Ríki fyrir ríka

30180107_10156296195114583_1355642914_n.jpg

Alex Þór Brynhildarson skrifar:

Við búum við þær aðstæður hér á landi að margir hagsmunaverðir sitja á þingi. Margir keppast við að geðjast frændum og frænkum sínum. Hvort sem það frændfólk er í fiski, landbúnaði, hlutabréfabraski eða einhverju öðru. Hvenær ætla stjórnvöld að taka sig til og hætta þessari sérhagsmunagæslu? Eða betri spurning, hvenær ætlum við sem almenningur að taka afstöðu og kjósa ekki yfir okkur sama rótgróna liðið sem stundar þetta eins og íþrótt? Alþingi er sá staður þar sem starfsmannavelta er heilbrigt fyrirbæri og ætti að vera eðlileg þróun.

Þegar þú ferð út í búð og kaupir lambalæri ert þú í raun búinn að borga alveg helling fyrir það. Þú borgar fyrir það að útlendingar fái það á lægra verði heima hjá sér, þú borgar fyrir styrkina sem fara til bænda og svo loks þegar þú ætlar að kaupa það, borgar þú himinháa upphæð með virðisaukaskatt. Þetta skal sko bragðast eins og lambalærið sé gjöf frá Óðin í Ásgarði ef það er ætlast til að þú pungir út svona miklu fyrir það.

Ef þú ætlar svo að vogast til að vera öryrki eða ellilífeyrisþegi í þessu landi skaltu ekki dirfast að taka til hendi og næla þér í smá auka pening með vinnu. Því að þessir hópar lifa við þá furðulegu staðreynd að bætur þeirra eru skertar ef þeir vinna of mikið. Raunveruleikinn er semsagt sá að fólk sem vill og getur unnið er sterklega hvatt til þess að gera það ekki. Við erum kominn út í það að ég veit ekki einu sinni hverra hagsmuna er verið að gæta í því máli, allavega ekki öryrkja og ellilífeyrisþega.

Ég vil sjá stjórnvöld setja hag almennings í forgrunn eða bara hætta þessu öllu saman og leyfa okkur að standa á eigin fótum. Ástandið sem við lifum við í dag er allavega ekki viðunandi og krefst breytinga eins fljótt og unnt er.

Breytingar koma hinsvegar ekki af sjálfu sér, við sem almenningur verðum að taka á vandanum. Það sitja 63 þingmenn á Alþingi Íslands en það eru 337.205 einstaklingar á þessari eyju sem við köllum heimili okkar. Í krafti fjöldans er hægt að ná fram breytingum, það hlýtur bara að vera. Ég neita að trúa því að í lýðræðis samfélagi geti 63 fínt klæddir hagsmunaverðir gert lítið úr okkur með þessum hætti. Það hefur fyrir löngu orðið vakning í samfélaginu okkar, fólk veit þetta alveg og það er duglegt við það að lemja hnefanum í stofuborðið heima hjá sér og benda á hvað þetta sé sko fáránlegt.

Ég segi að það sé tími til kominn að við látum í okkur heyra, nú eru sveitarstjórnakosningar að renna í garð. Ég hvet því alla til að krefjast svara, þrýsta á stjórnmálafólkið. Fara fram á alvöru kröfur, sem eru ekki bara eðlilegar heldur nauðsynlegar. Ekki gefa neitt eftir og ekki skilja ákafann eftir við stofuborðið. Munum samt líka að við erum öll fólk, sannfæringarkraftur fylgir virðingu og samkennd.

Guð blessi Ísland.

 

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen