Góðir í ananasnum á Blackbox Pizzeria

IMG_0129.jpg

Ritstjórn Babl kíkti við á Blackbox um daginn, en það er glænýr pizzastaður sem opnaði i Borgartúninu um daginn. Sumir myndu segja að enginn í ritstjórninni sé atvinnu- matargagnrýnandi, en aftur á móti er sá starfstitill ekki lögverndaður.

Mest lesið

Krissi og Kristinn fengu sér pizzuna ,,Black”. Hér er það sem þeir höfðu að segja um pizzuna:

,,Skemmtileg, eldbökuð pizza. Þó við séum séum ekki miklir ananas-menn þá fannst okkur hann virka á þessari pizzu, kryddpylsan sem var á pizzunni var líka skref fyrir ofan Dominos-pepperoníið sem við erum orðnir vanir. Rjómaosturinn og ananasinn mynduðu mjög gott jafnvægi á móti jalapeño-piparnum.”

Guðmundur Hauksson fékk sér Parma Rucola pizzuna. ,,Hún er einföld og hittir beint í mark hjá þeim sem fíla parmaskinku/rucola blönduna. Pizzan er þunn eins og ekta Napoli pizza og ofninn sem er notaður við bakstur gefur henni fullkomna áferð (hægt er að rúlla hverri sneið upp og borða í 4 bitum). Parmesan-osturinn og pestóið falla mjög lúmskt inn í heildarmyndina en eru mikilvægir aukaleikarar. Ef til vill væri hægt að skipta tómötunum út fyrir aðra bragðmeiri en annars er pizzan mjög bragðgóð.”

Sólrún fékk sér pizzuna ,,Inferno”:

,,Hún er samsett úr piparsalami, jalapeño-pipar, chili, rjómaosti, pepperoni, sriracha og nokkrum tegundum af ostum til að fullkomna. Ég myndi mæla 100% með henni, ostamagnið var akkúrat, ekki of mikið og ekki of lítið.

Maður hefði haldið að piparsalami og pepperoni væri heldur djarft en það var alls ekki of mikið, þeir vita greinilega hvað þeir eru að gera þarna í eldhúsinu.

Stemningin var mjög skemmtileg inni á staðnum, þú nærð í pizzuna þína sjálfur og pantar við eldhúsborðið.”


 

Sólrún Sen