Hvar eru konurnar?

María Lóa Ævarsdóttir skrifar:

Black-Widow-Avengers-920x584.jpg

Þegar nýju ofurhetju myndirnar keppast við að fá sem mestan pening út úr frumsýningum fer maður að velta ýmsu fyrir sér. Af hverju virðast bara vera karlmenn sem berjast við ill öfl með kröftum sínum? Af hverju fær hver ofurmaðurinn á fætur öðrum titilmynd með kvenkyns elskhuga og fyndinn besta vin? Hvar eru ofurkonu myndirnar með karl eða kvenkyns elskhuga og fyndna bestu vinkonu?

Mest lesið

Ég sem mikill ofurhetju og myndasögu aðdándi, hef alltaf beðið eftir bíómynd um Black Widow (Svörtu Ekkjuna) þar sem farið er aftur í tímann og saga hennar rakin, rétt eins og var gert þegar Kafteinn Ameríka kom fyrst á skjáinn.

Ég man þegar ég fór á þá mynd í bíó. Ég var lítil skotta sem vildi endilega fara með bróður mínum og pabba okkar á hana og þrátt fyrir að bróðir minn var tregur til þá var ákveðið að ég mátti koma með á myndina. Vegna þess hve ung ég var skildi ég ekki mikið en mér fannst myndin algert æði!

Eftir að sjá hana varð ég hugfangin af öllu sem tengdist ofurhetjum og þaðan kom þessi mikli áhugi minn í dag. Það sem ég tek eftir í dag sem ég tók auðvitað ekki eftir þegar ég var yngri var sú staðreynd að það var aðeins ein aðalpersóna kvenkyns í Kaftein Ameríku: Fyrsti Hefnandinn (Captain America: The first Avenger)

Það kom mér á óvart þegar ég horfði loks á myndina aftur einhverjum fjórum árum seinna og tók eftir því að hún stóð þarna, eina kvenkyns aðalpersónan, með sterka stöðu og rauðmálaðar varir. Ég hugsaði mikið um þetta þar sem ég heillaðist af persónuleika Peggy Carter og hvernig hún skaraði fram úr sem virtist vera eina konan í stjórnarstöðu í hernum, í myndinni.

Af hverju voru ekki fleiri konur eins og Peggy í hinum ofurhetjumyndunum?

Allar ofurhetju myndirnar sem ég sá fjölluðu að miklu leyti um það sama. Kúl ofurhetju gaur sem lamdi vondu karlanna og eina konu sem var honum til taks. Ég lifði mig samt inn í hlutverk allra kvennanna sem voru ótrúlega ólíkar þrátt fyrir að vera fáar.

Einu sinni þegar ég var að ráfa um internetið rakst ég alveg óvart á hugtak úr ofurhetju heiminum. Það kallast á góðri íslensku ,,refrigerator syndrome” eða ,,women in refrigerators”

Hugtakið fjallar um það þegar kona í myndasögu er meidd, drepin eða missir krafta sína bara til að halda söguþræðinum gangandi fyrir karlmannshetjuna.

Hugtakið er upphaflega rakið til vefsíðu sem var sérstaklega stofnuð til að safna saman lista af öllum þeim karakterum sem höfðu lent í þessu.

Gail Simone er konan sem byrjaði umræðuna, en hún hefur skrifað myndasögur fyrir bæði DC og Marvel. Hún kom með þetta hugtak eftir að hún las tölublað úr Green Lantern seríunni þar sem kærasta aðalhetjunar, Kyle Rayner, er drepin af óvini hans og er troðið inn í ísskápinn hans. Simone setti upp vefsíðu til að vekja athygli á fjölda sambærilegra atvika í ofurhetjusögum.

Kvenkyns hetjunum er kastað í burtu, sem er bæði sorglegt og óásættanlegt.

Auðvitað eru aðilar sem munu strax segja ,,er þetta ekki nóg fyrir ykkur?” eða ,,það er aldrei hægt að gera ykkur til geðs.” Auðvitað erum við ánægðar með að til séu kvenkyns ofurhetjur yfir höfuð, en við ættum ekki að þurfa að sætta okkur við að þær séu alltaf í aukahlutverki.

Magnið af ofurhetjumyndum þar sem lítill strákur hjálpar ofurhetjunni þegar hún er í hættu er gífurlegt. Hvar er litla stelpan sem sparkar byssu til Svörtu Ekkjunar þegar hún er í hættu? Hvar er unglings stelpan sem nær niður vondum kalli til að bjarga Kafteinunum?

Black Panther kemur inn í ofurhetju kvikmynda heiminn með ferskt viðhorf og ólíkar, flottar konur í aðalhlutverkum auk þess sem að myndin sýnir fjölbreytta menningarheima. Þessi mynd er ótrúleg bæði þegar kemur að jafnrétti og fjölbreytileika og þegar kemur að söguþræði.

Ég vil samt meira. Mig langar að konurnar í ofurhetju myndum fái að bjarga deginum sem sínar eigin ofurhetjur. Þær eru að berjast við vondu karlana og þær eru aðilarnir sem sjá til þess að mannkynið sjái annan dag. Ég vil ekki lengur horfa upp á kvenkyns aukapersónur með sterkan persónuleika og 75% líkur á dauðsfalli. Það sem ég vil sjá er ofurkonu, ekki konu í neyð.

Sólrún Sen