Erna Kanema finnur ræturnar í sambískri tónlist ömmu sinnar

Söngur Kanemu er heimildamynd um pílagrímsferð Ernu Kanemu til upprunalands föðurfjölskyldu hennar, Sambíu. Menningin þar er gjörólík því sem við þekkjum á Íslandi, hér dönsum við bara á böllum og syngjum ,,Take me home” ef klukkan er orðin 3 á laugardagskvöldi á skrallinu, og alls ekki fyrr en þó nokkrir þúsundkallar eru horfnir bak við barborðið.

Erna Kanema, mynd úr Söng Kanemu

Erna Kanema, mynd úr Söng Kanemu

Í myndinni fer Erna til Sambíu að læra söngva og dansa sem amma hennar úr föðurætt elskaði. ,,Takturinn sem fólk dansar við þarna úti er mjög erfiður fyrir einhvern sem er alinn upp á Íslandi. Þetta er alveg meðfætt hjá fólki í Sambíu, það er sungið og dansað allstaðar. Þar er engin feimni.

Um leið og krakkarnir byrja að labba byrja þau að dansa og syngja. Tónlistin snýst um að allir séu ein heild, það er svo mikil gleði og útgeislun,” en Erna segir að það séu oft mörg tilefni til að bresta í söng og dans í Sambíu. Hún segist hafa upplifað sig kalda og stífa í samanburði við Sambíubúa. ,,Ég skildi ekki alveg hvernig krakkarnir gátu verið svona geðveikt með þetta alltaf. Það skipti líka engu máli hvort þú ert rammfalskur, þú syngur samt alveg klárlega með.”

Erna Kanema þriggja ára gömul, tekin úr heimildarmyndinni Erna á frænku í Afríku

Erna Kanema þriggja ára gömul, tekin úr heimildarmyndinni Erna á frænku í Afríku

Erna hefur elskað að syngja frá blautu barnsbeini. Hún lærir djasssöng í Tónlistarskóla FÍH og hefur verið í kór frá því hún var fimm ára gömul. Móðir Ernu, Anna Þóra Steinþórsdóttir leikstýrir Söngum Kanemu, en hún leikstýrði einnig tveimur heimildarmyndum sem fjölluðu um kynni Ernu og íslensku fjölskyldunni hennar af menningarheimi Sambíu.

Erna segir að það hafi verið skrýtið að sjá ákveðið atriði úr fyrstu myndinni sem var gerð þegar hún var aðeins þriggja ára, en í atriðinu sést Erna vera dolfallin yfir kirkjukór sem var að syngja í messu. ,,Það hlýtur að hafa haft einhver áhrif á mig og af hverju ég hef alltaf verið staðráðin í að syngja. Það er mikið af listafólki í fjölskyldunni minni. Mamma og pabbi alltaf hlustað mjög mikið á tónlist og pabbi hefur alltaf verið duglegur við að spila tónlist á heimilinu.” Tónlistin hefur því alltaf legið beint við fyrir Ernu.

Anna Þóra segir að það sé áhugavert að fylgjast með dóttur sinni, sem hefur alla tíð búið á Íslandi, kynnast menningu föðurfjölskyldu sinnar. ,,Í fyrstu myndinni var Erna að hitta föðurfólkið sitt í Sambíu í fyrsta sinn. Auðvitað finnst foreldrum alltaf spennandi að sjá börnin sín þroskast og upplifa nýja hluti, því fannst mér mjög spennandi að fylgjast með viðbrögðum hennar við því hve ólíkur menningarheimur þetta er. Sú mynd er ætluð börnum, og með henni vildi ég sýna krökkum á Íslandi börn sem eru öðruvísi en þau, eiga öðruvísi sögur og öðruvísi fjölskyldur.”

Í annari myndinni er Erna orðin átta ára þegar hún og íslenska fjölskyldan hennar fer saman til Sambíu að heimsækja fjölskylduna þar. ,,Það var mjög gaman að sjá tvær tengdarfjölskyldur úr ólíkum menningarheimum kynnast og tengjast,” segir Anna.

,,Kanema er að verða fullorðin tónlistarkona, og hefur hugsað með söknuði um menningu föðurfjölskyldu sinnar. Þessvegna ákváðum við að byrja á þriðju heimildamyndinni og hafa fókusinn á tónlistinni og löngun Ernu til að læra afríska tónlist og þá sérstaklega tónlistina í Sambíu.”

Mæðgurnar segja báðar að tilgangurinn með myndinni sé að hluta til að kynna aðra menningu fyrir íslendingum ,,Við erum að færa fólki innsýn inn í annan heim með þessari mynd, og þá kannski opnast hugur og skilningur fólks gagnvart ólíkum menningarhópum í samfélaginu.”

Erna segir að myndin geti hjálpað fólki sem er í svipuðum sporum og hún sjálf. ,,Ég fattaði það í raun ekki fyrr en eftir á hvað það er stór hluti af þessu,” en það er til dæmis ekki gefið að íslenskir krakkar af erlendum uppruna fái að læra um menningu erlendra foreldra sinna í skólum. ,,Það var mjög erfitt fyrir mig að afla mér upplýsinga um heimaland mitt. Það er ekki eins og maður læri mikið um Afríku í skólanum, það er kannski bara einn tími í samfélagsfræði sem fer í að læra um Afríku  sem heimsálfu en ekki einstök lönd í Afríku. Ég þurfti að afla mér upplýsingar um bakgrunn minn í föðurætt sjálf.”

Erna segir að hún hafi ekki upplifað harða fordóma gagnvart sér á Íslandi en þekki fólk, dökkt á hörund, sem hefur upplifað slíkt. ,,Ég hef aðallega lent í þessum litlu hversdagsfordómum, en það er yfirleitt út af því að fólk áttar sig ekki á eigin fordómum og veit ekki að það sem það segir getur verið særandi. Það hjálpar líka mikið að íslenska er móðurmál mitt.”

Nú er Ísland fámennt og var lengi vel einangrað samfélag hvítra manna, flestir forfeður okkar voru kindabændur með tóbakskornið harðfiskinn sjaldan fjarri. Flestir þekkja söguna af Hans Jónatani frá Vestur-Indíum í Karíbahafinu sem settist að á Íslandi árið 1818 og var líklega fyrsti og eini svarti maðurinn á Íslandi alla ævi.

,,Ísland er svo lítið samfélag. Ég hef alltaf vitað um alla hina brúnu krakkana á Íslandi sem voru á svipuðum aldri og ég,” segir Erna.

Erna Kanema, mynd úr Söng Kanemu

Erna Kanema, mynd úr Söng Kanemu

Í Sambíu er opinbera tungumálið enska þar sem landið er bresk nýlenda, en Erna segir að foreldar föður síns hafi talað lamba og nyanja. ,,Allir sem fara í skóla, en það eru langflestir sem gera það, læra ensku. Ég lærði bæði ensku og íslensku þegar ég byrjaði að tala. En svo eru fjölmörg önnur tungumál sem eru frekar svipuð en tengjast ákveðnum svæðum í Sambíu. Ég kann ekki lamba eða nyanja, en hef sett mér það markmið að læra þau tungumál til að geta talað við eldri konurnar í þorpunum sem tala flestar ekki ensku vegna þess að þær fóru ekki í skóla.

Amma Ernu og nafna hennar, Kanema, var sérstaklega söngelsk. Í myndinni fer Erna og lærir lag og dans sem var í uppáhaldi hjá Kanemu eldri. ,,Ég veit ekki alveg hvort lagið sé á nyanja eða lamba, eða hvort það sé einhver blanda úr báðum þessum tungumálum. Ég fékk pabba svo til að þýða textann fyrir mig.

Lagið fjallar um hænu sem er að leita sér að öruggum stað til að verpa. Þetta er frekar fyndið lag og dansinn líka. Það var mjög skemmtilegt að læra þetta.”

Kanema dó sama ár og Erna fæddist, en Erna segir að í Sambíu ríki sterk trú á endurholdgun.  ,,Ég fékk nafnið Kanema og pabbi talaði alltaf um að ég væri mamma hans, Kanema, endurfædd. Mér fannst það alltaf svolítið spes. Ég vissi alltaf að hún hafði sungið og dansað mikið, þannig ég var mjög forvitin um hana þegar ég fór núna til Sambíu og fékk að læra meira um hana.

Söngur Kanemu er sýnd í Bíó Paradís nokkur kvöld í september. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um sýningartíma hér.

Sólrún Freyja Sen skrifaði

Mest lesið

Aðrar fréttir

Sólrún Sen