Breytt sýn á fíkniefnaheiminn

Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir, ljósmynd tekin á setti Lof mér að falla

Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir, ljósmynd tekin á setti Lof mér að falla

Nú eru eflaust margir búnir að sjá Lof mér að falla í bíó, eða allavega vita um hvað myndin fjallar. Myndin er byggð á sögum stúlkna í neyslu, þar á meðal dagbókarfærslum Kristínu Gerðar sem svipti sig lífi árið 2001, aðeins 31 árs gömul. Hún hafði þá verið edrú í sex ár, en var áður í mikilli neyslu og stundaði vændi.

Eflaust hefur eitthvað varðandi umræðu um fíkniefnaheiminn og úrræði fyrir fólk með fíknisjúkdóm farið batnandi, en umfjöllun í ár um lyfjamisnotkun ungmenna og hættur fíkniefnaheimsins hefur verið áberandi.

Elín Sif Halldórsdóttir fer með hlutverk hinnar 15 ára gömlu Magneu sem kynnist hinni 18 ára gömlu Stellu. Stella er leikin af Eyrúnu Björk Jakobsdóttur. Saman leiðast þær út í heim fíkniefna með alvarlegum afleiðingum.

VANDAMÁLIÐ ER LOKSINS AÐ KOMAST Í TAL

Aðspurð hvort aukin umræða um fíkniefni gæti hafa haft áhrif á góðar viðtökur við Lof mér að falla segir Elín að það hafi eflaust vegið þungt. ,,Baldvin byrjaði að skrifa handritið 2011, en málefnið á mun betur við núna þegar myndin er að koma út. Nú þegar fjöldi fólks er búinn að deyja úr ofneyslu á árinu þá er þetta vandamál loksins að komast í tal.”

Elín og Eyrún segja báðar að vinnan að myndinni hafi breytt afstöðu þeirra til fíkniefnaheimsins. Eyrún segir að hún hafi ekki þekkt sögu Kristínar Gerðar áður en hún byrjaði að leika í myndinni, ,,en auðvitað veit maður hvað er í gangi á þessu landi. Síðan ég fékk hlutverkið í myndinni fyrir tveimur árum þá finnst manni fíkniefnaneysla hafa aukist rosalega síðan þá. Maður er farinn að taka meira eftir henni.”

VENJULEGT FÓLK AF VENJULEGUM HEIMILUM

,,Áður en ég byrjaði að leika í myndinni þá hafði maður mikla fordóma fyrir þessum fíkniefnaheimi, maður er hálf hræddur við hann og er oft með fordóma gagnvart því sem maður þekkir ekki og er smeykur við. En eftir að hafa talað við fólk sem hefur lifað og hrærst í þessum veruleika þá rann upp fyrir mér að það hefði alveg eins getað verið ég sem lenti í neyslu. Þetta er bara venjulegt fólk sem kemur af venjulegum heimilum.

Á meðan það er auðvitað misjafnt hvaðan fólk kemur, hvar sem það lendir, þá er svo rosalega mikið af krökkum sem koma af góðum heimilum og hafa það bara fínt, sem leiðast samt út í neyslu.”

Elín segir að áður en hún byrjaði að leika í myndinni hafi hún vitað lítið um þennan heim og sjaldan heyrt fólk tala um hann. ,,Ég hafði einhvernveginn ekki hugmynd um hvað væri að gerast.”

HEIMUR FÍKNIEFNA KEMUR LEYNIST Í HVERJU HORNI

“Ég var ekki beint í afneitun um hvað væri að gerast, það var bara enginn að tala um það. Eina sem maður sá voru tilkynningar um krakka sem voru týndir, en það var eiginlega bara djókað með það. Eða þá liðið í adidasfötum í skólanum…” en Elín vísar í gamla staðalímynd dópistans sem gengur um í flöskugrænum adidasgalla og reykir hass úr beyglu. Elín vill meina að þessi heimur sé ekki aðskilinn okkur og fjarri eins og margir kunna að halda.

Hann er falinn í hornum og skuggum daglega lífs hins ,,venjulega” fólks.

,,Maður þekkir alltaf einhvern sem er í neyslu. Þetta er svo nálægt manni. Eftir að Lof mér að falla var frumsýnd hefur mikið af fólki komið til mín og sagt mér frá kunningjum, nánum vinum og ættingjum sem hafa verið eða eru í neyslu. Fíkniefnaneysla er eitthvað sem snertir svo ótrúlega marga. Það kom á óvart því þetta er ekki eitthvað sem fólk talar um.”

Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Elín Sif Hallldórsdóttir að undirbúa fyrir tökur

Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Elín Sif Hallldórsdóttir að undirbúa fyrir tökur

Eyrún og Elín segja báðar að samstarf allra sem komu að gerð Lof mér að falla hafi gengið eins og í sögu, þetta hafi verið besti hópur sem völ var á. ,,Ferlið hefur verið skemmtilegt og lærdómsríkt, en ótrúlega erfitt á sama tíma” segir Eyrún. ,,Þetta er virkilega krefjandi hlutverk, svo er þetta fyrsti leikur minn þannig ég hafði enga reynslu af svona verkefni.

En það var ótrúlega vel haldið utan um mann. Maður var aldrei týndur og fékk alltaf þá hjálp sem maður þurfti. Ef eitthvað kom upp á í framleiðslunni var okkur hlíft svo vandræðin myndu ekki hafa áhrif á okkar leik.”

Eva Vala Guðjónsdóttir búningahönnuður og Kristín Kristjánsdóttiir ,,sminka“ fá sérstakt hrós, sem voru að sögn Eyrúnar ,,eins og mömmur okkar Elínar á settinu”.

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen