Nýr formaður framkvæmdarstjórnar SÍF er óhrædd við að segja hvað henni finnst

Helgina 7-9. september var ný framkvæmdarstjórn Sambands Íslenskra Framhaldsskólanema (SÍF) kosin. Nýr formaður er Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, 16 ára gamall nemi á k2 brautinni í Tækniskólanum þar sem lagt er áherslu á vísinda- og tæknigreinar.

Ólafur Hrafn Halldórsson, nýkjörinn varaformaður framkvæmdastjórnar SÍF er á sömu braut.

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, mynd tók Ólafur Hrafn Halldórsson

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, mynd tók Ólafur Hrafn Halldórsson

Ólafur og Gunnhildur ákváðu að bjóða sig fram í framkvæmdarstjórn SÍF saman, enda eru þau líka í stjórn nemendafélags Tækniskólans, nema þar er Ólafur formaður og Gunnhildur varaformaður.

Því er ekki að undra að framkvæmdarstjórnin þetta kjörtímabil ætli sér að leggja áherslu á að kynna iðngreinar fyrir grunnskólanemendum og eyða þeirri hugmynd að allir verði að fara í bóknám, eðlilega eru bæði Ólafur og Gunnhildur oft í kringum fólk sem hefur plummað sig betur í iðnnámi en í bóknámi.

,,Það að fara í iðnnám getur verið stórkostlegt og borgað sig í framtíðinni. Það þurfa ekki allir að taka stúdentinn,” segir Gunnhildur. ,,Það er líka sterkt að andlit SÍF sé stelpa úr Tækniskólanum. Þá sér fólk að það er allskonar fólk úr mismunandi áttum að gera allskonar hluti,” og á Gunnhildur við að nemendur úr öllum skólum eigi sæti að borðinu þegar kemur að því að berjast fyrir sameiginlegum málefnum allra framhaldsskólanemenda.

Auk þess segir Gunnhildur að það sé mikilvægt að kynna starf SÍF betur fyrir framhaldsskólanemendum, þannig það leiki enginn vafi á því að hvað sambandið gerir eða að það sé yfir höfuð til. ,,Allir nemendur eiga að geta leitað til okkar ef þeir eru með eitthvað mál á hendi. Í því sambandi er planið að bæta við flipa á vefsíðunni þar sem fólk getur sent inn mál í trúnaði við SÍF.”

Gunnhildur segir að það sé líka á áætlun að stofna sameiginlegan gagnagrunn nemendafélaga þar sem hægt verður að setja inn reynslusögur af því sem virkaði og því sem virkaði ekki varðandi viðburði sem nemendafélögin halda, öðrum til gagns. ,,Mér finnst eins og oft séu nemendafélög mismunandi skóla að keppast um hver er með flottasta ballið og svoleiðis. Mig langar að auka samvinnu nemendafélaga í staðinn fyrir að stuðla að samkeppni.”

Fyrir utan það vill Gunnhildur gera SÍF sýnilegra í fjölmiðlum, en SÍF fékk ansi mikla fjölmiðlaathygli í sumar þegar fyrrverandi formaður framkvæmdarstjórnar SÍF gagnrýndi stefnu sambandsins fyrir að gera kynjafræði að skyldufagi og var í kjölfarið rekinn úr embætti.

En hvar stendur nýja stjórnin í þeim málum?

,,Það að gera kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum tekur sinn tíma. Hún var til dæmis gerð að skyldufagi í Borgarholtsskóla og nú erum við að skoða hvernig það hefur gengið. Hingað til höfum við bara séð jákvætt við það að kynjafræðin var gerð að skyldufagi og þessvegna ætlum við að halda áfram að berjast fyrir þessu.”

Fráfarandi framkvæmdarstjórn SÍF lagði líka mikla áherslu á að berjast fyrir bættu aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu.

,,Við vorum að ljúka við að skrifa bréf til þingmanna sem fjallar um skort á fjárlögum sem varða geðheilbrigði framhaldsskólanemenda. Við ætlum að halda áfram að beita þrýstingi og koma þessum málum í forgang. En rétt eins og kynjafræðin þá er þetta langtímamarkmið.”

Í ár taka við ný og spennandi verkefni fyrir framkvæmdarstjórn SÍF. ,,Við erum að taka við verkefninu Seeds for Intergration, en þá er planið að safna saman erlendum framhaldsskólanemum og reyna að bæta reynslu þeirra af því að koma inn í nýjan menningarheim. Síðan verður einum nemanda af erlendu bergi brotnu og einum íslenskum nemenda boðið að eyða helgi á Hvammstanga þar sem vinnuhópar reyna að finna leiðir til að gera betur í þessum efnum.

Þar að auki er markmiðið að kynnast og stofna tengslanet milli íslenskra og erlendra nemenda. Verkefnið í heild verður tekið upp á myndband til að deila reynslu erlendra framhaldsskólanema með öðrum.”

Gunnhildur segist vonast eftir góðu samstarfi við stjórnvöld. ,,Þó ég eigi eftir að læra hvernig þetta virkar, er ég óhrædd við að segja það sem mér finnst. Það er frábært fólk með mér í stjórn og saman getum við gert hvað sem við tökum okkur fyrir hendur.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen