Stelpur Rokka! með hinsegin rokkbúðir í fyrsta sinn

32169291_1913188242027479_5219555265271037952_n.jpg

Rokksumarbúðirnar ,,Stelpur Rokka!” eru fyrir stelpur (sís og trans), trans stráka, kynsegin og intersex fólk af öllum aldri. Búðirnar eru búnar að vera við lýði síðan árið 2012, en þær hafa vaxið og dafnað síðan þá og sumarið í sumar verður stærsta sumar Stelpur Rokka! frá upphafi. Í fyrsta sinn verða Stelpur Rokka! í öllum fjórum landshlutum og þar að auki verða búðir fyrir hinsegin ungmenni og alþjóðlegar rokkbúðir ásamt 10 öðrum Evrópulöndum í Berlín.

Fyrir utan í Reykjavík verða búðir fyrir norðan á Akureyri, á Egilsstöðum og Seyðisfirði, svo fyrir vestan á Patreksfirði. ,,Við erum ótrúlega kátar með að vera í öllum fjórum landshlutum, við vitum að ungmenni sem búa utan höfuðborgarsvæðisins hafa ekki úr jafn miklu að velja af tómstundastarfi,” segir Áslaug Einarsdóttir, einn skipuleggjenda búðanna.

33745719_1932231280123175_5139089482477207552_n.jpg

,,Svo er annað sem við erum að gera sem við erum mjög ánægð með, en það eru hinsegin rokkbúðir í júní. Okkur langar að taka þátt í að skapa öruggara rými fyrir ungmenni sem eru hinsegin, en við viljum samt taka fram að þú þarft ekki að vita hvort þú ert hinsegin til að koma í hinsegin búðirnar, það eru allir velkomnir.”

Við erum í góðu samstarfi við Samtökin ‘78 í skipulagningu hinsegin búðanna. Svo verðum við með kvennarokkbúðir í Reykjavík um helgina,” en það eru nokkur pláss laus í þær búðir fyrir áhugasamar konur.

,,Við erum að skipuleggja ásamt 10 öðrum rokkbúðum í Evrópu alþjóðlegar rokkbúðir í Berlín í júlí þar sem við bjóðum fullt af þátttakendum að koma og eyða viku saman í Berlín og rokka.”

Frá upphafi Stelpur Rokka! hafa verið valfrjáls þátttökugjöld í búðirnar. ,,Við viljum hvetja fleiri samtök og hópa til að taka upp þessa stefnu því hún hefur reynst okkur rosalega vel. Þetta virkar þannig að hver og einn borgar það sem hann hefur tök á og engum er vísað frá.”

Þá getur fólk líka borgað meira en uppsett viðmið af þáttökugjaldi, en Áslaug segir að sífellt fleiri einstaklingar styrki Stelpur Rokka! af eigin frumkvæði.

,,Um daginn voru haldnir fjáröflunartónleikar á Húrra á vegum LHÍ og voru tónleikarnir að þeirra eigin frumkvæði. Við gátum svo nýtt peninginn til kaupa á tónleikahljóðkerfi fyrir búðirnar.”

Áslaug segir að búðirnar hafa reynst efnalitlu fólki mjög vel og Stelpur Rokka! stefna að því að gera meira fyrir hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu. ,,Efnaminni ungmenni, ungmenni af erlendum uppruna, fötluð ungmenni, við erum alltaf að reyna að gera rokkbúðirnar aðgengilegri fyrir þessa hópa, því þetta eru krakkar sem fá færri tækifæri þegar kemur að því að taka þátt í tómstundastarfi.”

Sólrún Freyja Sen skrifaði

 

 

Mest lesið 

Aðrar fréttir

Sólrún Sen