,,Okkar kjósendur eiga rétt á að við stöndum okkur"

30582241_10160295879045092_5656256811100012544_n.jpg

Ég gekk til liðs við Pírata vegna þess að þau blása mér von í brjóst um betra samfélag. Píratar eru ungur flokkur, breiðfylking ungs fólks sem treystir ungu fólki til góðra verka. Ég er lifandi dæmi, oddviti flokksins í Reykjavík og ekki orðin þrítug. Ég flutti heim til Íslands eftir sjö ára veru erlendis til að taka þátt í Pírötum og því verkefni flokksins að búa til gott samfélag fyrir okkur öll.

Það fylgir því að hafa búið erlendis að maður fær aðra sýn á Ísland. Úti fór ég að sjá merki óheilbrigðs samfélags. Ekki þannig að allt hér sé ómögulegt. Ísland er gott samfélag. Hins vegar er það áhyggjuefni hvað spilling er rótgróin hér á landi.

Ég ætla að leyfa mér að segja að spilling sé einfaldlega landlæg plága og við séum í einskonar afneitun á alvarleika málsins. Margir virðast trúa því að spilling sé eitthvað útlenskt og geti ekki átt sér stað á Íslandi.

Píratar hafa sýnt að baráttan gegn spillingu er ekki einhver fagurgali. Við meinum það þegar við tölum um að við ætlum að sýna aðhald. Við höfum líka sýnt að við sýnum ekki bara öðrum aðhald heldur líka okkur sjálfum.

Á Alþingi eru það þingmenn Pírata sem hafa aftur og aftur staðið með almenningi í virkilega ljótum málum.

Ég get nefnt uppreist æru málið þar sem Þórhildur Sunna er enn á fullu. Aksturspeningahneykslið er afhjúpað vegna dugnaðar Björns Leví við að senda inn fyrirspurn eftir fyrirspurn til að draga þessar upplýsingar fram í dagsljósið með töngum. Þar kemur í ljós að sumir þingmenn hafa einfaldlega notað þetta kerfi til að hækka laun sín. Halldór Auðar, fulltrúi Pírata í borgarstjórn, hefur sótt upplýsingar um Brynjumálið þar sem fólk var snuðað um réttindi sín af borginni. Þetta gerum við þrátt fyrir að vera í meirihluta. Krafa Pírata í því máli er að þetta verði leiðrétt. Píratar í Reykjavík gerðu líka kröfu um greiningu og úttekt á misferlisáhættu og þar af leiðandi spillingarhvötum í borgarkerfinu.

Þetta sýnir að við erum ekkert að gefa eftir í kröfum um stjórnmálasiðferði þótt við séum við stjórn.

Í Pírötum er mikið af ungu fólki sem margt hvert hefur búið erlendis og lifað í nútímalegum borgarsamfélögum. Við viljum taka fleiri skref í átt að því að breyta Reykjavík í slíkt samfélag. Þetta gerum við með þéttingu byggðar og styrkingu almenningssamgangna. Ungt fólk í dag hefur ekki endilega áhuga á að eiga bíl og það er nauðsynlegt að hér hafi fólk val.

Það er frelsismál. Ég satt að segja skil ekki fólk sem telur sig boðbera frelsis samhliða því að heimta einfaldlega að Reykjavík sé borg þar sem allir verða að eiga bíl. Í dag neyðist ungt fólk til að vinna gríðarlega mikið meðfram skóla til þess að reka bíl. Meira en jafnaldrar í nágrannalöndum samkvæmt Eurostudent-könnuninni sem rannsakar 28 lönd. Þetta kemur niður á námi. Samfélagið er að breytast og til að vera reiðubúin þurfum við menntað fólk. En við þurfum líka að meta menntun að verðleikum.

Menntun snýst um að gera einstaklinga að virkum og gagnrýnum lýðræðisþegnum og til að svo megi verða þarf að hætta að leggja áherslu á utanbókarlærdóm. Það þarf að virkja hæfileika hvers og eins. Við Píratar erum satt að segja þreytt á hugmyndum um að hæfileikar séu bara eitthvað eitt.

Við viljum að allir fái að vera með. Píratar sem hreyfing leggja alla áherslu á að allir geti tekið þátt hvort sem það er í flokknum, samfélaginu eða hverju sem fólk vill.

Til að menntakerfið geti ýtt undir sjálfstæða og gagnrýna hugsun þá verða kennarar á öllum stigum að fá almennilega borgað. Það á líka við um ófaglært starfsfólk leikskóla og skólakerfisins alls. Við getum ekki boðið fólki upp á að strita alla daga en búa við fátækt og skort á tækifærum. Ég held ef fólk spyr sjálft sig hvernig samfélag það vill þá sé svarið ávallt á þá leið að samfélagið eigi að virka vel fyrir alla.

Við viljum að fólk hafi það gott. Þegar kemur að aðgerðum til að láta þá sýn raungerast þá vantar hins vegar upp á. Þá finnst sumum það alltof dýrt. Það er miður. Mér hefur alltaf þótt það fáránleg hugmynd að ætla kennurum að búa börn undir lífið á lúsarlaunum. Ef grunnþörfum einstaklings er ekki fullnægt á hann erfitt með að taka virkan þátt í lýðræðinu, hvað þá kenna öðrum að gera það.

Píratar valdefla almenning og þannig metum við árangur. Okkar kjósendur eiga rétt á að við stöndum okkur. Það er enginn sigur fyrir okkar kjósendur að við komumst til valda en gerum ekki það sem við segjumst ætla að gera. Þess vegna viljum við hleypa borgarbúum að ákvarðanatöku og virkja þátttökulýðræðið t.d. með Betri Reykjavík og Hverfið mitt en auðvitað með auknu samráði við almenning.

Hagsmunasamtök fatlaðs fólks og ungmennafélaga hafa til að mynda kvartað undan því að það vanti meira samráð til að nýta peninga betur. Oft fá hópar að segja sína hlið án þess að það breyti nokkru enda kannski ekkert verið að hlusta í alvörunni. Við viljum vera hreyfing sem hlustar.

Píratar treysta ungu fólki til að taka upplýsta ákvörðun. Þess vegna viljum við lækka kosningaaldur niður í 16 ár. Þjóðin er að eldast og það gerir það að verkum að í dag kýs eldra fólk um framtíð sem unga fólkið á að bera uppi. Það er bara eðlilegt að taka inn sjónarmið yngri kynslóðanna og að þau fái atkvæði. Það gleymist líka í umræðunni um þessi mál að við treystum unglingum svo sannarlega til að greiða skatt og vinna. Hvers vegna ættu þau ekki að fá að kjósa?

Lækka verður líka húsnæðisverð svo að ungt fólk geti flutt að heiman. Það er alveg ótrúlegt að hér sé talað um stöðugleika og góðæri samhliða því að yngstu kynslóðirnar eru staðnaðar í launum, vinna gríðarlega með námi og komast ekki að heiman. Slíkt tal er firring í hæstu hæðum.

Eitt af mikilvægari málefnum okkar samfélags eru geðheilbrigðismálin og ungt fólk er sérstaklega mikilvægur hópur hvað þetta varðar enda toppar hann tölfræði um ýmsa geðræna kvilla. Þetta er líka fólk sem er að hefja lífið og það er hreinlega beinn sparnaður í því að hjálpa þessum hópi í gegnum erfiða tíma, þó að ástæðan væri ekki önnur. Aukin meðvitund um þessi mál lofar góðu, en enn er rándýrt að fá sálfræðiaðstoð. Hver hefur efni á að greiða 13.000 krónur fyrir stakan tíma hjá sálfræðingi? Píratar vilja aðgengilega sálfræðiþjónustu í skólana og gera þessa þjónustu að hluta af almannatryggingakerfinu.

Mundu að kjósa! Það skiptir máli og auðvitað vona ég að sem flest ungt fólk treysti okkur Pírötum fyrir því sem á þeim brennur.

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen