Nornir, smásaga eftir Ísak Regal

Nornir

Mynd: Lúkas Regal

Mynd: Lúkas Regal

Þetta byrjaði allt fyrir þremur mánuðum eða svo. Ég var nýbyrjaður að vinna á Hjálparsíma Rauða krossins og var svolítið stressaður í fyrstu, eins og maður á það til að vera þegar maður byrjar í nýrri vinnu. Það er svo mikið af tilgangslausum atriðum sem maður þarf að læra. Ég ímynda mér að tilfinningin sé svipuð því og að þjást af minnisleysi; sama hversu mikið af upplýsingum maður safnar yfir daginn þá mun maður alltaf þurfa að byrja upp á nýtt daginn eftir.

En það var ekki málið. Ég þurfti á peningum að halda. Ég var líka orðinn svolítið ruglaður á því að sitja einn inni í herberginu mínu alla daga að horfa á klám og fikta við sjálfan mig. Ég hafði engan til að hitta, og engan til að tala við. Ég hef aldrei verið góður í að tala í síma, en það hjálpaði að vita hvað maður ætti að segja, og það var ekki eins ég myndi vera að tala við einhvern sem ég þekkti, sem betur fer. Í rauninni var maður ekki að tala við neinn yfirhöfuð, bara hlusta. Hlusta á fjarlægar raddir tala í áttina til manns, ekki við mann, heldur til manns. Ég vann á næturnar frá miðnætti til 7:30 á morgnana.

Fyrstu vaktina mína útskýrði nýi yfirmaðurinn minn fyrir mér hvar ég ætti að sitja og fór yfir gátlista með mér með umræðupunktum og innskotum sem hægt væri að grípa til ef samræður gengu erfiðlega. Hún var kona um fimmtugt með vörtu á vinstri kinn, og sogin brjóst sem voru aðeins of sýnileg fyrir minn smekk. Ég get ekki lýst því hversu óaðlaðandi þessi sjón var, og í hvert sinn sem hún blasti við mér, leit ég undan. Þetta var eins og að reyna að horfa ekki í sólina um hásumar, þótt þú gerðir þitt besta til að forðast hana, þá vissiru samt af henni. Konur eins og hún eiga sér engar vonir í lífinu og þess vegna eru þær bitrar út í heiminn og láta það bitna á öllu í kringum sig.

,,Skilurðu þetta Sindri?“

,,Já, Inga.“

,,Gott. Það getur nefnilega tekið tíma fyrir fólk af þinni kynslóð að átta sig á hlutunum.“ sagði hún og brosti háðslega.

,,Bitch.“ hugsaði ég og brosti á móti.

Eftir að hún yfirgaf herbergið byrjaði síminn að hringja. Flestir sem hringdu voru með kunnuleg vandamál; þeim leið illa í skóla eða vinnu, plumuðu sig ekki í lífinu, og fannst eins og enginn þekkti sig almennilega og að allt væri ruglingslegt og erfitt. En þetta fólk vildi ekki vinna í sínum vandamálum, það var nóg að vita af þeim, og áætlanir þeirra gengu af einhverjum ástæðum aldrei upp; það lét truflast af einhverju öðru, smávægilegum hlutum sem skiptu, þegar uppi stóð, engu máli. Þau hljómuðu flest ráðalaus og örvæntingarfull og engan veginn fær um að öðlast stjórn á eigin tilfinningum.

Yfirleitt sagði ég bara það sem stóð á gátlistanum, frasa eins og; áttu ekki einhvern sem þú getur talað við? (augljóslega ekki þar sem þau voru að hringja í mig!) Hvar vinnuru? Hvað finnst þér gaman að gera í þínum frístundum? Hvað viltu gera í framtíðinni? Og að lokum einhverjar hughreystingar; þú ert ekki gagnslaus, þú ert ekki ein/n, fólki er annt um þig o.s.frv. Lygar sem fólk var búið að gleyma að segja sjálfu sér og hljómuðu því ferskar þegar ég endurtók þær. Þannig liðu fyrstu vikurnar án mikilla vandræða. Launin voru sæmileg en ekki árangursbundin einfaldlega vegna þess að það var ómögulegt að meta árangurinn. Við sem unnum þarna seldum fólki hugmyndir um lífið í stað áþreifanlegrar vöru, og þar sem það er nánast ómögulegt að rekja slóðir hugmynda, þá var því alfarið sleppt. Starfið var ekki nógu mikilvægt hvort eð var. Um miðja fjórðu vikuna klukkan rúmlega tvö að nóttu til, hringdi síminn. Ljúf kvenmannsrödd ómaði á hinum endanum.

,,Halló?“

,,Sæl.“

,,Hver er þetta?“

,,Ég vinn á Hjálparsíma Rauða krossins.“

,,Ég veit það beib, en hvað heitiru?“

,,Okkur er ekki heimilt að gefa upp nöfnin okkar.“

,,Geturu ekki bara búið eitt til fyrir mig?“

,,Öööhmm … “

,,Hmm ... Hvað með Valíant? Hvernig líst þér á það? Ég ætla að láta þig heita Valíant af því að þú ert hugrakkur og sexý.“

,,Ég er ekki viss um að ég viti hvað þú viljir.“

,,Ég vil þig, Valíant. Ég vil fá þig upp í rúmið mitt og ég vil fá þig inn í mig.“

,,Þú vilt hvað?“

,,Ég vil að þú bindir mig niður og ríðir mér.“

,,Þetta er ekki símakynlífs þjónusta.“

,,Það er það sem þú hélst, en núna ertu ekki svo viss, er það nokkuð?“

Þögn. Spennuþrungnasta þögn vikunnar hingað til. Röddin hennar var rödd sem erfitt er að lýsa, rödd sem aðeins getur heyrst í fantasíum kynóðustu manna. Rjúf en eitursæt.

,,Farðu úr buxunum.“

,,Bíddu … “

,,Hnepptu frá buxunum … “

,,Hringdu aftur á morgun klukkan nákvæmlega 3:35, ókei?“

,,Ókei sæti.“

Í sömu andrá og hún skellti á gekk Gummi samstarfsfélagi minn inn í vinnuherbergið með blað undir handleggnum.

,,Sæll,“ náði ég að kreista út úr mér þegar hann leit á mig.

Hún hafði hringt einmitt þegar Gummi var á klósettinu. Gummi vann við hliðina á mér allar nætur og sinnti sama starfi og ég. Við fengum eina hálftíma matarpásu á mann. Mín var frá klukkan 4:00-4:30. Pásan hans byrjaði klukkan 3:30.

II

Það var erfitt að hlusta á fólk tala og líta vandamálum þeirra alvarlegum augum. Ég gat ekki hugsað um annað en símtalið sem myndi berast mér klukkan 3:35. Þessi stelpa var ótrúleg. Ég velti fyrir mér hvers vegna ég hafði orðið fyrir þeirri heppni að sogast inn í tælingarleikinn hennar? Ætli hún hefði reynt að tæla Gumma hefði hún fengið hann á línuna? Það var erfitt að ímynda sér það. Hann virkaði svo glórulaus og saklaus eitthvað. Hann hefði líklegast migið á sig við það eitt að heyra í henni röddina. Klukkan var 3:27. Gummi var að babbla eitthvað á hinum endanum. Ég sver það að ég ríf tólið af honum ef hann er ekki farinn í mat klukkan hálf. Ég ætlaði mér ekki að missa af þessu tækifæri, og það var ekki séns að ég myndi tala við hana með hann í sama herbergi. Hann var ennþá að tala í símann. Ég var svo niðursokkinn í eigin hugsanir að ég heyrði ekki orð af því sem hann sagði. Líklegast eitthvað hjal um mikilvægt gildi lífsins. Varirnar hans hreyfðust löturhægt, eins og heimurinn hefði hægt á sér um stund. Ég hugsaði að ef svo væri þá valdi heimurinn rangan tíma fyrir það. 3:29. Það hafði enginn hringt á línuna mína í svolítinn tíma. Mér varð heitt á enninu og svitadropar mynduðust upp í hársrótunum á mér og láku niður augabrúnirnar og alla leið niður í augu. Ég var orðinn sveittur í lófunum og nuddaði þeim ákaft í gallabuxurnar mínar. Kommon Gummi ...

,,Jæja,“ sagði hann loksins og lagði á. ,,Ég ætla  að koma mér í mat.“

,,Já-á. Við sjáumst!“ sagði ég

Hann stóð upp, tók jakkann sinn af stólbakinu og gekk út um dyrnar. Um leið og hann hvarf út úr herberginu ómaði allt af þögn. Hún mundi hringja eftir smá. Ég fann það á mér. Það var tiltölulega dimmt inni á vinnustofunni, eins og það væri ekki aðeins nótt úti heldur inni líka. En það barst birta frá litlu ljósi innan í líkamanum á mér. Það var eina birtan í herberginu, þetta litla ljós. Síminn hringdi.

,,Hæ.“

,,Halló beibí, ertu einn?“

,,Já, vinnufélagi minn var að fara í mat.“

Stundarþögn.

,,Viltu fara úr buxunum fyrir mig? Viltu gera það, Valíant? Fyrir mig?“

,Já.“

Ég get ekki greint frá öllu því sem að fram fór á meðan á þessu símtali stóð. Bara að það var heitt. Mér hefur sjaldan verið jafn heitt. Hún stundi eins og dýr, eins og hljómur trjánna; Hún var skógardís. Ég var skógarhöggsmaður, fiskimaður, allir menn sem höfðu nokkurn tíma lifað og dáið. Við stundum og rigndum líkamsvessum okkar sem að fylltu herbergið, kannski alla borgina. Ég gat séð fyrir mér munninn hennar, eyrun hennar, glansandi varirnar og svört augun og hárið sveiflandi út í allar áttir. Eftir að því var lokið skellti ég á og talaði við allt sama venjulega fólkið með sín sömu venjulegu og ómerkilegu vandamál það sem eftir lifði næturnar, allan tímann með klístraða fingurna límda við símtólið. Mér var alveg sama. Ég fann ljómann innan í líkamanum á mér og skyndilega virtist nóttin aðeins bjartari en áður. Gummi tók auðvitað ekki eftir neinu. Hann tók aldrei eftir neinu.

Svona gekk þetta næstu tvær vikurnar. Hún hringdi á hverri nóttu á slaginu 3:35. Hún var mjög stundvís. Og eftir hvert skipti þá tók ég minna og minna eftir hverju orði sem fólk sagði við mig í símann. Það var nánast eins og sálin mín væri ekki í líkamanum lengur. Hvert skipti með henni dró hana meira og meira út úr líkamanum. Gummi virtist óraunverulegur. Ekki manneskja, heldur hlutur inni í herberginu, samhliða öðrum hlutum eins og stólunum, tölvunum, símunum og daufbirtu flúrljósunum. Það var ekki beint verið að tala við okkur í símann, það var bara verið að tala. Fólk blaðraði eitthvað út í loftið og síðan var eitthvað sagt á móti. Það skipti engu máli hvað, svo lengi sem að einhver hljóð brutust út úr þögninni.

Rúmlega tveimur vikum eftir fyrsta símtalið okkar, sagði Lovísa (það var nafnið hennar eins og ég komst að síðar) að hún vildi hitta mig í persónu. Hún sagðist vilja sjá hvort ég liti út eins og hún hefði ímyndað sér í draumunum sínum. Ég gat ekki gefið henni svar einmitt þá. Ég þurfti að hugsa mig aðeins um, og virkilega átta mig á því hvað í ósköpunum var eiginlega í gangi hérna. Degi seinna þáði ég boðið. Það sem er gott við að vera einn er að öll vandræði sem maður kann að koma sér í getur maður leyst sjálfur, þ.e.a.s. ef maður er ágætlega skynsöm manneskja. Því fleira fólk sem maður umgengst, því fleiri vandræði munu spretta upp. Lovísa hins vegar, var vandamál sem mér fannst þess virði að kljást við. Ekki nóg með það, heldur vildi hún sjúga á mér typpið, sem var í rauninni ekki orðið neitt vandamál, ennþá. Ef það er eitthvað sem ég kann, hugsaði ég á meðan ég sat á rúmstokknum inni í herberginu mínu og beið eftir næstu vakt, er það að tala án orða.

III

Við mældum okkur mót við gömlu kirkjuna á Laugarvegi. Það var frekar kalt úti þennan dag og sólin nýrisin. Ég hafði ekki séð dagsljósið í margar vikur. Hvaða gagn var svosem að því? Ég var í fínasta jakkanum mínum, í svartri skyrtu og svörtum gallabuxum, með hárið greitt til hliðar. Ég var meira spenntur en stressaður. Það tók mig ekki langan tíma að koma auga á hana. Utan frá virtist hún kannski vera eins og hver önnur stelpa, en það var eitthvað dimmt í augnaráðinu hennar, einhver sársauki; eins og hún sæi drauga í dagsljósinu eða eitthvað. Hún var með sítt, ljóst hár með smá krullur í endana og í þröngum bláum gallabuxum og þröngum bol undir stuttum rauðum leðurjakka. Allt við hana var þröngt. Brjóstin hennar voru stór og áberandi en á milli þeirra hékk hálsmen með svörtum gimsteini í miðjunni. En það sem var mest áberandi við hana voru augun. Glimrandi blá. Þegar þú horfðir í augun á henni var ekki til neitt annað í heiminum. Ég sá ekki einu sinni augabrúnirnar. Bara augun. Spegilslétt. Ég sökk ofan í þau eins og borg sem sekkur ofan í sjó. Hún réði öllu. Hún réði meira að segja himninum sem að við stóðum undir

,,Ætlaru bara að standa þarna og stara á brjóstin á mér eða ætlaru að fylgja mér heim?“ Það voru augun hennar sem töluðu, ekki varirnar

,,Hvar áttu heima?“

,,Laufásvegi.“

Ég heyrði röddina hennar innan í hausnum á mér. Hún barst ekki að utan. Hún var skógardís. Skógar. Dís. Vindur sveipaði laufin á trjánum og feykti hárinu hennar upp í loftið þar sem það lék sér með sínum ljósu lokkum. Hvorugt okkar var á bíl svo við nýttum okkur dagsljósið og löbbuðum, þetta var líka stuttur spölur, ekki nema tíu mínútur eða svo. Þegar við komum að húsinu hennar var aðeins farið að dimma. Dimman fór henni vel. Hún setti lykil í skráargatið og við stigum inn. Húsið sem hún bjó í var eitt af þessum gömlu Reykvísku byggingum sem hafði verið í borginni áður en hún varð borg. Inngangurinn var tómur fyrir utan óhirtan blaðabunka sem lá á gólfinu en nokkra metra framundan var stigi upp á þrjár hæðir. Hún leiddi mig upp stigann í íbúðina á efstu hæð og lokaði hurðinni á eftir okkur. Það var allt skuggalega þögult, ekki aðeins í íbúðinni heldur líka í húsinu. Það var eins og byggingin væri yfirgefin, að okkur tveimur utanskildum.

,,Viltu fá eitthvað að drekka? Ég á líka weed ef þú vilt.“

,,Áttu bjór?“

,,Já.“

Við fórum inn í eldhúsið sem var til hægri við forstofuna. Hún opnaði ísskápshurðina, teygði sig í neðstu hilluna og sótti tvær stórar bjórdósir og setti þær á eldhúsborðið. Síðan náði hún í vodka flösku úr öðrum skáp og hellti í tvö glös. Það var öskubakki á eldhúsborðinu með nokkrum hálfreyktum sígarettum ofan í

,,Jæja Valíant ... Er þetta eins og þú ímyndaðir þér?“

,,Ja … “ sagði ég og leit í kringum mig. ,,Það er aldrei alveg eins og maður ímyndar sér, samt kem ég ekki auga á neitt sem er beinlínis öðruvísi.“

,,Eins og í draumi?“

,,Svolítið eins og í draumi, já.“ sagði ég og drakk vodkað mitt í einum teyg.

Við opnuðum bjórana okkar á sama tíma og brostum feimnislega til hvors annars.

,,Og hvað hefur þig verið að dreyma, Valíant?“ spurði hún.

,,Þig. Mig hefur verið að dreyma þig, Lovísa.“

Ég tók góðan sopa af bjórnum. Hún hellti meira vodka í glasið mitt og kláraði síðan úr sínu. Við sátum þarna við eldhúsborðið í dágóða stund á meðan við kláruðum úr drykkjunum okkar. Ég skalf. Ég skalf af spenningi, af æsingi. Ég skalf af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Hún virtist ekki skjálfa, en ég veit það ekki. Á einhverjum tímapunkti stóðum við upp og gengum inn í svefnherbergið. Hún gekk á undan mér. Rassinn hennar sveigðist til og frá. Ég horfði á hann gera það. Veggirnir í kringum okkur, og hurðin, og allt í þessu húsi var úr viði. Bráðum, hugsaði ég, bráðum.

Um leið og hún opnaði og lokaði svefnherbergishurðinni á eftir okkur sneri ég henni við og þrýsti henni upp við vegg, tók hárið frá hálsinum á henni og beit í hann, fast. Hún stundi. Síðan sneri ég henni að mér og kyssti hana, löngum heitum kossi. Við kysstumst. Það var ekkert meira að segja. Ég fjarlægði fötin hennar og hún fjarlægði mín. Hún var þröng eins og skráargat og rök að innan eins og veggirnir í kringum okkur. Við opnuðum enga glugga. Það voru engir gluggar. Ég opnaði og lokaði henni og hún opnaði og lokaði sér í takt við mig. Hún gat ekki hreyft á sér hendurnar. Ég hélt þeim niðri. Það var enginn heimur utan þessa herbergis. Einu hljóðin í herberginu var tónlistin innan í líkömunum okkar. Samhljóða. Við týndumst og gleymdust inn í hólf. Hólf þar sem aldrei er dagur eða nótt. Við lágum þarna nakin í stutta stund eftirá og horfðum upp í loftið, löðrandi í svita, bæði tvö. Það var ekkert í herberginu nema rúmið sem við lágum á og lítið náttborð, eða kommóða við hennar hlið. Hún opnaði eina skúffu á kommóðunni og dró fram graspoka og fór að rúlla jónu. Hún dró einnig fram vodka flösku og tvö glös. Ég teygði mig í gallabuxurnar mínar sem lágu á gólfinu og tók upp sígarettupakka úr einum vasanum. Síðan náði ég í kveikjara og kveikti mér í einni.

,,Ég vil að þú ríðir mér svona á morgun,“ sagði hún.

,,Ókí dókí,“ sagði ég og andaði frá mér reyk

Hún brosti til mín eitt sekúndubrot og fölnaði síðan. Síðan kveikti hún sér í jónunni sem hún hafði rúllað í einni svipan, tók tvo góða smóka, horfði upp í loftið og rétti mér.

IV

Næstu nótt var allt eins og áður var. Hún hætti að hringja í Hjálparsímann fyrir kynlífsþjónustu þ.e.a.s. nú hringdi hún bara til að segja mér hvar og hvenær við myndum hittast næst. Við hittumst og riðum. Það var enginn tími til þess að segja neitt og e.t.v. engin ástæða til. Við vorum full fær um að tjá okkur án orða. Stundum þegar við riðum meiddi ég hana. Ekkert alvarlega en nóg til þess að hún fyndi fyrir því. Hún fílaði það. Stundum fílaði hún það svo mikið að ég óttaðist um að ég myndi einhvern tímann óvart drepa hana. Ekkert var of mikið fyrir hana. Hún gat þolað allt. Það var eins og hún væri ekki nema hálf mennsk. Eftir daga og nætur af óhugsandi kynlífi stakk hún upp á því að ég myndi ríða henni á meðan hún þættist vera dauð. Það sem hún átti við var, að hún myndi liggja þarna hreyfingarlaus á meðan ég stundaði kynlíf með líkamanum hennar. Ég væri að ljúga ef ég segði að hugmyndin kveikti ekki í mér á sínum tíma, en ég vissi ekki hvert stefndi. Hver vissi hvaðan hún fékk þessar hugmyndir? Hver vissi eitthvað um hana yfirhöfuð? Hún átti enga fjölskyldu, vini, vinkonur, félaga eða neitt af þeirri sort. Maður ætti að fara varlega með að treysta slíku fólki. Allavegana, með tímanum hættum við að hittast niður í bæ. Hún lét mig hafa auka lykil að húsinu hennar og íbúðinni. Ég átti s.s. að brjótast inn, ganga upp stigann að íbúðinni hennar, sparka upp hurðinni að svefnherberginu (eða opna hana með látum) og stunda kynlíf með líflausum líkama hennar. Hún barðist alltaf við að gefa frá sér hljóð. Hún var rosalega góð í því að þykjast dauð. En það sem truflaði mig mest var ekki bara það sem við vorum að gera, heldur helvítis lyktin inni í berberginu. Það var blanda af einhverri súrri ilmvatns- og svitalykt. Og viðurinn þarna inni. Kristur. Mér fannst viðurinn alltaf vera að horfa á okkur. Það sem við vorum að gera. Sérstaklega á mig.

Síðan gerðist eitt svolítið undarlegt. Ég kom seint heim til hennar einn daginn eftir vinnu. Klukkan var ekki orðin átta og ennþá dimmt úti. Hún lá þarna nakin á maganum á rúminu eins og hún var vön og eftir að ég hafði klárað stóð ég upp, klæddi mig í fötin og bjó mig undir að fara. Það var þá sem ég heyrði röddina hennar fyrir aftan mig.

,,Sindriiiii.“

Það fór um mig hrollur.

,,Hvað?“ sagði ég án þess að snúa mér við.

,,Komdu aftur upp í rúúúmmið, beibí.“

,,Ég verð að fara að koma mér.“ Af einhverri ástæðu þorði ég ekki að líta aftur fyrir mig. Ég þorði ekki að líta framan í hana. Ég fékk þessa mynd af henni í kollinn á mér sitjandi á rúminu, brennd og afskræmd í framan með augun hangandi úr augntóftunum.

,,Siiindriiiii … “

,,Hvernig veistu hvað ég heiti?“

,,Þú sagðir mér það.“

,,Nei, ég sagði þér það ekki. Ég má ekki gefa upp nafnið mitt, manstu?“

,,Æjji viltu vera Valíant aftur, beibí?“ sagði hún í hæðnistón.

,,Þú mátt alveg vera Valíant mín vegna.

,,Ég sagði þér aldrei nafnið mitt.“ sagði ég og stóð upp, og án þess að líta aftur fyrir mig gekk ég í áttina að hurðinni, greip fast um húninn og flýtti mér út úr herberginu. Síðan flaug ég niður stigann og út úr húsinu líkt og skrattinn væri á hælunum á mér.

Ég heyrði ekki í henni í tvo sólarhringa eftir þetta. Þetta voru tveir lengstu sólarhringarnir sem ég hafði upplifað eftir að ég kynntist Lovísu. Hún hræddi úr mér líftóruna. Ég veit ekki hvað það var en það var eitthvað rotið við þessa stelpu. Rotið inn að beini og engin leið út. Það voru eftir leifar af manneskju í augunum á henni, en þær leifar voru að fjara út, og þar var líka norn. Norn sem var að vaxa. Norn sem ætlaði sér að hefna sín, ekki aðeins á mér heldur á öllum karlmönnunum á þessari guðsyfirgefnu eyju, og það versta, það versta við þetta allt saman var að enginn vissi það nema ég. Öll karlþjóðin var varnarlaus gegn henni. Ég var jafnvel orðinn hræddur við að fara að sofa á næturnar, óviss um hvernig draumarnir mínir yrðu og hvort hún, eins berdreyminn og hún var, gat ráðið þá. Síðan hringdi hún í mig í vinnuna. Klukkan nákvæmlega 3:35, eins og hún var vön. Ég var einn.

,,Komdu til mín í kvöld.“

,,Ég veit ekki með það, Lovísa“

,,Fyrirgefðu ef ég móðgaði þig síðast. Það var ekki ætlunin.“

,,Ég veit bara ekki hvort að það sé góð hugmynd að við hittumst aftur.“

,,Kom on …“ sagði hún. ,,Ég veit að þú ert graður. Þig langar í mig, ekki satt? Þú ert örugglega að verða harður núna bara við það að heyra í mér röddina.“

,,Ég veit ekki … “

,,Þú mátt ríða mér í rassinn.“

,,Ég kem eftir vinnu.“

Hún skellti á.

V

Hún hafði aldrei leyft mér að ríða sér í rassinn áður. Það var í rauninni það eina sem við áttum eftir í rúminu. Ég átti erfitt með að einbeita mér restina af vaktinni. Mér var orðið svo nákvæmlega sama um þá sem að hringdu að það var ekki einu sinni fyndið. ,,Vandamál segiru?“ myndi ég segja. ,,Mhm. Já, þig langar að fremja sjálfsmorð sem sagt? Ég skil, einmitt mhm. Hm? Já? Jú það gæti verið lausnin, mögulega. En hefuru prófað að tala við einhvern um þetta?“ o.s.frv. o.s.frv.

Ég ákvað að beila snemma. Ég sagði Gumma að ég þyrfti að komast niður á spitala, að það væri neyðartilfelli í fjölskyldunni. Ég hugsaði að í einhverjum veruleika gæti það mögulega verið satt. Klukkan 7:00 var ég kominn út á götu og var arkandi í átt að húsinu hennar. Það var kalt og ferskt loft úti. Örlítill vindur en ekki vottur af bleytu. Húsið var alltaf svo hrörlegt útlítandi og það var aldrei neinn í götunni hennar. Ég gekk alltaf einn heim til hennar og þegar ég kom þangað var ekki sála á ferli. Það voru önnur hús þarna í götunni, en enginn virtist stíga inn né út úr þeim. Ég opnaði hurðina með lyklinum og gekk inn. Dauðaþögn. Síðan gekk ég upp stigann. Það var kalt í stigaganginum, kaldara en venjulega. Hún beið mín. Þegar ég gekk inn um hurðina að íbúðinni hennar heyrðist smávægilegt ískur. Ég var orðinn harður. Það var eitthvað við kuldann sem ýtti mér inn í hlýjuna. Ég klæddi mig úr fötunum á ganginum og lagði þau á stól inni í eldhúsi. Þar næst byrjaði ég aðeins að fitla við sjálfan mig er ég gekk að svefnherberginu og þegar ég opnaði dyrnar sá ég að hún lá þarna nakin á rúminu. Hún var tilbúin fyrir mig. Fyrir mig og engan annan. Ég reið henni eins og ekkert skipti máli. Ég svitnaði, þjáðist, og að lokum, andaði sælu yfir allt herbergið. Ég var algjörlega í mínum eigin heimi. Hún gaf ekki frá sér hljóð á meðan. Lá bara þarna með fallega líkamann sinn utan á sér. Hún var svo góð í að þykjast hreyfingarlaus. Þetta var án efa besta skiptið. Það var örlítið erfitt að koma honum inn fyrst en þegar það tókst þá var ég kominn heim. Guð, hvað hún var falleg! Þegar ég lauk mér af kyssti ég hana á kinnina. Hún var ennþá í ham og hreyfði sig ekki. Ég smeygði mér í buxurnar mínar, sast á rúmstokkinn og byrjaði að klæða mig í sokkana.

,,Hvernig vissiru hvað ég héti?“

Ekkert svar.

,,Þetta er allt í lagi elskan, ég er ekkert reiður eða neitt. Ég meina, þú mátt alveg segja mér það. Sagði Gummi þér það kannski? Hringdiru einhvern tímann í hann? Haha sjitt! Hann myndi ekki þekkja fegurð ef hún biti hann í rassinn.“

,,Beib?“

Enn var ekkert svar.

,,Beib, er allt í lagi með þig?“

Hún var náföl. Mér fannst hún líka vera óvenju köld. Ég tjékkaði púlsinn hennar og fann ekkert lífsmark.

SJITT.

Það fyrsta sem ég gerði var að opna kommóðuna og sá þar tvær tómar pilluflöskur og eina hálftóma vodka flösku. Nei. Það getur ekki verið. Lovísa … ? Hún lá þarna eins og lík. Hún var lík. Hún hafði tekið pillurnar, nakin, sturtað í sig vodkanu og beðið eftir mér. Sjitt, sjitt sjitt sjitt sjitt! Ég lokaði kommóðunni. Ég hugsaði; það var ekkert hægt að gera. Hún var dáin, það lá engin vafi á því og það var ekki möguleiki að útskýra fyrir lögreglunni eða sjúkraliðsmönnunum eða nokkrum lifandi manni hvað við höfðum verið að gera þarna. Sem betur fer notaði ég smokk, og ég gat ekki séð að ég skildi eftir mig nein sýnileg ummerki. Þeir myndu finna tómu pilluboxin og áfengið og komast að einu rökréttu niðurstöðunni. Hún hafði, þegar allt kom til alls, framið sjálfsmorð, ekki satt? Ég tók notaða smokkinn og setti hann í vasann. Síðan klæddi ég mig í skyrtuna í óðagoti og horfði á hana í síðasta skiptið. Lovísa, hver varstu? Ég gekk til hennar og þurrkaði munnvatnið af kinninni á henni. Ég hefði viljað staldrað við, en ég varð að koma mér út.

Ég fór heim og lagðist upp í rúm. Ég var þreyttur eftir vaktina og andlega uppgefinn eftir uppákomuna heima hjá Lovísu. Ég skoðaði alla helstu vefmiðlana en sá ekkert um dauðsfall ungrar konu í Reykjavík. Hún hafði aldrei talað við mig um andlega líðan sína. Ég vissi að það var eitthvað að, það var nokkuð augljóst, en ég hefði aldrei getað spáð fyrir þessu. Hvað sem hrjáði hana var ofar mínum skilningi, kannski ofar skilningi allra manna. Ég ákvað að hugsa ekki um það og reyndi að hvíla mig en uppskar engan svefn og stóð upp af og til og strunsaði fram og aftur um herbergið mitt á milli þess að leggjast aftur upp í rúm. Svona var ég fastur í öngvum mínum alla nóttina og fram á morgun þar til það var kominn tími til að fara aftur í vinnuna. Þegar ég mætti í vinnuna virtist Gummi jafn glórulaus og vanalega. Ætli hún hafi talað við hann og hann sagt henni nafnið mitt? Það var í rauninni eina leiðin sem hún gæti mögulega hafa vitað hvað ég héti. En af hverju hefði hann ekki minnst á það við mig? Eins ótillitssamur og hann var um mannlegar tilfinningar þá var hann mjög reglusamur og hefði ekki verið ánægður ef einhver hefði hringt og spurt eftir mér með nafni. En það var ekki að sjá á honum að neitt slíkt hefði gerst. Ég rétt náði að ljúka vaktinni án þess að segja neitt og leit forviða á hann nánast allan tímann. Ég hugsaði að það væri bara tímaspursmál hvenær ég fengi að heyra eitthvað frá lögreglunni, eða læsi eitthvað um andlát hennar í blöðunum.

En ekkert skeði. Ég mætti á nokkrar vaktir í viðbót áður en ég gafst upp. Ég gat ekki höndlað þetta lengur. Síðan þá hef ég setið heima og hugsað, velt þessu fyrir mér frá öllum mögulegum sjónarhornum. Hún hafði ekki þekkt neinn, og enginn þekkt hana. Nú var ég í sömu sporum.

Ég fór aðeins út til að ná mér í sígarettur og áfengi, verslaði af og til í Bónus. Allir héldu áfram að lifa lífinu eins og ekkert hefði í skorist. Ung kona hafði framið sjálfsmorð og enginn virtist vita af því nema ég. Dagarnir og næturnar liðu og liðu og það var eins og eitthvað væri í gangi en enginn þorði að tala um það. Því það var hrætt. Hrætt við eigin skugga. En ef enginn þorir að minnast á það, hvernig veit maður þá að eitthvað sé í gangi? Það er bara einhver tilfinning. Maður finnur fyrir því. Eins og eitthvað sé að anda ofan í hálsmálið á manni. Ég vaknaði klukkan 19 í dag og fór í ríkið í Spönginni. Það var dimmt úti. Dimmara en nokkru sinni fyrr. Þegar ég kom heim drakk ég viskíið mitt af stút og settist niður á stól á miðju stofugólfinu. Ég sat bara þarna og dreypti á viskíinu. Ég fór ekki einu sinni úr jakkanum. Eftir stundarfjórðung stóð ég upp og fór að leita að símanum mínum. Ég fann hann við hliðina á rúminu en þar hafði hann legið í allavegana viku. Ég fann mér glas og fyllti það af viskíi. Ég kláraði úr glasinu í tveimur góðum sopum og hellti síðan meira í. Síðan stimplaði ég inn símanúmerið og beið eftir svari.

,,Hjálparsími Rauða krossins, góða kvöldið.“ Það var kvenmannsrödd í símanum.

,,Sæl.“

,,Hæ, hvernig get ég aðstoðað?“

......

,,Halló … ?“

,,Ég þurfti bara að tala við einhvern.“

Höfundur: Ísak Regal

 

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen