Fyrsta forvarnaverkefnið í baráttunni #egabaraeittlif

36315603_274162716656329_6334375273181478912_n (1).jpg

Eftir skyndilegt fráfall Einars Darra, ungs manns í blóma lífsins, hefur heimurinn hjá þeim sem þekktu hann verið settur á hlið. Andlát hans var skelfileg áminning um hræðilega raunveruleikann sem ákveðin lyfseðilsskyld lyf hafa skapað. Ungmennin okkar sem eru í virkri neyslu, sem og þau sem eru að fikta við misnotkun lyfja, virðast vera í stöðugri lífshættu. Það er bara ,,happa-glappa" hver lifir og hver ekki. Línan  milli lífs og dauða hefur sjaldan verið jafn óskýr og engin leið að vita hvenær og hver dregur stutta stráið.

Fjölskylda og vinir Einars Darra hafa stofnað minningarsjóð í hans nafni sem  ætlaður er fyrir ungmenni í fíknivanda.

Ákveðið hefur verið af forsvarsmönnum minningarsjóðsins að byrja á því að einblína á forvarnir og varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfjum er hér á landi, þá sérstaklega á meðal ungmenna allt niður  í grunnskóla. Vegna fjölgunar lyfjatendra dauðsfalla eru áhyggjur af slíkum vanda viðlogandi í íslensku samfélagi og virðist sem um sé að ræða nokkurskonar tískufyrirbrigði og breytt neyslumynstur meðal ungmenna.

Læknar, lögreglumenn, starfsmenn bráðamóttöku, starfsmenn Landlæknisembættisins, starfsmenn útfarastofa, sjúkraflutningamenn, starfsmenn SÁÁ og aðrir sem rætt hefur verið við og þekkja til málsins hafa tekið undir að það sé áhyggjuefni.

36288559_274162693322998_1502440617395879936_n.jpg

Algengt er að almenningur, þá sér í lagi ungmenni, geri sér ekki grein fyrir því hversu skaðleg, ávanabindandi og lífshættuleg slík lyf séu og hversu algeng misnotkun á þeim er hér á landi. Minningarsjóður Einars Darra, stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.

Markmið baráttunnar #egabaraeittlif eru að:

  • Sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja

  • Opna umræðuna um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hér á landi

  • Auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfseðilsskyldra lyfja

  • Opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum

Til að ná fram ofangreindum markmiðum verður unnið í ýmsum verkefnum sem nú þegar er byrjað að vinna að. Verkefnin eru skipulögð af skipulagshóp sem hefur að geyma meðlimi frá ýmsum starfstéttum í samfélaginu, er breiður aldurshópur en á það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða. Öll verkefnin eru og verða unnin með fagmennsku og kærleika í fyrirrúmi. Að auki  hefur sjóðnum borist verulegur stuðningur og aðstoð úr öllum áttum úr samfélaginu frá gríðarmörgum einstaklingum sem vilja leggja verkefnunum lið. Þar á meðal eru stórfjölskylda Einars Darra, vinir, þekktir einstaklingar, fyrirtæki og ýmiskonar félög.

Mynd úr einkasafni

Mynd úr einkasafni

Fyrsta verkefnið sem sett verður á laggirnar er forvarnarverkefni sem felur í sér dreifingu á armböndum sem letrað er á: Ég á bara eitt líf. Við eigum öll bara eitt líf og í veruleika þar sem ein tafla getur svipt þig lífi þá er einstaklega mikilvægt að allir minni sig á, að hver ákvörðun geti skipt sköpum. Armböndin eru ætluð til að fá fólk, sér í lagi ungmenni til að horfa á armbandið og fá þau til að hugsa sig tvisvar um áður en þau misnota lyf eða önnur fíkniefni.

Armböndunum verður dreift til einstaklinga að kostnaðarlausu og verður að öllu leiti kostað af minningarsjóði Einars Darra. Byrjað verður á því að dreifa þeim á Írskum dögum á Akranesi sem var nágrannabær Einars Darra þar sem hann gekk í skóla og átti fjölmarga vini. Vonast er til þess að slíkt verði hægt að gera með svipuðum hætti á öðrum útihátíðum í sumar.

Stöndum saman og styðjum baráttuna #egabaraeittlif. ÁFRAM VIÐ!!

Minningarsjóður Einars Darra

Reikningsnúmer: 0354-13-200240                                                                     Kennitala: 160370-5999

Skipulagshópur: Andrea Ýr Arnarsdóttir, Aníta Rún Óskarsdóttir, Bára Tómasdóttir, Óskar Vídalín Kristjánsson, Sigrún Bára Gautadóttir, Kristján Hölluson, Hrönn Stefánsdóttir Elín Matthildur Andrésdóttir, Sandra Björk Jóhannsdóttir, Sólrún Freyja Sen, Ingveldur Halla Kristjánsdóttir, Bjarki Aron Sigurðsson, Aron Már Stefánsson, Helga Vala Helgadóttir, Hrefna Hugosdóttir, Helgi Pétur Ottesen og Matthías Hálfdánarsson.

Forsvarsmenn Minningarsjóðs Einars Darra: Andrea Ýr Arnarsdóttir (Formaður), Auðbjörg Friðgeirsdóttir (Innri endurskoðandi og ritari), Aníta Rún Óskarsdóttir (Stjórn), Bára Tómasdóttir (Stjórn), Óskar Vídalín Kristjánsson (Stjórn).

 

Andrea Ýr Arnarsdóttir og Kristján Ernir Björgvinsson skrifuðu

 

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen