Miðnætti í París, "MH er frægur fyrir að setja upp sýningar sem eru öðruvísi"

Topp 5

Sólrún Freyja Sen skrifar:

Menntaskólinn við Hamrahlíð ætlar að setja upp sýninguna “Miðnætti í París” á sviði Austurbæjar. Frumsýnt verður 2 mars. Óðinn Ásbjarnarson, sem fer með hlutverk Garðars, og Magnús Thorlacius, sem fer með fjármál í undirbúning sýningarinnar, segja að aðalpersónan í sýningunni sé í raun þriðji áratugurinn og stemningin sem fylgdi honum. Sýningin byggir á samnefndri mynd Woody Allen, og fjallar um Garðar (Gill) sem ferðast aftur í tímann í París, og kynnist allskonar sniðugum og frægum listamönnum.

“Við erum ekki að reyna að styðja níðinginn Woody Allen á neinn hátt, það er óheppilegt að það hafi verið hann sem sýndi okkur þennan heim sem að við ætlum að setja upp á svið. Við ætlum samt að gera það með glæsibrag.”

Fyrir utan Óðinn fer Hera Lind Birgisdóttir með hlutverk Adríönu sem er ástkona Garðars og Diljá Valsdóttir fer með hlutverk eiginkonu hans.

Óðinn segir að þeir séu að breyta um stefnu sem að leikfélög MH undanfarin ár hafa farið.

“Menntaskólinn við Hamrahlíð er frægur fyrir að setja upp sýningar sem eru öðruvísi og fá alla til að hugsa. Á einum fundi kviknaði sú hugmynd að setja upp fallega sögu, að gera eitthvað skemmtilegt og líflegt. Okkur langaði að prufa að fara í þá átt.”

Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir sýningunni en hann hefur leikstýrt ótal sýningum, og má því búast við því að þetta verði meira en lítið flott. Magnús sem að sér um að markaðssetja sýninguna segir að þau séu að gera sýningunni að miklu stærri viðburði en leiksýningar MH hafa verið áður.

“Undanfarin 10 ár hafa sýningarnar alltaf verið sýndar í undirheimum MH. Þær hafa ekki verið auglýstar mikið út fyrir skólann. Meira bara fyrir nemendur í skólanum og aðstandendur sýningarinnar, fyrrverandi MH-ingar mæta svo stundum á sýningar. Við erum að færa okkur yfir í miklu stærra rými og við ætlum að gera sýninguna að mun stærri viðburð.”

Óðinn segir að þeir séu að höfða til stærri markhóps en áður. “Við erum að fara í alla helstu grunnskólana með kynningar. Það er miklu meiri vinna sem fór í að skapa fjármagn heldur en áður og meiri hugmyndavinna.”

Sólrún Sen