Rektor MS neitar að leiðrétta nafn Dalvins í nemendaskrá

Sólrún Freyja Sen skrifar:

29547627_2217694874923981_1638559756_n.jpg


Dalvin Smári Imsland er 18 ára nemandi í Menntaskólanum við Sund (MS). Hann kom út sem trans strákur fyrir rúmu einu ári. Hann segist í kjölfarið hafa farið til námsráðgjafa MS og beðið um að nafni hans yrði breytt í kerfinu þegar hann kæmi í skólann um haustið.

Þá hafi námsráðgjafinn sagt honum að ekkert mál yrði að breyta nafninu.

Mest lesið

 

 

 

 

 

,,Svo mæti ég í skólann núna í haust  og það er ekki búið að breyta þessu. Sem betur fer var ég með nokkrum vinum mínum í tíma þegar ég komst að því þannig ég hafði smá stuðning, en ég fór rakleiðis upp til námsráðgjafans og var alveg brjálaður.

Þá hafði mér eða foreldrum mínum ekki verið tilkynnt  að rektorinn ætlaði ekki að breyta nafni mínu í kerfinu.” Dalvin segir að hann hafi kynnt sér reglur í kringum nafnabreytingar í öðrum framhaldsskólum en þar er þetta leyfilegt. ,,Rektor MH hafði heyrt um þetta mál og var alveg orðlaus yfir þessu.”

Í framhaldsskólum er nefnilega undantekning á lögum sem snúa að einstaklingum í kynleiðréttingarferli. Lögin kveða á um að ekki sé leyfilegt að breyta nafni sínu í þjóðskrá nema maður hafi lokið 18 mánuðum í því ferli, en í framhaldsskólum má breyta nafni sínu fyrr. Dalvin hefur lokið einu ári og tveimur mánuðum.

,,Foreldrar mínir fóru á fund með Má Vilhjálmssyni rektor MS en hann segir að þau yrðu bara að kæra sig. Þau senda erindi á menntamálaráðuneytið í kjölfarið og málið er stopp þar. Ekki eru komin nein lokasvör en það komu þó skilaboð um daginn að þau geta ekkert gert í þessu.”

Dalvin segir að það vanti nemendaráð í MS sem verndar réttindi hinsegin fólks. Hann segist hafa hitt Ingileifi Friðriksdóttur sem fer með umsjón Hingseginleikans, þáttaröð á RÚV. ,,Hún var í sjokki yfir þessu nafnamáli og spurði hvort það væri ekki eitthvað ráð í skólanum sem fær að segja eitthvað, ég þurfti að segja henni að svo væri ekki.”

,,Þetta á ekki að þurfa að koma fyrir neinn. Þetta er alveg fáránlegt. Það er líka mjög gamaldags að einn maður fái að ráða öllu”, en Dalvin segir að kennarar hans séu líka reiðir yfir þessu og hafa margir sjálfir farið og spurt námsráðgjafann afhverju Már vilji ekki breyta nafninu í kerfinu. Hann segir að hann vilji fá svör frá menntamálaráðuneytinu fyrst.

Þá hafi verið tekið upp á því að birta ekki nafnalistann upp á skjávarpa þegar kennarar skrá niður mætingu, heldur lesa þeir af tölvuskjánum og þurfa að muna að lesa ekki upp gamla nafn Dalvins þegar hann er lesinn upp.

,,Þessi nafnabreyting kemur Má ekkert persónulega við, þetta er nafnið mitt, ekki nafnið hans. Mér líður bara illa í skólanum. Ég er ekki slakur námsmaður, ég hef alltaf verið mjög duglegur.

En það lætur mér líða illa að ég fái alltaf póst á gamla nafnið mitt og allar einkunnir. Ég er orðinn sterkari í dag en áður fyrr þá var ég með mjög lélega mætingu í skólann út af þessu máli.”
 

Sólrún Sen