upp á eigin spýtur.

IMG_0482.JPG

,,Við tókum lokafund fyrir stuttu og vorum að tala um hvað hefði getað farið betur í sumar. Skapandi sumarstörf í Garðabæ er að mörgu leyti tilraunstarf; þetta er ekki eins rótgróið verkefni og til dæmis listhóparnir í Hinu Húsinu sem hafa verið starfandi ótrúlega ótrúlega lengi.

Fyrir vikið er meira frelsi til að prófa sig áfram í listhópum Hins Hússins.”

Á þessum fundi var meðal annars rætt um að auglýsa verkefnið betur, vera með fleiri sýningar og verkefni yfir sumarið og hvetja fleiri hópa til að sækja um til að vinna að verkefnum í sameiningu.

Hinsvegar segir Salóme að hún myndi svo sannarlega mæla með að sækja um fyrir næsta sumar. ,,Þetta er mjög lærdómsríkt og þroskandi fyrir mann sem listamann og hvet alla þá sem eru að leita að sem fjölbreyttustu verkefnunum að prufa að sækja um.

Það eru alltaf að berast fleiri umsóknir hvert ár. Eina sem þarf er að vera með lögheimili í Garðabæ. Ég get alveg klárlega mælt með þessu.”

Myndir við textabrot eftir Nönnu Katrínu Hannesdóttur

Listamennirnir sem unnu í Skapandi sumarstörfum Garðabæjar í ár voru þau Anna Maggý Grímsdóttir, Arngrímur Bragi Steinarsson, Jón Egill Hafsteinsson, Ásta Gígja Elfarsdóttir, Dögg Gísladóttir, Emma Kristina Harrera, Júlía Kolbrún Sigurðardóttir, Helgi Þorleiksson, Hildur Lára Sveinsdóttir, Nanna Katrín Hannesdóttir, Ragnar Blær Þorgeirsson, Salóme Sól Norðkvist, Alexandra Rós Norðkvist og Stefán Gunnlaugur Jónsson.

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Vinsælast

Aðrar fréttir 

Sólrún Sen