Lagið varð til í sturtunni

42414533_531196070684136_7476791867602894848_n.jpg

Á föstudaginn kom út lagið Hressó sem er fyrsta lag Guðbjörns eða Bangsa. Lagið er pródúsað af Degi Snæ Elíssyni sem hefur undanfarið verið að vinna mikið með Eddu sem gaf út lagið Ung og frjáls um daginn ásamt Helmuth Þór Ólafssyni. ,,Ég fór mjög óvænt að vinna með Bangsa” segir Dagur sem er búinn að vera að pródúsa í um tvö ár. ,,Hann er góður vinur Helmuths sem tók hann einhverntíma með í tökur og sagði að hann þyrfti að fá að rappa í míkrafóninn.”

Dagur Snær Elísson

Dagur Snær Elísson

Dagur samdi taktinn við Hressó og hljóðblandaði lagið. ,,Bangsi var kominn með mjög útpælda hugmynd af laginu áður en ég byrjaði að gera eitthvað, hann var búinn að semja textann og allt. Fyrst byrjuðum við að taka lagið upp við beat sem Bangsi fann á youtube, svo henti ég honum út og samdi beat frá grunni.”

Dagur segir að það sé mjög skemmtilegt að pródúsa. ,,Þetta er hrikalega gefandi. Ég veit ekki hvar ég væri án tónlistarinnar. Þetta er mjög fjölbreytt og skemmtilegt starf.” Dagur segir að hann byrjaði að pródúsa eina góða Verslunarmannahelgi fyrir tveimur árum.

,,Ég fór upp í sumarbústað með félaga mínum sem var að fikta í Garageband. Mér fannst það hrikalega heillandi en hafði verið að spila mikið á gítar áður. Pabbi er líka í hljómsveit og spilar á bassa. Þannig ég fór að fikta í Garageband og fannst það mjög skemmtilegt,” en fyrir þá sem

ekki vita þá er Garageband eins og einfölduð útgáfa af Ableton sem er helsta forrit pródúsa.

Bangsi

Bangsi

Á meðan Dagur hefur gefið út slatta af efni með mismunandi tónlistarmönnum upp á síðkastið þá er þetta fyrsta lagið sem Bangsi gefur út. ,,Ég hef bara verið að raula eitthvað, þetta hefur verið svona áhugamál. Ég er alveg búinn að semja helling af lögum en hef aldrei gefið neitt út. Þetta er fyrsta lagið sem ég gef út af einhverri alvöru.

Ég man samt í grunnskóla vorum ég og strákarnir að gera eitthvað lag með Singstar-míkrafón og Garageband en það var bara eitthvað drasl.”

Hugmyndin að Hressó kom þegar Bangsi var í sturtu. ,,Ég var að hugsa um bíómynd sem ég var að horfa á þar sem voru stelpur að sippa og voru að syngja eitthvað lag, ,,eenie, meeny, miny, mo…” ég byrjaði að ríma við það og úr varð viðlag þannig allt fór að rúlla í sturtunni. Þetta er samt bara eitthvað bull eins og einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, dimmalimm.”

Dagur og Bangsi segja að samstarfið hafi gengið vel og að þeir sjái fram á áframhaldandi samstarf. Lagið hefur fengið mjög góðar viðtökur. ,,Það eru samt mjög margir sem ég þekki sem vita ekkert að þetta sé ég að syngja” segir Bangsi. ,,Fólk er alveg að fýla þetta í drasl.”

Tónlistaráhugamenn ættu að fylgjast mjög vel á næstunni, en bæði Bangsi og Dagur ætla sér að vera áberandi í haust. ,,Það er mikið af lögum á leiðinni með allskonar tónlistarmönnum, þannig það eru spennandi tímar framundan”, segir Dagur sem er alls ekki komin með nóg af því að pródúsa. Bangsi segir að planið sé að gefa út meira, en eins og áður sagði er hann með gommu af góðum lögum sem á bara eftir að taka upp.

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Hér má hlusta á nýja lag strákanna:

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen