Ég var að nota til að lifa og lifa til að nota

Ólafur Hrafn Halldórsson tók mynd

Ólafur Hrafn Halldórsson tók mynd

Saga Ýr Nazari er ný og upprennandi í íslensku tónlistarsenunni og býr til r&b tónlist með ljóðrænum þemum úr hip-hop tónlist. Hún var að gefa út sitt fyrsta myndband við lag sem heitir ,,Don’t gotta be real”. ,,Lagið túlka ég á margvíslegan hátt, samband mitt við feður mína, eiturlyf og strákinn sem ég var ástfanginn af”.

,,Ég hef alltaf heillast af textum sem segja sögu og kem úr bakgrunn þar sem var mikið ofbeldi og erfiðileikar í æsku. Ég hef notfært mér ljóðlistina til að tjá mig um hluti sem ég hefði annars aldrei getað gert”.

Yngri ár Sögu einkenndust af vantrausti gagnvart öðrum krökkum, hún flutti mikið og vildi ekki hleypa neinum nálægt sér. ,,Ég átti mér endalaust af grímum og vildi aldrei hleypa neinum inn”. Þegar hún var um 4 ára aldur  voru lögreglumenn í hverfinu hennar farnir að þekkja hana með nafni. Hún strauk svo oft og lýsir því að það hafi bara nært spennufíknina sem hún fann fyrir á þessum tíma.

Ólafur Hrafn Halldórsson tók mynd

Ólafur Hrafn Halldórsson tók mynd

Þegar hún fór að eldast þá leiddist hún út í félagsskap þar sem að neysla réði ríkjum. ,,Félagslegu gildin í þessumm vinahópum voru mikið einfaldari. Það eina sem þið þurftuð að eiga sameiginlegt var að þið notuðuð fíkniefni og ég þurfti þá ekki að hleypa neinum inn. En svo varð heimurinn í kringum eiturlyfin ljótari og ljótari. Það mætti kalla þetta mannskemmandi töffarasamfélag”.

Árin liðu og neyslan versnaði. Andleg líðan Sögu versnaði líka og á endanum lýsir hún því að samband hennar við eiturlyf hafi orðið eins og þráhyggjufullt ofbeldissamband, hún fann ekki einu sinni fyrir áhrifum lengur. ,,Ég var bara að nota til að lifa og lifa til að nota, efnin sviku mig öll á endanum og ég fann ekki fyrir neinu lengur”.

Lifa lífinu á lífsins forsendum.

,,Ég átti engan annan valkost en að taka mig til í andlitinu og verða edrú. Neyslan mín var orðin það hættuleg að ég var bara að deyja þarna úti”. Hún hefur verið edrú í 11 mánuði í dag, fór í afeitrun á Vogi og hefur unnið stanslaust í sjálfri sér á þessum tíma. ,,Ég verð bara að vera í prógrammi annars fúnkera ég ekki”. Hún segir að félagslíf fyrir ungt fólk með fíknsjúkdóm   hafi aldrei verið sterkara og það sé algengur misskilningur að það sé ekki gaman að verða edrú. ,,Ég er í fyrsta skipti í langan tíma að lifa lífinu á lífsins forsendum og hef aldrei verið svona hamingjusöm áður”.

Ósýnilegir veggir í íslensku hip-hop senunni

Ólafur Hrafn Halldórsson tók mynd

Ólafur Hrafn Halldórsson tók mynd

Í hip-hop senunni hefur undarfarið verið mikið talað um neyslu.  Þegar ég spurði Sögu hvað henni finnst um það svarar hún því að þó að hún hlusti ekki mikið á þessa tónlist sjálf þá virði hún alla sem séu að gera skapandi hluti. ,,Þó að ég sé veik fyrir ljóðrænum textum þá er hin hlið peningsins oft alveg jafn skapandi”. Að vera óvirkur alkólisti og kvenmaður í þessari tónlistarmenningu getur oft verið krefjandi og vonar Saga að hún geti orðið áhrifavaldur í því að fleiri stelpur stígi fram og láti heyra í sér. ,,Ég veit um fullt af stelpum sem eru rosalega færar í tónlist en eru einfaldlega feimnar við að láta rödd sína heyrast, það vantar ekki stelpur í tónlist það á bara einfaldlega eftir að finna þær”

Að lokum spurðum við sögu hvort hún hefði einhver skilaboð til ungs fólks sem er í svipaðri stöðu og hún var

,,Þó að þú sért að verða edrú þá er lífið ekki búið, það er rétt að byrja”

Við þökkum þessari flottu og upprennandi listakonu kærlega fyrir spjallið og hlökkum til að sjá meira frá henni í framtíðinni.

Kristján Ernir Björgvinsson skrifaði

 

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen