MR mælir á móti rómantík, nuddtæknir frá Serbíu á kröfulista fyrir undirbúning, viðtal við Tómas Óla

Topp 5

Sólrún Freyja Sen skrifar:

MORFÍs lið MR og Verzló mætast þann 25 febrúar, sunnudaginn næstkomandi. (Tékka hvar hun verður þegar event kemur) Umræðuefni keppninnar verður “rómantík” og mælir Verzló með en MR á móti. Áhugavert dæmi, krúttlegra gæti það ekki verið.

MR og Verzló tóku æfingakeppni eins og vaninn er eftir MR-VÍ vikuna, sem haldin er í byrjun hvers skólaárs. Vikan snýst um ævafornan ríg milli skólanna tveggja, og endar á kappræðukeppni. Umræðuefnið var þá “Stöðvum hlýnun jarðar” og mælti Verzló með en MR á móti. Verzló fór með sigur í þeirri keppni, en allt er óvíst hvernig fer núna. Báðir skólar eru með tvo nýja meðlimi í liðinu, svo er það Una María í liði MR sem keppti í fyrra, og Huginn Sær sem hefur keppt fyrir hönd Verzlunarskólans síðustu tvö ár.

Tómas Óli Magnússon er meðlimur MR liðsins, og er í stöðu stuðningsmanns. Stuðningsmaður er síðasti ræðumaður hvers MORFÍs liðs upp í pontu. Hann segist vera spenntur fyrir komandi keppni. Æfingakeppnin var mjög jöfn og hann býst við að keppnin núna verði það líka.

Hann segir að það að vera á móti stöðvun hnatthlýnunar hafi verið mjög áhugavert. “Undirbúnings vikan er eiginlega það athyglisverðasta við MORFÍs. Maður hefur kannski einhverja skoðun á umræðuefninu áður en maður byrjar, hvaða heilvita maður myndi ekki vilja stöðva hlýnun jarðar. En þetta er tækifæri til að fá að pæla í einhverju í heila viku, með góðum hópi af fólki. Það fær mann til þess að öðlast þroskaðra viðhorf til umræðuefnisins.”

Tómas Óli Magnússon

Tómas Óli Magnússon

Tómas segir að það leiðinlegasta við MORFÍs sé þegar að fólk hefur of miklar áhyggjur af úrslitum keppninnar. “Leiðinlegustu keppnirnar eru þegar að fólk lætur eins og það skipti einhverju máli hver vinnur. Gleymir afhverju maður er að keppa. Ég held að það sé hægt að vera í MORFÍs á mjög slæmum forsendum og líka á mjög góðum forsendum. Slæmar forsendur eru til dæmis að halda að það sé mjög mikilvægt fyrir þig og þína persónu að vera manneskja sem hefur unnið MORFÍs.” Betri hliðin af keppninni sé tækifærið til að þróa með sér eiginleika til að hugsa um hluti og velta öllum hliðum ákveðins málefnis fyrir sér. Það sé líka mikilvægt að hafa húmor fyrir sjálfum sér og sleppa sér aðeins.

Tómas segir að það sé mikilvægt að huga að heilsunni og andlegu hliðinni í undirbúningi fyrir keppni. “Við vorum að pæla í að flytja inn nuddtækni frá Serbíu. Síðan ætlum við öll að fara saman í jóga alla dagana fram að keppni.” MR liðið fór ítrekað á veitingastaðinn Gló fyrir æfingakeppnina, en það gengur ekki að vera í eintómu sukki. Þar að auki sé á planinu að ráða næringafræðing og íþróttasálfræðing fyrir liðið.

MR liðið er að leggja áherslu á krúttleg umræðuefni þetta MORFÍs árið. “Við erum rosalega mikið að reyna að hjóla í eitthvað ótrúlega sætt. Við viljum vera þar. Við erum svo mikil krútt eitthvað. Það er miklu skemmtilegra að horfa á svoleiðis keppnir. Til dæmis umræðuefnið “ást”. Það væri mjög gott umræðuefni, og ég held að gæti verið áhugavert að vera bæði með eða á móti. Maður þyrfti að finna einhverja leið til þess að vera einlægur en á sama tíma að taka þessu ekki of alvarlega. Sem er stærsta áskorunin.”

Besti MORFÍs ræðumaðurinn að mati Tómasar eru Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu. Stefán varð ræðumaður Íslands árið 1989, þegar að hann keppti í úrslitum um það hvort að vísindi hafi bætt heiminn.

Hægt er að sjá bút úr ræðu Stefáns á þessari slóð, vægast sagt magnþrungin og ljóðræn ræða. Varist táraflóðs og sveiflum á lífssýn.

: http://sedogheyrt.is/morfis-raeda-stefans-eirikssonar-arid-1989-myndband/

Sólrún Sen