,,Fallegur boðskapur að hin barnsleg einlægni getur slökkt gamla haturselda"

Hver man ekki eftir Ronju Ræningjadóttur, rassálfunum og Helvítisgjá? Astrid Lindgren aðdáendur hljóta að vera glaðir um þessar mundir því leiksýningin, Ronja ræningjadóttir, er í sýningu hjá Þjóðleikhúsinu um þessar mundir.

Sigurður Þór Óskarsson og Salka Sól Eyfeld í hlutverki Ronju og Birkis/Ronja Ræningjadóttir/Þjóðleikhúsið

Sigurður Þór Óskarsson og Salka Sól Eyfeld í hlutverki Ronju og Birkis/Ronja Ræningjadóttir/Þjóðleikhúsið

Salka Sól Eyfeld fer með hlutverk Ronju og er þar með að uppfylla gamlan æskudraum.

,,Ég náttúrulega elst upp við Astrid Lindgren bækurnar og Ronja er algjör draumakarakter að fá að túlka. Það er hálf óraunverulegt að vera að leika æsku átrúnaðargoð sitt á sviði.”

Salka segir að hún og Ronja séu líkar að mörgu leyti. ,,Ronja segir það sem henni finnst og tekur sjálfstæðar ákvarðanir, sem mér finnst svo merkilegt,” en Ronja ræningjadóttir tilheyrir fólkinu í Matthíasarborg sem eru svarnir óvinir Borka.

Baldur Trausti Hreinsson og Örn Árnason í hlutverki Borka og Markúsar/Ronja Ræningjadóttir/Þjóðleikhúsið

Baldur Trausti Hreinsson og Örn Árnason í hlutverki Borka og Markúsar/Ronja Ræningjadóttir/Þjóðleikhúsið

,,Ronju er kennt hatur og að þola ekki Borka, en hún lærir upp á eigin spýtur að hún hefur enga ástæðu til að þola þá ekki. Krakkar eru svo ómengaðir. Það fæðist enginn og hatar bara ósjálfrátt, heldur lærist það. Mér finnst það vera fallegur boðskapur að hin barnsleg einlægni getur slökkt gamla haturselda.”

Það mætti því segja að boðskapur sögunnar af Ronju ræningjadóttur sé að fordómar eru oft sprottnir upp úr engu. ,,Það kemur mjög skýrt fram í leikritinu að Borki og Matthías (ræningjaforingi í Matthíasarborg og pabbi Ronju) muna ekki einu sinni sjálfir af hverju þeir eru óvinir. Þeim var sjálfum kennt að vera óvinir og svo kenna þeir sínum börnum að vera óvinir.”

Sigurður Þór Óskarsson og Salka Sól Eyfeld í hlutverki Ronju og Birkis/Ronja Ræningjadóttir/Þjóðleikhúsið

Sigurður Þór Óskarsson og Salka Sól Eyfeld í hlutverki Ronju og Birkis/Ronja Ræningjadóttir/Þjóðleikhúsið

Salka Sól talar um að boðskapurinn sé að börn trúi því og treysti að foreldrar þeirra viti hvað sé best fyrir þau, en Ronja og Birkir (sonur Borka) eru alin upp við það og trúa því að allir í hinum ræningjaflokknum séu skíthælar upp til hópa. En, eins og Salka Sól segir, “þegar þau taka sjálfstæða ákvörðun um að vilja ekki vera óvinir, því þau hafa enga raunverulega ástæðu til, þá gerist fallegt. Þá sameinast allir.”

Leikritið um Ronju ræningjadóttur er ætlað börnum og tekið er á margvíslegum tilfinningum í leikritinu. ,,Það er bæði hætta og sorg í sýningunni, hún er fyndin og skemmtileg, en dramatísk. Hún vekur upp allar tilfinningar sem mér finnst geggjað. Það er mikilvægt að krakkar geti séð leiksýningar sem eru allskonar.”

Það þarf þó ekki að þýða að það sé skilyrði að taka með sér barn á sýninguna til að hafa afsökun. ,,Allir þekkja þessa sögu og þeir sem sáu myndina í gamla daga munu örugglega finna fyrir nostalgíu við að sjá leikritið.”

Salka hrósar öllum sem komu að uppsetningu sýningarinnar. ,,Þetta eru allt topp eintök. Selma Björns er frábær leikstjóri og leikmyndin eftir Finn Arnar Arnarson er æðisleg. Þetta er búið að vera yndislegt ferli.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Vinsælast

Aðrar fréttir

Sólrún Sen