Legally Blonde í IÐNÚ, viðtal við Daníel Óskar

Topp 5

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Kvennaskólinn í Reykjavík setur upp söngleikinn Legally Blonde sem frumsýndur verður 9. mars. Ég kíkti á æfingu hjá þeim þar sem ég ræddi við Daníel Óskar Jóhannesson, en hann fer með eitt af aðalhlutverkum söngleiksins.

“Ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri söngleikur, ég vissi náttúrulega af myndini, en þetta er alveg frægur Broadway söngleikur.” Daníel fer með hlutverk Emmett, sem er nýstúdent og starfar sem tengiliður milli nemenda og kennara í skóla nokkrum.

“Hann byrjar á því að hitta alla nýnemana og kynnist Ellu sem er aðalpersónan. Þau verða fellar og hann er að hjálpa henni. Hún verður fyrir hálfgerðu aðkasti þegar hún byrjar í skólanum af því að hún er svolítið öðruvísi, en hann aðstoðar hana. Hún kom samt í skólann út af því að hún var ástfangin af öðrum gæja. Í fyrsta laginu sem Emmett syngur þá er ég að hjálpa henni að læra, og kem inn á það að þessi strákur er bara fyrir henni. Ég myndi segja að Emmett væri aðstoðarmaður hennar í skólanum og í lífinu.”

Daníel segist lengi hafa haft áhuga á leiklist. Hann hafi kviknað þegar að hann var í 8.bekk, og vann í sjoppu á leiksýningum 9. og 10. bekkjar, áður en hann tók sjálfur þátt.

Daníel Óskar Jóhannesson

Daníel Óskar Jóhannesson

“Ég horfði á allar sýningarnar. Ég kem svo í Kvennó. Ég vissi að það væri eitthvað leikfélag hérna, fer í leikprufur og kemst inn. Þetta er klárlega eitthvað sem ég vil gera. Vera á sviði. Ég gleymdi samt að sækja um í LHÍ að fara í leikaraprufur. Ég fattaði það þegar að það voru 3 mínútur í seinustu skil, en ég fer bara á næsta ári.”

“Mig langar feitt að vera í einhversskonar sviðslistum. Líka í þáttagerð. Ég hef mjög mikinn áhuga á því. Mig langar rosa mikið að skrifa og framleiða þætti. Einhverja kómedíu.”

Daníel segir að hann myndi klárlega mæla með að taka þátt í leiksýningu, en sjálfur hefur hann tekið þátt öll árin sín í Kvennó, og fór meðal annars með aðalhlutverkið í Litlu Hryllingsbúðinni sem var sett upp í fyrra. “100% Það skiptir ekki máli hvort maður sé á sviði eða baksviðs. Bara ferlið sjálft, þetta er hellað, svo eru alltaf partý og ferðir. Þetta er besta hópefli sem er til.”

Sólrún Sen