Krefja Katrínu og Sigurð Inga um afsökunarbeiðni

917057.jpg

Geir H Haarde fyrrverandi forsætisráðherra Íslands var ákærður fyrir að hafa ekki brugðist við yfirvofandi bankahruni árið 2008. Með atkvæðagreiðslu þingmanna var ákveðið að kæra Haarde en hann var í kjölfarið sakfelldur fyrir einn ákærulið en sætti ekki refsingu. Málið þykir mjög umdeilt og taldi Haarde að pólitísk geðþóttaákvörðun lægi að baki ákvörðuninni að kæra hann, er fram kemur í frétt RÚV.

 

Samband Ungra Sjálfstæðismanna sendi frá sér yfirlýsingu um málið.

„Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) lýsir yfir stuðningi við þingsályktunartillögu um óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni, sem lögð er fram af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Það er kominn tími á að Alþingi viðurkenni mistök fortíðarinnar og beðist sé afsökunar á þeim skammarlega atburði sem Landsdómsmálið er í sögu Íslands.
Ákæra þingheims gegn Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, var af pólitískum toga og bar vott um þann hefndarhug sem ríkti í þingheimi á árunum eftir hrun. Geir H. Haarde var sýknaður af öllum hinum veigamestu ákæruliðum og ekki dæmdur til refsingar.

Ljóst er að þátttaka í þessum pólitísku réttarhöldum verður ævinlega svartur blettur á þingferli þeirra þingmanna sem studdu ákæruna. Það væri því til sóma, sem táknræn skilaboð um breytta tíma, að þingheimur álykti um óréttmæti Landsdómsmálsins og að hlutaðeigandi biðji þá fjóra ráðherra afsökunar sem greitt var atkvæði um að ákæra fyrir Landsdómi, þá einkum Geir H. Haarde, sem einn var ákærður af fjórmenningunum.

Þá er sérstaklega skorað á formenn hinna stjórnarflokkanna, Katrínu Jakobsdóttur og Sigurð Inga Jóhannsson, til að styðja þetta mál og biðjast afsökunar en þau samþykktu bæði að ákæra Geir H. Haarde árið 2010. 

Jafnframt hvetur SUS ríkisstjórnina til þess að setja það í forgrunn að Landsdómur verði afnuminn úr lögum svo að pólitísk réttarhöld, líkt og þau sem Geir H. Haarde fór í gegnum, endurtaki sig ekki. Átök um pólitískar ákvarðanir eða aðgerðaleysi eiga að vera lagðar í dóm kjósenda en ekki dómstóla.“

 

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen